ALÞINGISKONUR Íslands æfa nú leikritið Píkusögur eftir Eve Ensler. Verkið verður sýnt á V-daginn, miðvikudaginn 1. mars. Framtakið verður að teljast óvenjulegt, enda taka þátt allar þingkonur þjóðarinnar sem verða á landinu sýningarkvöldið, auk einnar varaþingkonu.
Píkusögur hafa verið notaðar um heim allan í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Alþjóðlegu V-dagssamtökin voru stofnuð í kringum verkið en markmiðið er að binda enda á ofbeldi gegn konum um víða veröld.
"[Þingkonurnar] eru náttúrlega allar ákaflega uppteknar en eru mjög skipulagðar, mæta stundvíslega og hafa hellt sér af krafti út í þetta," segir leikstjórinn María Ellingsen.
Æfingaaðstaðan er á Hótel Radisson SAS 1919, rétt hjá Alþingi, þannig að þingkonurnar geta skotist þaðan þegar þær hafa tíma. "Sjálf bý ég á Vesturgötunni þannig að ég hleyp þá til móts við þær," segir María.
Auk Maríu er í Morgunblaðinu í dag rætt við fulltrúa íslensku V-dagssamtakanna og nokkrar þingkonur.
Þær eru sammála um að góður andi sé í hópnum og svolítil vinkonu- og stelpustemning, eins og þær lýsa því.
"Það er náttúrlega afskaplega skemmtileg tilbreyting að fara úr daglegum störfum á Alþingi og upp á svið í Borgarleikhúsinu," segir Arnbjörg Sveinsdóttir. Kolbrún Halldórsdóttir bendir á að það sé frábært að þingkonurnar fái tækifæri til að horfa hver á aðra sem þær manneskjur sem þær séu, en ekki endilega í gegnum pólitísku gleraugun sem þær noti dagsdaglega. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir segir konurnar hafa fengið að nálgast viðfangsefnið á skemmtilegan hátt og að mati Jónínu Bjartmarz hafa þingkonur haft gott af því að setjast niður sem hópur og ræða ofbeldi gegn konum.
"Ég held að það að konur á þingi standi saman á þennan hátt og séu allar orðnar málsvarar og talsmenn gegn kynbundnu ofbeldi geti skilað sér mjög langt," segir Guðrún Ögmundsdóttir.