Falur Friðjónsson fæddist á Sílalæk í Aðaldal í S-Þingeyjarsýslu 1. desember 1926. Hann lést á hjúkrunardeildinni Seli á Akureyri 23. janúar síðastliðinn og var útför hans gerð frá Akureyrarkirkju 1. febrúar.

Elsku pabbi minn, það er svo margs sem ég minnist þegar ég hugsa um þig. Sérstaklega þegar ég var lítil stelpa og tók í höndina þína sem mér þótti alltaf svo gott að leiða og við gengum úti í náttúrunni og skoðuðum fuglana. Þú sýndir mér ungana eða eggin þeirra sem þú vissir nákvæmlega hvar, hver tegund valdi stað. Það var alveg sama hversu vel þau voru falin, þú gast alltaf fundið þau. Allar útilegurnar sem þið mamma fóruð með okkur systkinin í. Það var alltaf sama tilhlökkunin að fylla bílinn af farangri og keyra út í bláinn, tjalda á fallegum stað helst sem lengst frá byggð. Þú tókst kíkinn þinn alltaf með og gast tímunum saman fylgst með fuglunum og lofaðir mér að sjá líka. Náttúran var þér hugleikin og hvergi leið þér betur en úti á fallegum degi.

Þú leiddir mig líka oft niður á verkstæðið þitt við Kaldbaksgötuna og þar átti ég margar góðar stundir. Þú fórst í bláa sloppinn, settir á þig smíðabeltið og skyggnishúfuna, stakkst blýant bak við eyrað og söngst meðan þú smíðaðir. Ég lék lausum hala, negldi og sagaði spýtur eða sópaði sagið á gólfinu saman.

Þú varst fallegur maður, stór og sterklegur, afar snyrtilegur, handlaginn og vandvirkur. Hún fylgdi þér viðarlyktin og mér fannst hún alltaf svo góð. Vinnudagurinn hjá þér var venjulega langur og ég beið alltaf eftir að þú kæmir heim á kvöldin. Oftast varstu svo þreyttur, að þú sofnaðir yfir sjónvarpinu með kaffibollann í hendinni. Ég hélt nú líka oft fyrir þér vöku með því að láta þig segja mér sögur. Þú kunnir svo mikið af sögum og kvæðum. Um tíma söngst þú í Karlakór Akureyrar, enda söngur eitt af þínum aðaláhugamálum. Þú varst næstum alltaf syngjandi, sama hvað þú varst að gera. Árið 1980 lést mamma og það var þér afar þungbært. Ég reyndi að hugsa um heimilið eins og mamma hefði gert og þetta færði okkur enn betur saman. Á þessum árum fórum við í margar útilegur. Þú varst sá sem ég gat leitað til, þolinmóður og rólegur. Síðustu vinnuárin vannstu hjá Byggðaverki fyrir sunnan. Þá kom ég oft suður og gisti hjá ykkur ömmu í Kópavoginum. Þér þótti afar gaman að ferðast og hafðir víða farið m.a. til Rússlands, Afríku og Miðjarðarhafslanda. Mest dáðist þú að Ítalíu, menningu hennar og listum. Ég var svo heppin að þú bauðst mér til Skotlands haustið 1993. Mun ég ætíð gleðjast yfir að eiga myndirnar frá þeirri ferð, sem var síðasta utanlandsferð þín.

Þegar þú hættir að vinna fluttirðu aftur norður. Svo sannarlega fékkst þú að kynnast sorginni, því hún kom aftur í heimsókn og með átta ára millibili misstirðu tvö af börnunum þínum. Árið 1998 fór heilsu þinni að hraka. Sem betur fór gastu verið heima eins lengi og hægt var, en fluttir síðan á hjúkrunardeildina Sel og dvaldir þar í tæp fjögur ár. Sendi ég starfsfólkinu þar mínar bestu þakkir. Eftir fimm vikna erfið veikindi, varð ég svo að sleppa hendinni þinni sem ég hafði haldið svo mikið í. Þegar minn tími kemur, pabbi, veit ég að þú réttir mér hana aftur og leiðir mig á nýjar slóðir.

Þín dóttir,

Sigríður Hrönn.