Dask, vörumerki Dagnýjar fyrir kventöskur, sem hún hannaði sjálf og saumaði. Bæklinginn hannaði hún síðan með útlit möppu í huga .
Dask, vörumerki Dagnýjar fyrir kventöskur, sem hún hannaði sjálf og saumaði. Bæklinginn hannaði hún síðan með útlit möppu í huga .
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í ár var sú nýbreytni tekin upp hjá Félagi íslenskra teiknara að bjóða nemum á lokaári í grafískri hönnun í Myndlistarskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands að taka þátt í Hönnunarverðlaunum FÍT .

Í ár var sú nýbreytni tekin upp hjá Félagi íslenskra teiknara að bjóða nemum á lokaári í grafískri hönnun í Myndlistarskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands að taka þátt í Hönnunarverðlaunum FÍT . Þeim var gefinn kostur á að senda inn þrjú ólík verkefni, en veitt voru sérstök nemendaverðlaun og þrjár viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur. Fjórmenningarnir, sem hlutskarpastir urðu, eru sammála um að vel heppnuð hönnun byggist fyrst og fremst á góðri hugmynd og einfaldri útfærslu.

Nemendaverðlaunin | DASK kventöskur og kynningarefni Dagný Skarphéðinsdóttir MA Ekki öll þar sem hún er séð

Verk Dagnýjar Skarphéðinsdóttur er bæði textílhönnun og grafísk en hún hannaði og saumaði kventöskur, bjó til kynningarbækling, lógó eða vörumerki og slagorð fyrir þær. Auk þess samdi hún texta í bæklinginn og er þar leikur með barnavísuna ,,Ein ég sit og sauma" sem vísar til þess er hún sat og saumaði töskurnar heima hjá sér. Slagorð vörulínunnar "Bentu á þá sem að þér þykir best", skírskotar svo til töskunnar. Í umsögn dómnefndar segir að Dagný sé "efnilegur nemandi með litríkar hugmyndir sem hún útfærir á skemmtilegan hátt".

Kassalaga form eru ráðandi í hönnuninni sem og hreinir tónar og sterkir litir og er brotið upp með hringlaga gatamunstri sem sýnir bæði inn í bæklinginn og klæðninguna innan í töskunum. Verkefnið í MA, sem þessi hönnun Dagnýjar spratt frá, var að búa til vörulínu að eigin vali og skilyrðin voru að gera vörumerki, slagorð, bréfsefni og markpóst. Nemendur höfðu frjálsar hendur með miðil til að auglýsa vöruna og ákvað Dagný að nota prentmiðil, þ.e. bækling. Vörulínan fékk nafnið DASK sem eru upphafsstafir fornafns og eftirnafns höfundar. Bæklingnum fylgdi einnig pöntunarseðill og hægt að panta öll snið í öllum litum í "þykjustunni" eins og hún orðar það.

"Ég er nú eiginlega töskufrík og það er kveikjan að verkinu í rauninni. Mig langaði líka að vinna með ferska liti, ekki of marga í einu og óvenjulegt efni, ekki leður eða tau. Það er fíltefni í töskunum, þær eru einlitar að utan og innan en tveir ólíkir litir í hverri," segir Dagný. Sniðin hafi komið að sjálfu sér og hver taska ekki öll þar sem hún er séð, eins og kemur í ljós þegar þær eru opnaðar. Þá hafi hún viljað forðast hið dæmigerða form á bæklingi og því gert hann þannig úr garði að hann geti staðið sjálfstætt á borði eins og mappa og hægt að taka hann í sundur þannig að hann líktist ílöngu veggspjaldi.

Dagný segir einfaldleika og góðar hugmyndir einkenna góða, grafíska hönnun. Ekki sé heldur verra að gamansemi sé inni í myndinni ef viðfangsefnið leyfi. "Eitthvað einfalt og gott sem fær þig til að staldra við. Ef það er of mikið á blaðsíðunni þá flettirðu bara. Í prentverki og veggspjöldum vil ég hafa fáa liti, einfalt og gott letur og góða hugmynd í grunninn," segir Dagný. Einnig þurfi að spá í sálfræði þar sem á endanum þurfi hönnunin að virka á áhorfandann og selja honum vöruna. "Mér finnst grafísk hönnun á Íslandi hafa batnað gríðarlega undanfarin tíu til fimmtán ár. Íslendingar hafa áttað sig á að auglýsingar og grafísk hönnun hafa mikil áhrif á traust neytandans á fyrirtækinu. Grafísk hönnun er andlit fyrirtækjanna," segir Dagný. Hún býst við því að leita sér að vinnu í Reykjavík að námi loknu þar sem möguleikar séu fleiri þar en á Akureyri.

