80 ár liðin frá fánatökunni á Reykjavíkurhöfn ATBURÐUR var á Reykjavíkurhöfn 12. júní 1913 sem enn er í minnum hafður. Blíðskaparveður var og mikið um skip og báta á höfninni.

80 ár liðin frá fánatökunni á Reykjavíkurhöfn

ATBURÐUR var á Reykjavíkurhöfn 12. júní 1913 sem enn er í minnum hafður. Blíðskaparveður var og mikið um skip og báta á höfninni. Þá reri Einar Pétursson kaupmaður á kappróðrabáti sínum út á höfnina og hafði uppi fánann. "hvítbláinn", bláan fána með hvítum krossi, sem Einar Benediktsson skáld vildi að Íslendingar tækju upp sem sérfána og margir aðylltust.

Þessi skemmtisigling Einars dró dilk á eftir sér því þetta var mikil ógn við dönsk yfirvöld. Varðskipið "Islands Falk" lá á ytri höfninni og skutu sjóðliðar út báti. Þeir tóku fánann af Einari og hélt skipherra í land á fund ráðherra.

Fregnin um fánatökuna flaug eins og eldur í sinu og tók bláhvíti fáninn að blakta víða um bæinn í stað þess danska. Margir reru bátum sínum að "Islands Falk" og höfðu uppi bláhvíta fána og aðrir gengu í fylkingu að styttu Jóns Sigurðssonar við stjórnráðshúsið og sungu ættjarðarsöngva.

Þingmenn Reykjavíkur boðuðu til borgarafundar um fánamálið í barnaskólaportinu þar sem því var mótmælt að "dönsku hervaldi var í morgun beitt á íslenskri höfn". Allt fánamálið vakti mikla athygli og varð til þess að herða á kröfu um löggiltan íslenskan fána.

Bátur Einars Péturssonar og fáninn "hvítbláinn" eru nú til sýnis í Sjóminjasafni Íslands á sýningunni "Fiskur og fólk" sem opnuð var á Sjómannadaginn og hefur vakið athygli. Þjóðminjasafn Íslands lánaði bátinn og fánann á sýninguna.

Sjóminjasafn Íslands er opið alla daga í sumar frá kl. 13 til 17.

(Fréttatilkynning)

Hvítbláinn til sýnis

Bátur Einars Péturssonar og fáninn hvítblái eru nú til sýnis í Sjóminjasafni Íslands.