Böðvar Ingi Þorsteinsson fæddist í Grafardal 8. september 1936. Hann lést á sjúkrahúsi Akraness 2. febrúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd 8. febrúar.

Fyrirmyndarbýlið í heiðinni, sagði Bjarni Benediktsson frá Hofteigi. Þar brá hann upp mynd af Grafardalsheimilinu eins og það kom honum fyrir sjónir um miðja næst liðna öld. Þeir bræður, Jón og Þorsteinn og eiginkonur þeirra, Salvör og Jónasína, fluttu að Grafardal 1930. Því var betur að næstu þrír áratugir reyndust góðæri. Með ómældri vinnusemi og atorku endurreistu þau og juku allan húsakost býlisins og ræktuðu véltæk tún. Bjuggu af slíkri snyrtimennsku, á allan hátt, að eftir var tekið. Þarna ólust þau upp í frændsystkinahópnum, Þura og Bubbi. Tíminn leið við önn og leik.

Á þessum árum var sjálfsnægtabúskapur stundaður á hverju býli í Skorradal og nærsveitum. Samgangur búfjár var milli bæja og sveita og samvinna við smalanir vor og haust. Mér eru smalamennskur í Grafardal minnisstæðar. Smölun varð þar í afdalakyrrðinni að margmennri og glaðværri útisamkomu.

Í dag undrast ég hvað mér finnst að þarna hafi verið glatt á hjalla meðal þessara bænda sem börðust við að framfleyta sér og sínum á sauðfjárrækt við þær aðstæður sem mæðiveikin skóp. Mikil og góð umskipti urðu með fjárskiptunum þegar heilbrigt fé kom aftur á svæðið. Þungt áfall var Grafardalsheimilinu þegar Salvör veiktist og dó. Áfram studdu þessar fjölskyldur hvor aðra.

Tíminn leið og systkinahóparnir dreifðust til að sækja sér menntun og vinnu. Bubbi varð búfræðingur frá Hvanneyri. Vonin um að hann tæki við búi hélt eldmóði föður hans uppi. Nú byggðu þeir fjárhús með trégrindagólfi, að nýjustu kröfum þess tíma, og gott hesthús við því að tómstundayndi Bubba var að sinna hrossum og temja.

Suður á Hvalfjarðarströnd var Hvalstöðin í fullum rekstri. Þangað fór Jón til vinnu og unga fólkið líka. Svo kom að því að unga kynslóðin stofnaði sínar fjölskyldur. Nýtt íbúðarhús hafði verið reist í Grafardal. Böðvar og kona hans, Ásrún, tekið þar við búi. Gömlu hjónin, Þorsteinn og Jónasína bjuggu í Garðshorni.

Ég man Þuru segja mér frá stórkostlegum páskahátíðum í Grafardal þegar Bubbi breytti vélsleða sínum í skíðalyftu fyrir nýja upprennandi æsku. Tíðarfar tók að kólna upp úr 1960. Kal skemmdi votlend tún sem lágu hátt. Samgöngur voru erfiðar að vetri, langt fyrir börn að sækja skóla sem nú var Heiðarskóli. Svo kom að ungu hjónin brugðu á það ráö að flytja búskap sinn að Þyrli á Hvalfjarðarströnd. Nýgrein bættist við búskapinn, umhirða æðarvarps í Þyrilsnesi. Bubbi var góð skytta, skaut bæði hlaupadýr og lá á grenjum. Hver leggur nú rjúpu og mófuglum lið á Botnsheiði með því að fækka ref eða reynir að vernda æðarfugl með því að bana mink við Hvalfjörð?

Síðasta sinn sem ég naut gleðistundar með þessum frændsystkinahópi öllum, var þegar Stína bauð mér með sér í afmælissamsæti sem þau héldu Jónasínu áttræðri, fram í Grafardal 11. sept. 1988. Þá var Böðvar Jónsson orðinn eigandi að eyðibýlinu Grafardal. Þar var allt til reiðu svo að hægt var að halda fjölmenna veislu. Man að ég sagði þá víð hann. "Það vildi ég að öll eyðibýli ættu svona góða að".

Síðast kom ég að Grafardal 12. júní 2005. Þá voru þeir frændur, Böðvar og Kristján að gróðursetja og hlúa að matjurtum sínum. Kaffiborðið hjá Ólafíu var að gestrisinna bænda sið. Allar minningar mínar um þessa hjálpsömu og greiðviknu granna er gott að muna og rifja upp. Samúðarkveðjur til allra sem sakna. Blessuð sé minning þessa góða fólks.

Sigríður Höskuldsdóttir.