Viðurkenning | Plötuumslag, ljósmyndabók og auglýsingar Óli Núma MA Frasinn "að negla niður"

Ólafur Freyr Númason, eða Óli Núma eins og hann kýs að kalla sig, fékk viðurkenningu fyrir þrjú verkefni sem hann sendi í keppnina. Eitt þeirra er plötuumslag fyrir hljómsveitina Breiðbandið í Keflavík, ljósmyndabók fyrir ljósmyndarann Finnboga Marínósson og auglýsingar fyrir Umferðarstofu sem birst hafa almenningi. Plötuumslagið var fyrir plötu Breiðbandsins og til stendur að ljósmyndabókin verði gefin út og má því segja að Óli sé nú þegar með annan fótinn á atvinnumarkaðnum. Á auglýsingunni fyrir Umferðarstofu sést stór nagli svífa yfir þjóðveginum og myndar kross með setningunni "Ég reyndi að negla niður..." og á annarri útgáfu stendur: "Harður nagli á hraðferð".

"Ég fór að vinna út frá frasanum "að negla niður" og fann góða tengingu milli hans og seinasta naglans í líkkistuna. Því er þetta táknrænt fyrir "naglana" í umferðinni og dauðann," segir Óli. Markmiðið sé að draga úr hraðakstri. ."Hugmyndin fyrir verkefnið var að búa til auglýsingar sem hafa ekki neikvæð áhrif á samfélagið. Áður höfðu börn verið í auglýsingunum og það fór fyrir brjóstið á sumum."

Í hugmyndavinnunni fyrir verkefni almennt segist Óli skrifa allt sem honum detti í hug á blað, t.d. orð sem tengist hlutnum og koma upp í huga hans enda hugurinn á flugi. "Það er engin ákveðin leið sem ég nota, ég nota orð sem mér detta í hug í kringum hlutinn og tengjast honum og næ að tvinna út úr því heild sem virkar," segir Óli. Hugmyndavinnan sé samvirkni innri og ytri þátta.

Óli segir góða, grafíska hönnun í sínum huga einfalda, skýra og með góðum húmor þegar það eigi við. Allt sem snúi að prenti í grafískri hönnun höfði frekar til hans en annað því það sé aldrei flókið að laga hlutina í prentferlinu. Hvað varðar framtíðina segist Óli ekki hafa áhyggjur af því að fá vinnu en atvinnutilboðum hafi ekki enn rignt inn. "Það er engin "megavika" þar," segir Óli og hlær.

Viðurkenning | Bækur, bréfsefni og nafnspjald Nicole Nicolaus LHÍ Ástríða fyrir línum

Nicole Nicolaus hlaut viðurkenningu fyrir tvær bækur, bréfsefni og nafnspjald en önnur bóka Nicole er brotin saman líkt og harmóníka og er eins konar leikur eða ádeila á strikamerkið góðkunna sem einkennir nánast allar vörur vestræns samfélags.

"Þetta er eiginlega bara smáskissa, smárannsókn á strikamerkinu. Hvaðan línurnar eru að koma og hvert þær eru að fara. Þær enduðu bara í einskonar húsum og kortum," segir Nicole. Hún hlær þegar hún er spurð hvort þetta sé ádeila á neyslusamfélagið og segir þetta meira sprottið af ástríðu sinni fyrir línum. Hin bókin er um formfræði og þýska hugtakið "Reizüberflutung". Nicole segir hugtakið tengjast því þegar of mikið áreiti leggst á skynfærin og n.k. ,,ofreiti" verður, t.d. þegar borgir verði yfirfullar af grafískum skilaboðum.

