Ingvar Ágústsson fæddist í Reykjavík 19. ágúst 1938. Hann lést af slysförum mánudaginn 6. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Ágúst Ingvarsson vélstjóri, f. 1. ágúst 1904 í Reykjavík, d. 4. júní 1980, og Sigrún Jónsdóttir húsmóðir, f. 5. apríl 1908 á Eyrarbakka, d. 22. febrúar 1993. Bróðir Ingvars er Gunnar Jón, f. 31. ágúst 1944, kvæntur Signýju Þorsteinsdóttur, og eiga þau þrjú börn.

Ingvar kvæntist hinn 28. september 1974 eftirlifandi eiginkonu sinni Bergþóru Ögmundsdóttur, f. 30. apríl 1941 á Hvammstanga. Foreldrar hennar voru hjónin Ögmundur Kr. Sigurgeirsson bóndi, f. 3. júní 1901 á Fallandastöðum í Hrútafirði, d. 11. apríl 1969, og Anna Gunnlaugsdóttir húsmóðir, f. 31. júlí 1900 á Stóru-Borg í V-Húnavatnssýslu, d. 13. desember 1993. Sonur Ingvars og Bergþóru er Ágúst Ottó f. 11. júní 1974, kvæntur Jóhönnu K. Jóhannsdóttur og eignuðust þau þrjá syni. Börn Bergþóru af fyrra hjónabandi og fósturbörn Ingvars eru: 1) Anna Gyða Rebekka Reynisdóttir, f. 11. ágúst 1961, gift Vincenzo R. Piras, eiga þau saman eina dóttur, en fyrir átti hún fimm börn og eru barnabörnin tvo. 2) Ögmundur Smári Reynisson, f. 30. ágúst 1962, í sambúð með Jónínu Skaftadóttur og á hann fimm börn og Jónína einn son. 3) Hulda Björg Reynisdóttir, f. 24. september 1965 og á hún tvö börn.

Ævistarf og jafnframt áhugamál Ingvars tengdust alla tíð bílum og vélum. Hann vann á árum áður meðal annars hjá Þungavinnuvélum og Vöku, en frá árinu 1973 og alla tíð síðan ráku þau hjónin sitt eigið vélaflutningafyrirtæki á hans nafni.

Útför Ingvars var gerð frá Bústaðakirkju 17. febrúar sl. - í kyrrþey að hans ósk.

Flest börn kynnast foreldrum sínum við fæðingu en kynni okkar pabba hófust þegar ég er fjögurra til fimm ára og hann fór að venja komur sínar á heimili okkar. Mamma var þá fráskilin með þrjú börn svo að fjölskyldan varð strax stór þegar sambúð þeirra hófst. Það var síðan sumarið 1971 sem við flytjumst í Blesugrófina þar sem búskapur þeirra stóð alla tíð síðan. Litli bróðir bætist síðan í barnahópinn en aldrei fundum við hin systkinin fyrir því að pabbi hafi hampað honum neitt meira en okkur. Ef ég á að lýsa pabba í stuttu máli var hann stórhuga og áræðinn, barngóður og greiðvikinn. Það var heldur aldrei nein lognmolla í kringum hann, pabbi talaði hátt, var ræðinn, gamansamur og afskaplega stríðinn á stundum. Hann hafði gaman af því að hitta fólk og spjalla, helst að vera hrókur alls fagnaðar, en hann hafði samt ekki eirð í sér til að stoppa of lengi við, þurfti oftast að fara að gera eitthvað annað, enda var hann sífellt að. Hann var fæddur og uppalinn í Reykjavík sem honum fannst vera nafli alheimsins, enda skildi hann ekkert í því þegar ég flutti út á landsbyggðina, alla leið suður í Hafnarfjörð! Eftir það var ég og mín fjölskylda alltaf kölluð "Hafnfirðingarnir".

