SAMTÖK um betri byggð skora á frambjóðendur í efsta sæti framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor að gera grein fyrir stefnu sinni varðandi skipulag og uppbyggingu á Vatnsmýrarsvæðinu og nefna það ár, sem Reykjavíkurflugvöllur á í síðasta...

SAMTÖK um betri byggð skora á frambjóðendur í efsta sæti framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor að gera grein fyrir stefnu sinni varðandi skipulag og uppbyggingu á Vatnsmýrarsvæðinu og nefna það ár, sem Reykjavíkurflugvöllur á í síðasta lagi að víkja fyrir byggð.

"Frambjóðendurnir tveir hafa hingað til látið nægja að segja að ekki sé spurning um hvort heldur hvenær flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri. Slíkt orðalag segir þó nákvæmlega ekki neitt, enda til þess fallið að halda öllum möguleikum opnum svo tryggja megi pólitíska hagsmuni flokks og frambjóðenda, á kostnað borgarsamfélagsins.

Samtök um betri byggð telja að það sé engum stjórnmálaflokki sæmandi að ætla bæði að þóknast þeim sem eru hlynntir og andvígir flugvelli í Vatnsmýri. Samtökin telja að ótvíræð stefna allra frambjóðenda í þessu mikilvægasta hagsmunamáli Reykvíkinga verði að liggja ljós fyrir áður en kjósendur ganga að kjörborðinu í vor.

Í tilefni af loðnum ummælum oddvitanna tveggja telja Samtök um betri byggð óhjákvæmilegt að ítreka enn og aftur að Vatnsmýrarmálið er í raun tvö ólík og aðskilin mál.

Annars vegar er um að ræða mikilvægasta skipulagsmál Reykvíkinga fyrr og síðar, skipulag og bygging nýs borgarhluta í Vatnsmýri, sem gefur þjóðarbúinu amk. 200 milljarða kr. í aðra hönd. Samtökin benda á að það er lagalegur og siðferðilegur grundvallarréttur Reykvíkinga að skipuleggja sjálfir allt land innan borgarmarka sinna og með sama hætti er það óvéfengjanlegt hlutverk og skylda kjörinna borgarfulltrúa að gera slíkt skipulag í samráði við kjósendur sína og með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.

Hins vegar er um að ræða mikilvægt samgöngumál allra landsmanna. Það er ótvírætt hlutverk og skylda fagráðuneytis samgöngumála og fagstofnunar þess á sviði flugmála að finna nýjan stað á Suðvesturlandi fyrir miðstöð innanlandsflugsins, sem tryggir hagsmuni flugfarþega og flugrekenda til frambúðar, í fullri sátt við umhverfi og samfélag. Auðvelt er fyrir ríkið að fjármagna slíka miðstöð þó hún geti kostað allt að 10 milljarða kr., vegna þess að söluandvirði ríkislóðanna, sem nú liggja verðlausar undir flugbrautunum í Vatnsmýri er amk. 30 milljarðar kr."