Sigurgeir Magnús Sveinn Jónsson fæddist í Efri-Engidal 8. desember 1916. Hann lést á Sjúkrahúsi Ísafjarðar sunnudaginn 5. febrúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Ísafjarðarkirkju 11. febrúar.

Ég vil með nokkrum orðum minnast frænda míns og vinar, Sigurgeirs Jónssonar, Geira í Engidal, sem nú er látinn. Ég er þakklátur fyrir góð kynni bæði við hann og fjölskyldu hans. Þótt ég hafi komið oft í Engidal á barns- og unglingsárum þá var það fyrst þegar ég flutti vestur 1975 að regluleg samskipti urðu okkar á milli. Það urðu snemma föst haustverk að mæta og smala í Engidal með Geira og síðan með Steina. Þó svo að Geiri væri hættur búskap og bróðursonur hans tekin við þá vantaði Geira aldrei við smalamennskur né í réttina, nú síðast í haust var hann á sínum stað þó svo að hann væri þá á leið suður í aðgerð vegna veikinda sem síðan áttu sinn þátt í að leggja hann af velli. Í gegnum tíðina hef ég átt mjög góð samskipti við Geira, bæði í starfi sem í frítíma, og er ég mjög þakklátur fyrir þá samferð. Geiri var góður bóndi og félagsmaður, sat í gegnum tíðina í stjórnum margra félaga og nefnda í landbúnaði og átti ég samskipti við hann oft á þeim vettvangi og var alltaf gott að starfa með Geira. Í öllu starfi Geira sem bónda varð maður var við að velferð dýranna stóð honum nærri, natni og snyrtimennska var ætíð í fyrirrúmi og sást það á afurðum búsins sem oftast voru vel yfir meðallagi.

Nú þegar við kveðjum þennan aldna heiðursmann er mér efst í huga þakklæti fyrir samfylgdina í gegnum árin. Það að ná að hitta hann á andlátsdaginn og ræða við hann, sjá hvað hann tók því sem að höndum bar með miklu æðruleysi og heyra að honum liði nokkuð vel og væri tilbúinn, léttir þessa stund. En ég veit að smalamennskan að ári sem og stundin í réttinni verður ekki sú sama.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Fjölskyldu Geira vottum við hjónin okkar innilegustu samúð.

Sigurður Jarlsson.