Björg Ólafsdóttir, Ingunn Jónsdóttir, Magnea Guðrún Gunnarsdóttir, Oddný Magnea Arnbjörnsdóttir, Ólafía Guðný Erlendsdóttir, Ólafur Freyr Halldórsson, Róshildur Jónsdóttir, Snæbjörn Þór Stefánsson, Stefán Pétur Sólveigarson, Sverrir Ásgeirsson og Árni Grétarsson.
Björg Ólafsdóttir, Ingunn Jónsdóttir, Magnea Guðrún Gunnarsdóttir, Oddný Magnea Arnbjörnsdóttir, Ólafía Guðný Erlendsdóttir, Ólafur Freyr Halldórsson, Róshildur Jónsdóttir, Snæbjörn Þór Stefánsson, Stefán Pétur Sólveigarson, Sverrir Ásgeirsson og Árni Grétarsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í hlutarins eðli | Íslenskir hönnuðir koma víða við. Hópur ungra íslenskra hönnuða fór í vetur til Asíu með sýningu þar sem hvalur var uppspretta hugmynda og efniviður. Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar um sýningar hönnunarhópsins GroupG.

Íslenskir hönnuðir láta til sín taka víða um heim um þessar mundir og var til dæmis fjallað um Stockholm Fair í síðasta sunnudagsblaði þar sem íslenskir hönnuðir tóku þátt. Fleiri hafa gert víðreist í vetur og fór hópur ungra hönnuða til Tókýó og til Seoul með áhugaverða sýningu þar sem unnið var út frá hval. Þau sóttu um að fá að sýna með breska hönnunarvettvangnum Designers Block sem setur upp sýningar víða um heim og fá alltaf talsverða athygli fyrir að vera með það ferskasta sem er að gerast hverju sinni. Hönnunarhópurinn GroupG samanstendur af 11 vöruhönnuðum sem munu útskrifast frá Listaháskólanum nú í vor. Þau hafa haldið sýningar saman allt frá því þau innrituðust í skólann og má þar nefna til dæmis sýningu á ljósum sem þau sýndu í sölum Klink og Bank sem var og hét og einnig tóku þau þátt í íslensku hönnunardögunum sem haldnir voru í nóvember síðastliðnum. Ég hitti tvö úr hópnum þau Magneu Guðrúnu Gunnarsdóttur og Stefán Pétur Sólveigarson til að forvitnast um þennan hóp og ferðalagið til Tókýó og Seoul

Að nýta auðllindina

Hópurinn vann verkefnið í skólanum og fékk fullkomlega frjálsar hendur við val á viðfangsefni sem átti að enda á Stockholm Fair sýningunni. "Þetta er held ég í fyrsta skipti sem skólinn leyfir hóp að ákveða allt sjálf. Við bjuggum til áfangann og ákváðum svo sjálf hvað við myndum gera í áfanganum og eftir eina helgi uppí sveit var ákveðið að vinna með hval sem upphafspunkt," segir Stefán. "Sú hugmynd spratt útfrá því hversu vel forfeður okkar nýttu sér auðlindir landsins, til dæmis var sauðkindin nýtt til fullnustu, bæði til matar og nytjahluta. Hvalurinn varð fyrir valinu þar sem hann mundi vekja sterk viðbrögð áhorfandans, því hann er nú þegar umdeildur en ef hvalurinn er veiddur á annað borð ættum við þá ekki að nýta hann betur? Þetta átti ekki endilega að vera hápólitískt eða vekja einhver sterk viðbrögð," segir Stefán, heldur frekar að snúast um það hvernig hvert land ætti að finna sína auðlind og sýna skepnunni virðingu.

Hópurinn skipti á milli sín rannsóknarvinnunni og tók til dæmis fyrir hvernig hvalirnir voru betur nýttir í gamla daga þegar hvalbeinin voru í rauninni eins og plastefni nútímans og til dæmis voru skíðin notuð í svokallaðar krínólínur undir pils kvenna. "Fólk var að skera hluti út úr tönnunum og skíðin voru til dæmis líka notuð í net á tennisspaða," segir Magnea. "Svo þegar menn uppgötva lýsið og hvað það er gott efni til lýsingar voru hvalirnir drepnir og bræddir nánast í heilu lagi."

Hvalurinn var skoðaður útfrá líffræðilegum, pólitískum og sögulegum, sjónarhornum og fékk skólinn til sín fyrirlesara sem fræddu hópinn á öllum sviðum.

"Við fórum í gegnum mikla rannsóknarvinnu á hvalnum og því hvort ætti að veiða þá eða ekki og töluðum við aðila úr báðum áttum," segir Magnea.

Útkoman varð síðan í raun innsetning af hlutum sem gerðir voru úr beinum, kjöti og hljóðum hvalsins. Öll skynfæri mannsins fengu eitthvað við sitt hæfi. Þau unnu með beinin til dæmis á þann hátt að skera niður þunnar flögur og setja lýsingu á bakvið þannig að munstrið í beininu kom fram. "Hvalir nota einskonar staðsetningarhljóð eða hljóðbylgjur til að skynja umhverfi sitt og það má segja að þeir heyri þrívítt og þau hljóð voru einnig notuð í verkinu. Þessi hljóð látum við koma úr hátölurum sem við gerðum úr innri eyra hvalsins. Einnig gerðum við tilraunir með nýjar framleiðsluaðferðir á hvalkjöti sem endaði ekki á sýnigunni úti en við settum til dæmis hrátt hvalkjöt inní radísur og gerðum fleiri óhefðbundnar samsetningar sem voru mjög góðar," segja þau.

