Helga Pálína Brynjólfsdóttir og Berglind Gunnarsdóttir. Fyrir aftan er eitt af textílverkunum og eitt ljóðanna.
Helga Pálína Brynjólfsdóttir og Berglind Gunnarsdóttir. Fyrir aftan er eitt af textílverkunum og eitt ljóðanna. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is Þegar beygt er inn af Sæbrautinni og yfir á Laugarnestangann er eins og maður hafi farið yfir einhver ósýnileg landamæri borgar og sveitar.
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is

Þegar beygt er inn af Sæbrautinni og yfir á Laugarnestangann er eins og maður hafi farið yfir einhver ósýnileg landamæri borgar og sveitar. Umferðin á Sæbrautinni er í nokkurra metra fjarlægð en engu að síður er sveitakyrrðin allsráðandi. Yst á tanganum stendur stórt, hvítt hús sem hýsir Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Þar var heimili og vinnustofa myndhöggvarans sem safnið er nefnt eftir.

Mystísk náttúrusýn

Um þessar mundir stendur yfir samsýning í listasafninu þar sem má skoða tré- og koparverk Sigurjóns ásamt textílum Helgu Pálínu Brynjólfsdóttur og ljóðum Berglindar Gunnarsdóttur. Yfirskrift sýningarinnar er Út á skýjateppið og er hún hugsuð sem samræður milli þessara þriggja ólíku listforma. Að sögn Berglindar táknar "skýjateppið" draumfar skáldskaparins í listformunum þremur. Í kynningarbæklingi stendur að verkin byggist á náttúrusýn "sem kalla má mystíska. Það er draumsýn um eðli náttúru og hluta á bak við ásýnd þeirra. Draumsæi er eðlisfar skáldskaparins í öllum listum. Að dreyma það sem maður sér; sjá það öðrum augum, skyggnum augum. Að dreyma jörð og haf í miðri borg".

Hugmyndin að sýningunni varð til í kjölfar tíðra hjólatúra Berglindar út á Laugarnesið.

"Ég uppgötvaði heilmikinn heim hér úti á Laugarnesi," segir Berglind sem situr ásamt Helgu Pálínu á kaffistofunni á Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Út um stóra glugga kaffistofunnar blasir við útsýni yfir Faxaflóann og þarna sést Engey sérstaklega glæsileg. "Maður fer í svona hvarf frá borginni, svolítið eins og að fara út í sveit. Í tengslum við þessar ferðir mínar hingað á nesið fór ég að sækja inn á þetta safn. Það er einhver sérstakur andi hérna á safninu sem heillaði mig."

Náttúrusýn borgarbúans

Berglind er uppalin á Skólavörðustígnum og hefur alla tíð búið í hjarta höfuðborgarinnar. Í kjölfar ferðalaga sinna út á Laugarnesið og upplifun sinnar á náttúrunni þar fór hún að velta fyrir sér þessari sérstöku náttúrusýn borgarbúans sem hún bregður síðan upp í ljóðum sínum.

"Mér gafst ákveðin sýn á náttúruna út frá borgarskarkalanum. Þetta er svolítið eins og að horfa inn í aðra vídd. Ég held að fólk gefi sér ekki alveg tíma til þess að sjá náttúruna með þessum hætti í Reykjavík. Fyrir mér er þessi sýn svolítið eins og minningar frá einhverju tímabili þegar það gafst einhver tími til þess að skoða umhverfið, vera partur af því og meðtaka það. Þá var einhver meiri hægð og meiri ró til þess að geta meðtekið allt það sem er í kringum mann. Mér finnst að við höfum verið rænd þessum tíma. Fólk er einfaldlega of upptekið. Og svo er það þessi tækniheimur. Hann tekur frá okkur ákveðinn möguleika til þess að horfa aftur til einhverrar frumnáttúru sem samt býr í okkur og við erum búin til af. Við erum sköpuð af henni og við getum ekki yfirgefið hana sísvona. Ég held að allur sköpunarkraftur sé sprottinn af þessum uppruna okkar og við megum aldrei missa sjónar á því. Þetta tímaleysi er mesta arðrán mannkynssögunnar. Mér fannst að þessi sýn yrði að koma fram og þessi sýning er afleiðing þess."

Form jarðarinnar

Berglind hefur þekkt textílhönnuðinn Helgu Pálínu í þó nokkurn tíma og hefur alltaf verið mjög heilluð af verkum hennar. Þegar Helga var nemandi við textíldeild Listiðnaðarháskólans í Helsinki vann hún sem leiðsögumaður á Íslandi á sumrin. Af því starfi öðlaðist hún mikla þekkingu á landinu sem hún færði yfir í verkin sín.

"Ég tók mjög mikið af myndum sem leiðsögumaður og vann svo þetta íslenska yfirborð í verkin mín í skólanum. Núna tuttugu árum síðar er ég enn í hliðstæðum pælingum," segir Helga og hlær. "Maður er alltaf að skrifa sömu bókina."

Á sama tíma og Berglind sótti í kyrrðina á Laugarnesinu og orti ljóðin sem hanga núna á listasafninu þar var Helga Pálína að vinna með form eftir manngert landslag og bæjarrústir á Engey. Þessi form, sem hún vann út frá loftmyndum, þrykkir hún á silki með nýstárlegri aðferð sem breytir áferð trefjanna þannig að þær spegla ljósið á annan hátt.

"Það hefur alltaf heillað mig í verkum hennar þessi nánu tengsl hennar við náttúruna og því vildi ég halda þessa samsýningu," segir Berglind. "Síðan völdum við þau verk eftir Sigurjón sem okkur fannst spila mest á móti ljóðunum og textílverkunum." Þannig eiga verk Sigurjóns að veita hinum listformunum aukið þyngdarafl, en loftkennt eðli ljóðsins ýtir undir draumsæi viðarmyndanna og textílverkanna.