TAP Byggðastofnunar á síðasta ári nam rúmum 270 milljónum króna, sem er rúmum eitt hundrað milljónum króna minna tap en árið 2004 þegar tapið nam 385 milljónum króna.

TAP Byggðastofnunar á síðasta ári nam rúmum 270 milljónum króna, sem er rúmum eitt hundrað milljónum króna minna tap en árið 2004 þegar tapið nam 385 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall hefur farið lækkandi og nam um áramót 8,2%, en áskilið er í lögum að eigið fé lánastofnana megi ekki vera lægra en 8%.

Herdís Sæmundardóttir, formaður stjórnar Byggðastofnunar, sagði að eiginfjárhlutfall stofnunarinnar hefði verið komið niður fyrir lögbundið lágmark síðastliðið haust. Farið hefði verið yfir kröfur stofnunarinnar og þær afskrifaðar sem klárlega hefðu verið tapaðar og stofnunin væri núna fyrir ofan þetta lögbundna eiginfjárhlutfall. "Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu tapi. Við vorum að hreinsa mjög mikið út tapaðar kröfur á síðasta ári, auk þess sem breyttar aðstæður á fjármálamarkaði hafa gert okkur erfitt fyrir. Bankarnir hafa boðið í okkar bestu viðskiptavini og við höfum setið eftir með veikara lánasafn en áður fyrir vikið," sagði Herdís.

Hún sagði að þau sæju hins vegar nokkurn viðsnúning að þessu leytinu til að undanförnu og því væri aðeins bjartara fram undan hvað þetta varðaði. "Við sjáum líka hins vegar að það eru afmarkaðri svæði sem leita til okkar en áður, sem bendir til þess að bankarnir velji ekki bara úr fyrirtæki heldur einnig landsvæði," sagði Herdís enn fremur.

Hreinar vaxtatekjur Byggðastofnunar námu 140,5 milljónum króna miðað við 269,1 milljón króna árið 2004. Rekstrartekjur námu 404,5 milljónum og rekstrargjöld að meðtöldum framlögum í afskriftareikning útlána og niðurfærsla hlutafjár námu rúmum 817 milljónum króna. Framlög í afskriftareikning útlána og niðurfært hlutafé námu 341 milljón króna.

Efling byggðar

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Stofnunin undirbýr, skipuleggur og fjármagnar verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Byggðastofnun fylgist einnig með þróun byggðar í landinu, en hún er á Sauðárkróki og þar starfa um tuttugu starfsmenn.

Eigið fé Byggðastofnunar nam rúmum einum milljarði króna um áramót. Útlán í lok árs 2005 námu rúmum níu milljörðum kr.