Frá Þorsteini Scheving Thorsteinssyni: "ÞRÁTT fyrir beinar gagnlegar spurningar sem óskað var eftir að sr. Þórhallur svaraði undirrituðum eða greininni "Búmerangið snýr aftur, séra Þórhallur" (Mbl. 24. jan. sl."

ÞRÁTT fyrir beinar gagnlegar spurningar sem óskað var eftir að sr. Þórhallur svaraði undirrituðum eða greininni "Búmerangið snýr aftur, séra Þórhallur" (Mbl. 24. jan. sl.), virtist sem lesendur fái ekki nein svör, ekki frekar en við greininni "Fordómar Þórhalls Heimissonar í garð trúleysingja" eftir Ólaf Gneista Sóleyjarson (Mbl. 26. jan. sl.). Ekkert af svörum virðast fást orðið frá séra Þórhalli. Hann hefur sagt að hann vilji "efla skynsamlega umræðu um trúarbrögð á Íslandi" og einnig að það sé markmið bókarinnar. Nú er komið að honum að reyna að standa við þessi orð eða svara þessari gagnrýni.

Það er orðin stór spurning af hverju hann auglýsti þessa umdeildu bók sína "Hin mörgu andlit trúarbragðanna" með stórri fyrirsögn, "Eyðum fordómum!" og "Bók sem boðar umburðarlyndi" í heilsíðu auglýsingu í DV? Ég hef sagt að þetta sé lúmsk aðför gegn trúarbrögðunum og öðrum hópum, hvað annað vakti fyrir honum? Þá er hann kom inn í umfjöllunina í bókinni öllum þessum kynlífstantrafræðum og í köflunum Jóga og hindúisma, Búddistar og Ananda Marga gagngert gegn þeim sem ekki viðurkenna þessi kynlífstantrafræði, svo maður tali nú ekki um öll gömlu kynlífshneykslismálin og misnotkun er presturinn dregur upp gegn kaþólsku kirkjunni (bls.182), mormónum (bls. 196) og fleiri.

Þá er alls ekkert skemmtilegt eða sniðugt að koma með svona lagað í bók og auglýsa síðan bókina með stórum stöfum "Eyðum fordómum!".

Annað varðandi umfjöllun hans um jóga sem ekki er sæmandi hjá honum gagnvart öllum sem stunda jóga, að flokka það allt undir átrúnað (bls. 102 og 105). Því þeir sem stunda jóga leikfimiiðkun líta ekki á þetta sem átrúnað, þó þeir notist við misjafnlega mikið efni úr jógafræðunum. Auk þess er jóga leikfimiiðkun hér á lamdi og annars staðar ekki flokkað undir söfnuði eða trúfélög.

Í grein sr. Þórhalls (Mbl. 22. jan. sl.). segir hann frá því að hafa starfað með ýmsum við vinnslu bókarinnar eins og t.d. þeim hjá Innhverfri íhugun, sem reyndar kenna sig við jóga og hindúisma eins og áður hefur verið bent á, en þeir geta ekki fallist á það sem höfundur bætti síðan við í umfjöllunina, þeim í óþökk, um að vera klætt í vestrænan búning og ýmislegt annað. Þá er það alrangt hjá honum að segja að formaður félags múslima eða félagsmenn hafi jafnan vísað mér frá, en samskipti okkar hafa hins vegar verið mjög vinsamleg. Misskilnings gætti hins vegar milli míns og Guðspekifélagsins, eða eins og það var orðað í tölvupósti til sr. Þórhalls og fleiri, en var af einhverjum ástæðum ekki sagt frá í Velvakanda (Mbl. 24. jan sl.) Hvað um það, þeir hjá félaginu virðast geta umborið það, að H. P. Blavasky sé nefnd "amma nýaldarhreyfingarinnar".

Þá er þegar komin reynsla á að skrá sig inn á námskeið hjá sr. Þórhalli gagngert til þess að mótmæla, því það virtist ekkert hafa að segja. Nei, nei, hann kemur aftur og aftur með þessar sömu endurtekningar sínar sem hann hefur notast við í meira en 10 ár og nú er mikið af þessu sama efni hans komið í þessa umdeildu bók, þrátt fyrir margar kvartanir og ábendingar.

Ég kalla þetta hjá sr. Þórhalli ekki að "virða trúarbrögð annarra trúfélaga" , hvað þá að "eyða fordómum", heldur hið gagnstæða með þessari fordómabók.

ÞORSTEINN SCH.

THORSTEINSSON,

Svarthömrum 33, Reykjavík.

Frá Þorsteini Scheving Thorsteinssyni: