ÚRSKURÐARNEFND almannatrygginga hefur staðfest þá niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins að hafna bótaskyldu vegna umferðarslyss 29. ágúst 2004.

ÚRSKURÐARNEFND almannatrygginga hefur staðfest þá niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins að hafna bótaskyldu vegna umferðarslyss 29. ágúst 2004. Kærð var sú niðurstaða TR að ekki skyldi greiða bætur vegna slyss sem kærandi varð fyrir á leið heim eftir vinnu en meðal raka fyrir að synja kæranda bóta var að hann hefði ekki verið í launaðri vinnu daginn sem slysið varð, hann ekki verið í launaðri vinnu eða með reiknað endurgjald, og því næði bótaskylda ekki til umrædds slyss.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar eru málsatvik rakin og kemur fram að kærandi sem er bóndi hafi einnig átt bát í félagi við bróður sinn og þeir gert hann út. Hann hefði ekki róið sjálfur eftir að hann varð öryrki 1994 en sinnt slægingu. Slæging hafi staðið fyrir dyrum 28. ágúst en ekki orðið af henni og kærandi því farið að þrífa stakkageymslu og vinnuaðstöðu, "en það er hluti af vinnuskyldu minni sem verktaka, þó svo að ég skrifi vinnureikninga eingöngu vegna slægingar," segir kærandi. Eftir þrifin hafi hann farið um borð í bátinn og sinnt þar smávægilegu viðhaldi. Á leið heim eftir miðnætti það kvöld hafi hann lent í slysi og því verið á leið heim frá vinnu. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að vegna taps á atvinnurekstrinum 2004 hafi hann fært reiknað endurgjald sitt í núll en mörg ár á undan hafi hann reiknað sér endurgjald.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar er vitnað til laga um almannatryggingar. Þar segir í 22. grein að maður teljist vera í vinnu þegar hann sé á vinnustað þegar honum sé ætlað að vera þar svo og í matar- og kaffitímum og í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar eða í ferðum til eða frá vinnu. Í niðurstöðu nefndarinnar segir að ákvæðið eigi ekki við þar sem kærandi hafi kosið að halda ekki beina leið heim frá vinnu.

Einnig segir að líta verði til 24. greinar laganna þar sem segir að launþegi teljist sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi en úrskurðarnefndin metur að sambærileg sjónarmið gildi um þann sem hafi eigin rekstur, þ.e. að um reiknað endurgjald sé að ræða vegna vinnu. Af reikningum kæranda vegna vinnu vikuna 23. til 29. ágúst 204 sjáist að hann hafi aðeins unnið dagana 24. til 26. ágúst.