KJARAVIÐRÆÐUM sjúkrahúss- og heilsusgæslulækna og ríkisins var á dögunum vísað til ríkissáttasemjara, en kjarasamningar læknanna hafa verið lausir frá áramótum, að sögn Sigurðar E. Sigurðssonar, formanns samninganefndar Læknafélags Íslands.

KJARAVIÐRÆÐUM sjúkrahúss- og heilsusgæslulækna og ríkisins var á dögunum vísað til ríkissáttasemjara, en kjarasamningar læknanna hafa verið lausir frá áramótum, að sögn Sigurðar E. Sigurðssonar, formanns samninganefndar Læknafélags Íslands. Sigurður segir að samningaviðræðurnar hafi gengið eðlilega fyrir sig. Fulltrúar lækna og samninganefnd ríkisins hafi tekið ákvörðun um það í sameiningu að vísa málum til ríkissáttasemjara og sú ákvörðun hafi ekki verið tekin vegna ósættis milli viðsemjenda.

Spurður um kröfugerð lækna segir Sigurður að hann vilji ekki ræða hana ítarlega að svo komnu máli. Kröfurnar taki mið af því sem aðrir hópar í samfélaginu hafi náð fram í kjarasamningum.

Sigurður segist ekki geta sagt til um hvenær samningaviðræðunum ljúki. "Báðir aðilar eru sammála um að það væri æskilegt að reyna að ljúka þessu sem fyrst, en þetta verður að taka þann tíma sem þarf," segir Sigurður og bætir við að eins og er séu menn vongóðir um framhaldið.