Ljósvaki var óánægður með útsendingar Sýnar frá leikjum í Meistaradeildinni á þriðjudaginn.
Ljósvaki var óánægður með útsendingar Sýnar frá leikjum í Meistaradeildinni á þriðjudaginn. — Reuters
SJÓNVARPSSTÖÐIN Sýn klúðraði heldur betur málum í útsendingu sinni frá Meistaradeild Evrópu á þriðjudagskvöldið.

SJÓNVARPSSTÖÐIN Sýn klúðraði heldur betur málum í útsendingu sinni frá Meistaradeild Evrópu á þriðjudagskvöldið. Þrír leikir voru sýndir í beinni útsendingu það kvöld, einn á Sýn, annar á Sýn Extra og sá þriðji á Sýn Extra 2, sem í sjálfu sér er frábært framtak hjá stöðinni. Þeir sem hins vegar ná ekki Sýn Extra, eins og ég, gátu horft á einn leik í beinni útsendingu, og svo hina tvo strax í kjölfarið. Sjálfur ætlaði ég að horfa á leik Real Madrid og Arsenal, og svo leik Bayern München og AC Milan, en sleppa síðasta leiknum, leik Benfica og Liverpool. Samkvæmt dagskránni hér í Morgunblaðinu, í Fréttablaðinu og í DV átti að sýna leikina í þessari röð. Að leik Real og Arsenal loknum horfðum við vinirnir á þátt þeirra Heimis Karlssonar og Guðna Bergssonar þar sem sýnd eru mörkin úr leikjum kvöldsins, en skiptum um stöð þegar sýnt var úr leik Bayern og AC, enda var það sá leikur sem við ætluðum að horfa á næst. Okkur brá því illilega þegar í ljós kom að næsti leikur sem var sýndur var leikur Benfica og Liverpool, en við vissum hvernig hann fór og höfðum því afar lítinn áhuga á að horfa á hann. Við sátum þó eitthvað áfram og vorum að íhuga hvort við ættum að bíða til miðnættis þegar leikur Bayern og AC átti að hefjast. Þegar tæpur hálftími var liðinn af leik Benfica og Liverpool kom hins vegar tilkynning þess efnis að Bayern hefði komist yfir gegn AC. Þar með var Sýn endanlega búið að klúðra kvöldinu, það var ekki nóg með að stöðin breytti áður auglýstri dagskrá heldur kom hún í veg fyrir að nokkur maður nennti að horfa á alla leikina þrjá í röð, því í öðrum leiknum sem var sýndur var tilkynnt um gang mála í þeim þriðja. Við vinirnir slökktum því á sjónvarpinu, fúlir og pirraðir.

Ég hef verið áskrifandi að Sýn nokkuð lengi og þetta er í fyrsta skipti sem ég man til þess að stöðin klúðri málum svona illilega. Þetta má auðvitað alls ekki gerast nú þegar nær dregur úrslitum í Meistaradeildinni, svo ekki sé nú talað um Heimsmeistarakeppnina í sumar. Sýn er á gulu spjaldi, fleiri klúður gætu kallað á það rauða.

Jóhann Bjarni Kolbeinsson