— Ljósmynd: RAX
Einn og hálfur metri af vínylplötum, um 800 geisladiskar, á annað hundrað myndbandsspólur og 1.500-1.600 kassettur eru meðal muna í einstæðu safni Sverris Tynes.

Einn og hálfur metri af vínylplötum, um 800 geisladiskar, á annað hundrað myndbandsspólur og 1.500-1.600 kassettur eru meðal muna í einstæðu safni Sverris Tynes. Og það sem meira er - allt inniheldur þetta efni með tónlistarmanninum og andans snillingnum Frank Zappa.

Sverrir var þrettán ára þegar hann kynntist tónlist Zappa árið 1973 en þá rakst hann á plötuumslag sem prýtt var mynd af "ljótasta hóp sem ég hef nokkru sinni séð", eins og hann sjálfur orðar það. Það nægði til að vekja forvitni piltsins. "Ég varð bara að hlusta á þessa plötu og fraus þegar ég heyrði fyrsta lagið, It can't happen here . Eftir það varð ekki aftur snúið."

Platan sem hafði þessi áhrif á óharðnaða unglingssálina var Mothermania. "Á þessum tíma var ég bara barn og hafði ekkert efni á að kaupa allar plöturnar hans sem þá höfðu komið út. Hins vegar var ég það heppinn að þær voru ennþá fáanlegar, ef ekki hér heima þá erlendis." Hann segist hafa ferðast glettilega mikið til útlanda á þessum árum enda pabbi hans flugmaður. "Svo notaði maður foreldrana til hægri og vinstri þegar þau voru að ferðast og sendi þá alltaf með óskalista með sér." Í þá daga var líf safnarans ekki eins einfalt og nú til dags enda var þetta löngu fyrir tíma internetsins. "Heimurinn var miklu stærri en hann er í dag," útskýrir Sverrir. "Þegar ég var að byrja að skiptast á tónleikaupptökum við menn úti í heimi þurfti maður að handskrifa bréf upp á gamla lagið, kaupa frímerki og fara á pósthúsið og bíða svo í fleiri, fleiri vikur eftir svari."

Smám saman tókst honum þó að koma sér upp álitlegu Zappa-safni með upptökum af yfir 700 Zappa-tónleikum, sérútgáfum og svokölluðum bootleg-útgáfum, sem ganga grimmt á milli ástríðufullra Zappa-safnara, blaðaúrklippum, ljósmyndum, sjónvarps- og útvarpsviðtölum og svo mætti lengi telja. "Ég á marga sjaldgæfa hluti og safnið er ansi stórt, svo stórt að ég kem því ekki öllu fyrir í íbúðinni minni. En almennt held ég að menn séu ekki að metast í þessu söfnunarferli," segir hann hógvær.

Stungið af á flugvellinum | Upptökur og úrklippur nægðu þó ekki til að svala Zappa-fýsn Sverris sem lagði talsvert á sig til að sjá átrúnaðargoðið með eigin augum. "Ég sá hann fyrst 9. september 1978, þegar ég var 18 ára. Þá fór ég í vikuferð til London ásamt vinum mínum. Þetta var fyrir tíma kreditkortsins og maður þurfti sérstaklega að sækja um gjaldeyri þannig að þetta var svolítið vesen. Þegar við komum út sá ég að Zappa myndi spila í Knebworth, rétt utan við London, sama dag og ég átti að fara heim. Ég hugsaði að þetta yrði ég að sjá og keypti miða en lét engan vita. Heimfarardaginn pökkuðum við félagarnir svo saman og fórum út á flugvöll þar sem ég kvaddi hópinn og stakk af." Sverrir átti fyrir lestarfari á tónleikastaðinn þar sem hann kom sér fyrir fremst við sviðið. "Ég veit ekki hvort þetta er svipuð upplifun og þegar fólk er á trúarsamkomu en þegar Zappa kom og fyrstu tónarnir heyrðust fór straumur um mig. Svo var ég bara í dái alla tónleikana." Sverrir ljómar þegar hann rifjar þetta upp svo líklega eiga lýsingar hans við rök að styðjast. "Svo fór ég í lestinni til baka, svaf á flugvellinum um nóttina og kom mér einhvern veginn heim."

