Í sjónvarpi okkar tíma er ekkert vinsælla en raunveruleikasjónvarp og þótt sjónvarpsflóran í þessum efnum sé fjölbreytt hér og þar um heiminn þá hafa Íslendingar eiginlega ekki náð flugi í eigin framleiðslu á þessu sviði nema í tveimur þáttum.

Í sjónvarpi okkar tíma er ekkert vinsælla en raunveruleikasjónvarp og þótt sjónvarpsflóran í þessum efnum sé fjölbreytt hér og þar um heiminn þá hafa Íslendingar eiginlega ekki náð flugi í eigin framleiðslu á þessu sviði nema í tveimur þáttum.

Þeir fjalla báðir um hús og innréttingar því ekkert elskum við eins heitt og húsið okkar nema kannski okkur sjálf.

Ég er auðvitað að tala um sjónvarpsþættina Innlit útlit annars vegar og Veggfóður hins vegar. Ég nenni ekki að telja með einhverja draslþætti sem klámkynslóðin hefur framleitt um sjálfa sig og mökunaratferli sitt því enginn þeirra hefur lifað lengi. Af þessu mætti ætla að sjónvarpsáhorfendur hefðu almennt meiri áhuga á innréttingum, hönnun og húsbúnaði en kynlífi og það kann vel að vera rétt.

Þetta endurspeglar það mat íslenska samfélagsins að húseigendur séu alminlegt fólk en leigjendur pakk. Sá sem ekki getur eignast þak yfir höfuðið er sennilega aumingi en hetjur mæla hamingju sína í fermetrum. Staðreynd er að hér hefur lengi verið hærra hlutfall húsnæðis í séreign en í flestum öðrum löndum og lengi verið talið endurspegla sérstakt hetjuinnræti Íslendinga frekar en undarlegt efnahagslíf.

Og fólkið sem kemur með húsin sín í sjónvarpið er oftast hamingjusamt að sjá, verðbréfasalar og fatahönnuðir rétt yfir þrítugt sem voru að kaupa fyrstu íbúðina sína eftir langskólanám og hún er svo flott staðsett í Þingholtunum að verðið hækkaði um 10% rétt á meðan þau skruppu út í búð til að velja nýja parketið.

Ekkert drasl hefur orðið innlyksa í eigu þessa fólks, enginn gripur úr fortíðinni og smæstu hlutir eru valdir af kostgæfni úr réttri búð eftir réttan hönnuð því þannig nást flest tækifæri fyrir húseigandann til þess að sýna ólíkar hliðar á persónuleika sínum.

Sýndu mér eldhúsið, sófann og flatskjáinn og ég skal segja þér hver þú ert.

Því ég er húsið mitt og það sést hvergi eins vel og þar hvernig persóna ég vil vera.

En svo eru það óhreinu húsin hennar Evu.

Um allt land grotna niður hægt og rólega reisulegir minnisvarðar um harðduglega aflakónga og bónusdrottningar sem rifu upp 300 fermetra einbýlishús með útsýni yfir fjörðinn af því að þau höfðu trú á þorpinu og lífinu sem var lifað þar.

Svo einn daginn vaknar þorpið og það er enginn fiskur og enginn kvóti því Samherji og Brim hafa yfirgefið plássið í skjóli nætur með allt sitt hafurtask. Aflakóngurinn og bónusdrottningin sitja ein í höllinni og skoða myndir af barnabörnunum í tölvupósti sem fylgja með skeytunum þar sem spurt er undir rós hvort þau ætli ekki að fara að koma suður því þarna er ekkert lengur sem heldur í.

En dugnaðarforkarnir sem byggðu sér hús eru farnir að heilsu og kröftum. Krafturinn fór í húsið góða sem skýldi börnunum sem uxu úr grasinu og hurfu út í heiminn. Húsið var ekki bara þak yfir höfuðið heldur sjálfsmynd þeirra orka og trú því ég er húsið mitt.

Og húsið góða er myllusteinn um háls eigenda sinna sem gætu ekki selt það nema fyrir andvirði ósamþykktrar kjallaraíbúðar í Vogahverfinu- hentar vel laghentum - íbúð með möguleika eins og sagt er á dulmáli fasteignaauglýsinga um það sem er sennilega hálfónýtt.

Þessvegna ríkir hljóð og bitur örvænting í hugum húseigenda á Kópaskeri, Breiðdalsvík og Flateyri sem sitja fyrir framan sjónvarpið og horfa á það sem þau gætu hafa orðið.

Því ég er húsið mitt. | lysandi@internet.is

Pistill Páll Ásgeir Ásgeirsson