Hrafnhildur Sigurðardóttir fæddist í Neskaupstað 13. okt. 1932. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 1. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson skipstjóri og Guðlaug Sigurðardóttir húsmóðir sem bjuggu í Neskaupstað.

Hrafnhildur giftist Jónasi Hólm loftskeytamanni, f. á Eskifirði 12. des. 1930, d. 21. júlí 1991. Þau Hrafnhildur og Jónas bjuggu í Neskaupstað til ársins 1974 en fluttu þá til Hafnarfjarðar og áttu þar heimili upp frá því. Einkasonur þeirra er Herbert Hólm, f. 12. ágúst 1956. Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og er búsettur í Hafnarfirði.

Hrafnhildur vann við verzlunarstörf fyrst og fremst.

Hrafnhildur var jarðsungin frá kapellu Kirkjugarða Hafnarfjarðar 9. febrúar.

Kær vinkona mín, Hrafnhildur Sigurðardóttir, hefur kvatt eftir erfitt sjúkdómsstríð og áföll lífsins. Þar fór glæsileg kona, góð kona ekki síður.

Ég man enn þegar ég sá hana fyrst á götu hér í Reykjavík með verðandi eiginmanni sínum og varð starsýnt á þetta fallega par sem bar sig svo vel og spurði vin minn sem mér varð samferða og hafði heilsað þeim hvaða stórglæsilega fólk þetta væri og hann svaraði mér að þetta væru þau Hrafnhildur Sigurðardóttir frá Neskaupstað og Jónas Hólm frá Eskifirði. Myndin af ljómandi og hlýju brosi hennar er enn dagljós í minni mínu. Frekari kynni síðar af Hrafnhildi leiddu í ljós að ekki var innri ljómi hennar síðri. Á sviði áhugaleikstarfs eystra lágu svo leiðir okkar Hrafnhildar saman, hún var ágæt leikkona, einkar skýrmælt og kunni vel að beita leikrænni tjáningu og bauð svo af sér þennan hrífandi þokka á leiksviðinu eins og alls staðar annars staðar. Við urðum ágætis vinir og héldum alltaf nokkru sambandi eftir að suður kom, hún alltaf söm og jöfn í vermandi vinhlýju sinni, hvað sem á gekk. Hún bar með sér þessa fallegu og fáguðu framkomu og reisn um leið. Lífsáfallinu mikla, þegar Jónas dó á bezta aldri, tók hún af yfirvegaðri ró en mér fannst hún aldrei verða söm eftir, heilsufar hennar hvergi nærri gott, þótt hún væri óvílin og kvartaði ekki. Hrafnhildur átti mikla og mæta mannkosti, hæfileikarík kona sem hefði svo margt getað tekið sér fyrir hendur og hvar sem hún vann og fór var hún vinsæl og verkadrjúg. Dýrmæt vinátta hennar og veitul kynni eru af alhug þökkuð. Ég á þess því miður ekki kost að fylgja henni Hrafnhildi síðasta spölinn svo sem verðugt hefði verið, en sendi einkasyninum hlýjar og einlægar samúðarkveðjur, svo og öðrum þeim er áttu hana Hrafnhildi að, allra helzt henni Björk frænku hennar sem var Hrafnhildi sú stoð sem aldrei brást. Við síðustu samfundi okkar sá ég að henni Hrafnhildi var mjög brugðið, en ennþá átti hún þetta bjarta, einlæga bros og hressileika í máli þrátt fyrir allt og allt. Og nú hefur hún kvatt okkur hinztu kveðju og söknuður ríkir í sálu. Munabjört er hún minningin um þessa fallegu og hjartahlýju konu. Blessuð sé minning Hrafnhildar Sigurðardóttur.

Helgi Seljan.