Fjögur ár liðu áður en Sverrir barði Zappa aftur augum en það var í Lundúnum í júní 1982. "Þar kom sonur hans, Dweezil Zappa, í fyrsta skipti fram með pabba sínum, þá tólf ára gamall og píííínulítill," segir hann með áherslu. "Með lítinn grænan gítar. Þá hafði hann verið í eitt ár í þjálfun hjá Steve Vai sem er einhver albesti gítarleikari sögunnar. Þetta á maður svo allt saman á upptökum." Sverrir rýkur á fætur og sækir geisladisk sem hann setur í spilarann og skyndilega heyrist djúp rödd Zappa kynna son sinn á svið. "Þetta eru kannski ekki bestu upptökur í heimi en þegar maður hlustar á þetta er eins og maður hverfi á staðinn aftur," bætir hann við. Í ljósi þessa er ekki undarlegt að Sverrir bíði spenntur eftir komu Dweezils og bróður hans Ahmets hingað til lands í sumar sem ætla að flytja landanum tónlist föður síns. "Auðvitað eiga allar frægar hljómsveitir einhver "coverbönd" en þetta er sjálfur heimavöllurinn," segir Sverrir upprifinn. "Þarna verða strákarnir að spila á sama gítar og pabbi þeirra spilaði á þannig að það verður sama sándið og hjá kallinum. Og að þeir fái með sér Steve Vai, Terry Bozzio og Napoleon Murphy Brock og allar þessar kempur sem spiluðu með honum er bara æðislegt."

Beðið eftir arftökum | Eftir tónleikana 1982 lét Sverrir hjá líða að sækja tónleika með goðinu í nokkur ár. "Þegar hann fór í tónleikaferðina 1984 var ég að kaupa mína fyrstu íbúð en dauðsé eiginlega eftir því að hafa ekki græjað lán eða frestað íbúðarkaupunum til að komast því Zappa túraði ekki aftur fyrr en 1988. Þá ákvað ég að taka þetta með trompi og fór tvisvar, fyrst í Kaupmannahöfn, flaug svo heim, og viku síðar flaug ég út til Hamborgar til að fara á tónleika hans þar." Í millitíðinni hafði Sverrir stofnað Zappa-samtökin í félagi við nokkra trausta Zappa-aðdáendur á Íslandi. "Við komum saman í fyrsta sinn í maí 1986, sama kvöld og Gleðibankinn fór á svið í Bergen," segir hann kíminn. "Eftir það hittumst við reglulega og hlustuðum á tónlist, horfðum á myndbönd og gáfum út fréttabréf. Svo fórum við saman á tónleikana í Hamborg 1988, sem voru frábærir. Þeir sem fóru ekki með í þá ferð fengu aldrei annað tækifæri því þetta var síðasta alvörutónleikaferðin áður en hann lést árið 1993." Reyndar átti Sverrir eftir að sjá Zappa að störfum einu sinni enn, þá sem hljómsveitarstjóra þegar hann stjórnaði verki sínu Yellow Shark í flutningi þýskrar sinfóníuhljómsveitar í Frankfurt 1992.

Um 130 manns voru á skrá Zappa-samtakanna þegar mest lét "sem allir hlusta ennþá stöku sinnum á Zappa", segir Sverrir. "Það er ekki svo auðvelt að afzappa fólk - ekki einu sinni Gunnar í Krossinum getur það," bætir hann við og glottir. "Hins vegar dó mikið þegar Zappa dó sjálfur, ekki bara hjá okkur heldur út um allan heim. En maður er enn að hitta fólk undir tvítugu sem hlustar á Zappa og finnst hann æðislegur. Þannig að sagan á örugglega eftir að endurtaka sig og við bíðum bara eftir arftökum okkar til að sjá um starfsemi Zappa-samtakanna í framtíðinni." | ben@mbl.is

Zappa-samtökin á Íslandi eru með netfangið fzsamtokin@gmail.com.