Það er af nógu að taka til að rifja upp, t.d. allar ferðirnar í Múlakaffi hér áður fyrr þar sem ég fékk að fara með þegar pabbi fór að hitta hina strákana til að spjalla. Á seinni árum fór hann ásamt mömmu í kaffi á sunnudögum niður á BSÍ að hitta strákana og var það orðin ein af þeirra föstu venjum. Foreldrum mínum þótti gaman að ferðast og síðustu 15 árin fóru þau oftast í stuttar utanlandsferðir eftir að hafa ferðast innanlands árin þar á undan. Fyrir dyrum stóð að fara í langt og langþráð frí til Kanarí, heilar þrjár vikur, en svo lengi höfðu þau aldrei verið erlendis áður. Ég trúi því að pabbi verði með mömmu þegar hún fer í fríið þeirra þó að það muni óneitanlega fara minna fyrir honum en hans var vani.

Að lokum vil ég þakka pabba fyrir að hafa alltaf verið til staðar og fyrir að hafa verið pabbi minn.

Þín dóttir

Hulda Björg.

Hinn 6. febrúar fengum við þær hræðilegu fréttir að Ingi hefði dáið í hörmulegu slysi. Þessar fregnir komu sem reiðarslag yfir okkur öll. Það er svo erfitt að sætta sig við þegar slys ber að höndum og við spyrjum af hverju, en það er fátt um svör.

Ingi sem var ávallt svo hress og kátur, stutt í stríðni og grín, er farinn frá okkur. En hann gleymist aldrei.

Ingi var þekktur fyrir vinnusemi sína en jafnframt fyrir greiðasemi. Hann vildi öllum vel og þá sérstaklega fjölskyldu sinni. Börn hændust að honum og hafa alla tíð gert, eins og eitt af barnabörnum hans sagði: "Hann afi er góður."

Ég mun alla tíð vera þakklát honum og konu hans Bergþóru fyrir hversu vel þau tóku á móti mér og syni mínum inn í fjölskylduna og litu á okkur eins og við hefðum alltaf tilheyrt þeim.

Það er erfitt að kveðja Inga og þótt árin hafi ekki verið mörg sem hann var í mínu lífi þá á ég fullt af minningum um hann sem ég geymi í hjarta mínu.

Elsku Bergþóra. Orð mega sín lítils á svona stundu, það er stórt skarð höggvið í líf þitt. Ég bið þess að Guð gefi þér styrk á þessum erfiðum tíma.

Elsku Anna Gyða, Ögmundur , Hulda og Gústi, ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð.

Guð blessi minningu Ingvars Ágústssonar.

Jónína Skaftadóttir.

Hann afi minn var og verður besti afi í heimi. Afi var fyndinn og skemmtilegur og bara æðislegur afi. Ég veit að afi er ennþá til, því þótt hann sé ekki í líkamanum sínum þá er hann í hjartanu mínu.

Ég var lítið barn

og ég spurði móður mína

hver munur væri á gleði og sorg.

Móðir mín strauk yfir hár mitt og svaraði:

Sá maður sem aldrei kennir sorgar í hjarta sínu

getur ekki glaðst

því hann þekkir ekki sorgina.

(Þórunn Magnea.)

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Þín afastelpa

Tinna Húnbjörg Einarsdóttir.

Ég skal vaka og gráta

af gleði yfir þér

því Guð átti ekkert betra

að gefa mér.

(Davíð Stef.)

Margrét Anna Ögmundsdóttir.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson.)

Einar Bjarki Ómarsson.

Stjörnurnar, sem við sjáum

sindra um himininn,

eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,

er hann grét í fyrsta sinn.

(Davíð Stef.)

Sigurður Leó Ögmundsson,

Ingvar Óli Ögmundsson.

Eg vil fara eitthvað

langt langt burt

svo enginn geti að mér sótt,

enginn til mín spurt,

engin frétt, engin saga

eyrum mínum náð.

Eg vil aldrei troða akur

sem aðrir hafa sáð.

(Davíð Stefánsson.)

Ögmundur Eron Ögmundsson.