Nicole finnst frumleiki og meðvitund um umhverfi sitt skipta mestu máli hjá grafískum hönnuðum. Slæm hönnun sé bara "letur- og litaklessur". "Það er spennandi að vera með tvívíðan flöt, allt það sem hægt er að gera við hann," segir Nicole. Hún hefur fengið smjörþefinn af því að vinna á auglýsingastofu og getur alveg hugsað sér að starfa á einni slíkri í framtíðinni. "Þá þarf maður að vera skapandi hverja sekúndu en það er samt spennandi."

Nicole hefur unnið fyrir íslensku hönnunarbúðina Design Centre Knightsbridge (DCK) sem býður upp á íslenska hönnun og er í Kensington-hverfi í Lundúnum. "Ég er búin að vinna mikið fyrir Íslendingana sem eiga hana, t.d. hannaði ég lógó og ímynd fyrirtækisins," segir Nicole. Hún ætli að vinna að loknu námi en frekara nám komi til greina síðar, jafnvel í Þýskalandi.

Nicole segist skissa mikið og líta vel í kringum sig. "Ég fer ekki beint í tölvuna, það drepur niður hugmyndaflugið. Ef ég er að gera lógó fer ég í göngutúr og skoða önnur lógó [...] ef það er bók þá snýst það meira um að leika sér," segir Nicole. Hugmyndaflugið fari oft í gang áður en hún fari að sofa eða í sturtu.

Viðurkenning | Umbúða- og leturhönnun Hrafn Gunnarsson LHÍ Átti að vera ílát fyrir kynlífsleikfang

Hrafn Gunnarsson fékk viðurkenningu fyrir umbúða- og leturhönnun, pappakassa sem hægt er að raða saman þannig að þeir myndi einskonar "vélamynstur" og einnig fyrir leturgerðina Metalface Typeface. Hrafn segir kassana sína í upphafi hafa verið hugsaða sem ílát fyrir kynlífsleikfang, þó að þeir séu ekki mjög erótískir á að líta. Hugmyndin hafi verið að mynda mynstur þegar kössunum væri raðað saman, eins og byggt væri við vél en hægt er að raða kössunum endalaust saman þannig að mynstrið passi. "Þetta var dálítið erfitt í framkvæmd," segir Hrafn.

Eftir útskrift í vor segir Hrafn vel koma til greina að prófa eitthvað nýtt, fara t.d. í ljósmyndanám, en ekkert sé þó ákveðið enn í þeim efnum. Hann segir fátt annað en auglýsingastofur bíða grafískra hönnuða eða að starfa fyrir einstök fyrirtæki. Einnig sé hægt að gerast verktaki, útvega sér stök verkefni og koma sér upp hópi viðskiptavina ef heppnin er með mönnum. "Ég hef gert bæklinga, blöð, lógó, hannað plötuumslög og fleira sem dettur inn. Flestir í grafískri hönnun hafa fengist við eitthvað slíkt með náminu; verkefni fyrir einhverja sem þeir þekkja, þótt enginn sé farinn að auglýsa sig sem hönnuð," segir Hrafn.

Hrafn segir frumleika og góðar hugmyndir vera lykilatriði í góðri hönnun öfugt við slæma hönnun, sem sé hugmyndalaus og illa hugsuð. Hann viðurkennir að hluti af grafískri hönnun snúist um að selja vörur þótt margir vilji losna við þann stimpil. "Er ekki sama hvað maður gerir, er maður ekki alltaf að selja eitthvað? Hvort sem það er listaverk eða leturgerðir, þú endar alltaf með því að selja það," segir Hrafn.

"Ætli ég fái ekki innblástur úr umhverfinu, tónlist sem ég er að hlusta á, einhverju sem ég er að skoða. Oft kviknar hugmynd þegar ég er á leiðinni heim úr skólanum. Ef maður ætlar að setjast niður og leysa vandamálið er það oftast hægara sagt en gert. Ég held ég leysi 90% af mínum verkefnum eftir miðnætti, sem er kannski slæmur ávani," segir Hrafn. Þá sé ekkert ónæði eða áreiti, enginn að hringja, ekkert í sjónvarpinu og allar búðir lokaðar. | helgisnaer@mbl.is