Sýndu í Tókýó og Seoul

Þau sóttu um að fá að sýna með Designers Block í Tókýó og eftir að þeir höfðu séð myndirnar frá þeim af verkefninu buðu þeir hópnum að sýna líka með sér í Seoul. Þá hafði hópurinn þegar fengið inni á Stockholm Fair sýningunni en gat ekki tekið þátt allsstaðar og varð því að velja og hafna. Valið var víst ekki erfitt enda mikið ævintýri að ferðast til Tókýó og Seoul og mikil lífsreynsla.

"Þetta er eitt af því besta sem komið hefur fyrir mig að fá möguleika á að halda þessa sýningu, fara út í þrjár vikur og halda tvær sýningar sem var mjög erfitt en mjög lærdómsríkt því þó að við ynnum þetta sem hópur er svo gríðarleg skipulagning í kringum þetta," segir Stefán.

"Skólinn var mjög jákvæður og sá hversu mikilvægt tækifæri þetta var fyrir okkur sem hönnuði, fjárhagslega gat hann samt ekki hjálpað okkur og urðum við því að stóla á utanaðkomandi styrki. Það gekk mjög vel og við náðum að safna fyrir stórum hluta verkefnisins og viljum við koma á framfæri miklu þakklæti til styrktaraðilanna," segir Magnea.

Sálir 30 hvala í kössum

Aðspurð hvort þau hafi rekist á einhverja veggi í sambandi við þá staðreynd að hvalveiðar eru ekki vinsælar víða um heim, nefna þau að aðalhöfuðverkurinn hafi einmitt verið sá að ólöglegt er að að flytja hvalaafurðir á milli landa nema með tilskildum leyfum útaf alþjóðlegu hvalveiðibanni. Á síðustu stundu var tvísýnt um hvort flutningsleyfin fengjust þar sem það ferli tekur vanalega mánuði ekki daga eins og þau höfðu til stefnu. "Sendiráðið í Tókýó hjálpaði okkur mikið og eins Hafrannsóknarstofan, Fiskistofa og sjávarútvegsráðuneytið hér heima til að ná þessu á mettíma," segja þau.

En fengu þau einhver viðbrögð hvalfriðunarsinna? "Við vorum nú hálfpartinn að vonast eftir einhverjum þannig viðbrögðum og bjuggumst alveg við því, því þetta er svo ótrúlega eldfimt mál," segir Magnea. "Það var svolítið stress að fara þarna út því þetta þurfti allt að vera svo rétt til að komast með þetta í gegn, öll tiltekin leyfi, sem við vorum auðvitað með en það var stress að vera með 30 sálir hvala í kössum ef einhverjir Greenpeace-menn hefðu verið búnir að frétta af þessu," segir Magnea.

Aðsóknin í básinn þeirra á sýningunni var mjög góð og er hópurinn mjög ánægður með árangurinn. "Það var tekinn alveg hellingur af viðtölum við okkur og mikið af fólki sem kom á básinn okkar og þeir sem héldu utan um sýninguna komu til okkar og sögðu að þetta væri langbest heppnaða sýningin sem þeir hefðu haldið," segir Stefán. "Gaman var að fylgjast með viðbrögðum fólks þegar þeim var sagt að hlutirnir væru úr hvalabeinum. Það vakti mikla forvitni hjá flestum en sumir fylltust hryllingi," bætir Magnea við.

Sýningin fékk því talsverða umfjöllun og má finna umfjallanir á heimasíðu Designers Block og einnig á www.designboom.com.

Gott samstarf

Hópurinn er mjög samheldinn og hefur verið það alveg frá fyrsta árinu í skólanum. "Við erum öll mjög ólík og græðum á að vinna saman," segja þau. "Sumir eru tæknilegir meðan aðrir hafa meira "esthetic" sjónarhorn og við erum mjög gagnrýnin á hvert annað og óhrædd að rífa hvert annað niður og byggja hvert annað upp. Allir geta leitað til allra og eftir útskrift eru einhverjir að hugsa um áframhaldandi samstarf."

Talandi um áformin eftir útskrift segjast þau eitthvað þurfa að huga að því að borga skuldir námsmannsins og fara útá vinnumarkaðinn en eru þó bjarstýn á það umhverfi sem bíður nýútskrifaðra hönnuða. "Við gætum ekki verið að koma út á betri tíma því meðan við höfum verið í skólanum vissi enginn hvað þrívíð hönnun er, en nú er fólk að átta sig á hvað hönnun þýðir og hvað hún er mikilvæg og hönnuðir eru að verða viðurkenndari. Auðvitað verða alltaf einhverjir byrjunarörðugleikar en þetta er samt allt frekar jákvætt og undir manni sjálfum komið líka hvað maður gerir," segja þau Magnea og Stefán að lokum.

Hópurinn verður með sýningu á verkefninu næstu helgi í sýningarsal Listaháskólans í Laugarnesinu. Opnunin verður á föstudaginn klukkan 5 en á undan verða þau með opinn fyrirlestur um ferðina sem hefst klukkan 4 og eru allir velkomnir. Sýningin verður einnig opinn milli 1 og 5 laugardag og sunnudag.

Höfundur er vöruhönnuður.

www.groupg.lhi.is