Stjórnvöld í Saudi-Arabíu reyndu í gær að fullvissa umheiminn um að olíuframleiðslu í landinu væri engin hætta búin eftir að hryðjuverkamenn gerðu misheppnaða tilraun til að fremja hryðjuverk í stærstu olíuhreinsunarstöð heims.

Stjórnvöld í Saudi-Arabíu reyndu í gær að fullvissa umheiminn um að olíuframleiðslu í landinu væri engin hætta búin eftir að hryðjuverkamenn gerðu misheppnaða tilraun til að fremja hryðjuverk í stærstu olíuhreinsunarstöð heims. Tveir öryggisverðir létu lífið og sömuleiðis tveir árásarmenn. Í fyrstu var ekki vitað hverjir hefðu staðið að baki tilræðinu, en í fyrrinótt lýstu hryðjuverkasamtökin al-Qaeda því á hendur sér.

Í olíuhreinsunarstöðinni í Abqaiq eru framleidd 10% af daglegum olíubirgðum heimsins og 70% þeirrar olíu, sem framleidd er í Saudi-Arabíu. Sérfræðingar hafa löngum bent á að í Abqaiq væri veikasti hlekkurinn í olíuframleiðslu Saudi-Arabíu. Ef framið væri hryðjuverk þar gæti framleiðslan farið úr 6,8 milljónum olíufata á dag niður í eina milljón fata fyrstu tvo mánuðina á eftir. Langan tíma tæki að koma vinnslunni aftur af stað og er talið að eftir sjö mánuði yrði aðeins búið að koma vinnslunni upp í 40% af því, sem hefði verið fyrir árás. En Abqaiq er ekki eini viðkvæmi staðurinn í olíuæðakerfi landsins. Í Saudi Arabíu er olía unnin á áttatíu svæðum og þar er að finna rúmlega þúsund olíubrunna. Robert Baer starfaði hjá bandarísku leyniþjónustunni, CIA, og er sérfræðingur í þessum málum. Í skrifum sínum um samskipti bandaríska stjórnvalda við Saudi-Arabíu segir hann að það sé álíka auðvelt að lama olíuframleiðslu Sauda og að skjóta fisk í tunnu. Olíuflutningakerfið sé berskjaldað, allt frá olíubrunnunum og leiðslum, sem liggja langa vegu, til olíuhreinsunarstöðva og hafna. Yfirvöld í Saudi-Arabíu segja sjálf að leiðslurnar, sem samtals eru rúmlega 17 þúsund kílómetrar, séu veikasti hlekkurinn í kerfinu. Alls starfa á milli 25 og 30 þúsund manns við öryggisgæslu og eiga að koma í veg fyrir að hryðjuverkamönnum takist að lama olíuframleiðsluna. Yfirvöld í Saudi-Arabíu reyna eðlilega að gera lítið úr árásartilrauninni í fyrradag, en það segir sína sögu að hryðjuverkamönnum, sem dulbjuggu sig sem starfsmenn saudi-arabíska olíufyrirtækisins Aramco og voru í bifreiðum merktum fyrirtækinu, tókst að komast inn í olíuhreinsunarstöðina með tvær bílsprengjur. Að þessu sinni sprungu sprengjurnar skammt frá öryggishliðinu og ekkert tjón varð, en hvað gerist næst? Við heyrum ekki oft fréttir af ástandinu í Saudi-Arabíu, en eftir sjálfsmorðssprengjuárásina í maí 2003 hafa öryggissveitir látið til skarar skríða gegn stuðningsmönnum Osama bin Laden og al-Qaeda. 90 óbreyttir borgarar, 54 liðsmenn öryggissveita og 125 meintir hryðjuverkamenn hafa látið lífið í ólgunni í landinu. Olía hækkaði um 2,37 dollara fatið á föstudag vegna þessara atburða og þykir það mikið. Í þetta sinn misheppnaðist árásin, en það þarf ekki mikið til að setja hlutina úr skorðum fyrir alvöru.