6. mars 2006 | Aðsent efni | 361 orð | 1 mynd

Ný Oddskarðsgöng

Halldór Pétur Ásgeirsson
Halldór Pétur Ásgeirsson
Halldór Pétur Ásgeirsson fjallar um umferðaröryggismál og ný Oddskarðsgöng: "Ég rita þessa grein til að vekja athygli ráðamanna á nauðsyn nýrra Oddskarðsganga áður en stórslys verður og vona að menn beri gæfu til að bregðast hratt og vel við."
UNDANFARIN ár hef ég mikið verið á ferðinni yfir Oddskarð og get ekki lengur látið hjá líða að vekja athygli á því ófremdarástandi sem daglega er að skapast í Oddskarðsgöngum og annars staðar á veginum yfir Oddskarð.

Núverandi göng eru rúmlega 600 m löng einbreið með blindhæð inni í göngunum og útskotin þar sem bílum er ætlað að mætast svo lítil að flutningabílar, rútur og stærri bílar geta ekki mæst í göngunum. Þar af leiðir að annar verður að bakka út og er það ekki auðvelt verk, því oft á tíðum eru bílarnir með stóra eftirvagna og göngin það mjó að einungis eru nokkrir sentimetrar út í veggi ganganna sitt hvorum megin. Allt þetta tekur að sjálfsögðu töluverðan tíma og orsakar t.d. að menn missa af flugi, mæta of seint til læknis, á fundi, í vinnu, í skóla o.fl. o.fl.

Nauðsyn nýrra Oddskarðsganga eru ekki eingöngu vegna þeirra vandræða sem eru í núverandi göngum, heldur er vegurinn víða annars staðar stórhættulegur. Flutningabílar hafa runnið stjórnlaust aftur á bak út af veginum ofan við Eskifjörð, til allrar hamingju á milli húsa en ekki á þau. Rútur fullar af fólki lent út af og oltið. Nú nýlega lenti rúta með um 40 unglingum í stórkostlegum vandræðum. Á hverju ári þurfa björgunarsveitir margsinnis að aðstoða og bjarga fólki til byggða sem lent hefur í ógöngum á fjallinu.

Ég tel í að ljósi þeirra aðstæðna sem alltof oft skapast á Oddskarði þurfi stjórnmálamenn að taka ákvörðun um að byrja á nýjum Oddskarðsgöngum sem allra allra fyrst, ekki bíða þar til stórslys hefur átt sér stað.

Ég vil nota þetta tækifæri og óska ráðamönnum til hamingju með hversu hratt og vel þeir brugðust við hættuástandi um Óshlíð og vona að viðbrögð verði ekki síður góð varðandi ný Oddskarðsgöng, því þörfin er sannanlega ekki síðri.

Að lokum má benda á að íbúar sveitarfélaga á Austfjörðum hafa kosið að sameinast og ein af grundvallarforsendum þess að sú sameining lukkist vel eru bættar samgöngur. Ég rita þessa grein til að vekja athygli ráðamanna á nauðsyn nýrra Oddskarðsganga áður en stórslys verður og vona að menn beri gæfu til að bregðast hratt og vel við.

Höfundur er ökukennari í Fjarðabyggð.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.