Ásgeir Friðgeirsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Ásgeir Friðgeirsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flugan setti sig vandlega í stellingar fjórða valdsins um liðna helgi og flaug skelegg í humáttina á eftir fjölmiðlafólki nánast allan laugardaginn, í þeirri von að koma auga á þekkt andlit.

Flugan setti sig vandlega í stellingar fjórða valdsins um liðna helgi og flaug skelegg í humáttina á eftir fjölmiðlafólki nánast allan laugardaginn, í þeirri von að koma auga á þekkt andlit. Fyrsti viðkomustaður hinnar vængjuðu samkvæmisdömu var opnun árlegrar sýningar Blaðaljósmyndarafélags Íslands , þar sem hulunni var svipt af bestu myndum ársins 2005. Eins og lög gera ráð fyrir dró Flugan fram ljósan rykfrakka, nagaðan blýant og gormaskrifblokk áður en hún arkaði af stað í Gerðarsafn í Kópavogi , nógu seint til þess að koma ekki púkalega snemma, en því miður hattlaus, og því niðurrignd og framlág er hún hrasaði inn um framdyrnar. Flugan smokraði sér inn fyrir en áttaði sig svo á því, að líklega hefði verið svalara og meira "með á nótunum" að mæta með flotta myndavél á öxlinni. Eftir nokkurra mínútna oföndunarkast á salerninu herti hún upp hugann, sveiflaði hárinu táknrænt með snöggum hálsrykk og blandaði sér þvínæst í hóp boðsgesta og horfði lengi og gáfulega á bestu myndirnar. Þess á milli gætti hún þess að kinka kolli, kveða við "aha" á hárréttu augnabliki, og nudda hökuna sannfærandi. Flugan staldraði lengi við fréttamynd ársins, Í skugga Davíðs, og velti fyrir sér hvernig stæði á því að Ragnar Axelsson ljósmyndari hefði gleymt að kveikja á flassinu, en hristi það svo af sér og reyndi að troða sér inn í hóp gestanna sem verið var að taka myndir af fyrir samkvæmissíður blaðanna. Án árangurs.

Svo kom Flugan auga á arftaka Skugga-Davíðs, Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, og ákvað að elta heldur einn valdamesta mann landsins og reyna að heyra hvað hann var að segja (og láta hina gestina halda að þau væru samferða). Vonandi bilar flassið ekki líka þegar Halldór hverfur af sjónarsviðinu.

Flugan náði reyndar ekki að skoða allar 230 myndirnar á sýningunni, þar sem hún var frekar upptekin, og þegar hún var búin að klóra sér í kollinum yfir freknótta sundstráknum á portrettmynd ársins eftir Braga Þór Jósefsson (er alveg hætt að "sjoppa" myndir?) flýtti hún sér heim á leið til þess að velja hátíðarklæðnað fyrir Pressuball Blaðamannfélags Íslands á Hótel Borg . Reyndar kom berlega í ljós, að hún hefði vel getað sparað sér gúrkumaskann og hátíðarfataleiguna, svo lítið lögðu ballgestir upp úr heildaryfirbragðinu (og sumir meira að segja í fötum frá því í fyrra). Það er greinilega engin goðsögn, að blaðamenn séu almennt ófínir í tauinu. Þeir eru að minnsta kosti ekki að lesa tískufréttir og skoða myndirnar, hefur Flugan áttað sig á. Jæja, vonandi verja þeir tímanum í aðhald og uppljóstranir í staðinn.

Flugan man ekki þá tíð er Pressuböllin voru fínustu böllin í bænum og erlend fyrirmenni regla en ekki undantekning á lista boðsgesta, en bíður þess í ofvæni að svo verði aftur á ný. Það má ekki plata Fluguna svona. Svo kalt var á Borginni að Flugan hefði betur verið hallærislega þjóðleg (ekki eins og Evró-rusl) og munað eftir Álafossteppinu og nælt sér í ullarvettlingana , viðurkenningu Myndlistarakademíu Íslands , fyrir bestu förðunina. Kannski hefði verið hlýrra ef gestafjöldinn hefði náð einu hundraði og til þess að hækka líkamshitann á ný, brá Flugan á það ráð að taka næsta graskersvagn alla leið upp að Broadway og fara og glenna sig framan í norsku Bítlana . Þrátt fyrir algera "celeb"-þurrð, steig hún villtan dans, suðaði fullum hálsi og reyndi að troða sér upp á svið áður en hún sofnaði í miðju Hard Days Night.

Flugan reif sig upp fyrir allar aldir á konudaginn, dustaði mesta glimmerið af vængjunum, og ákvað að sýna sig í "brunch" á hótel Nordica , þar sem hægt er hella í sig ótæpilega af kampavíni með matnum. Í veitingasalnum var allt fullt af fjölskyldum og venjulegu fólki, en til allrar hamingju kom Flugan auga á Ara Sigvaldason fréttamann og Ilmi Kristjánsdóttur leikkonu og Stelpu með meiru. Enn meiri sælu vakti barnagæslan í anddyrinu, enda getur Flugan ekki hugsað sér að ná áttum eftir ævintýri helgarinnar innan um bandóða pottorma. Þegar hún gaf sér tíma til þess að líta upp úr glasinu sá hún glitta í Björn Ólafsson Everest-fara og Helgu Thors . Kannski hafa þau verið að fagna Aþenuferð Silvíu Nóttar , Homma og Nammi ? Nammi , það er Björn Thors , er nefnilega yngri bróðir Helgu , veit Flugan fyrir víst.

Flugan gæti alveg séð sjálfa sig fyrir sér í svona glimmer-hotpants à la Hommi og Nammi um næstu helgi. "Be afraid. Be very afraid." | flugan@mbl.is