— Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.is Ég hleyp í vinnuna tvo daga í viku og er ekki nema klukkutíma á leiðinni," segir Eyrún Baldvinsdóttir hjúkrunarfræðingur sem starfar við áhættumat persónutrygginga hjá Sjóvá.
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.is

Ég hleyp í vinnuna tvo daga í viku og er ekki nema klukkutíma á leiðinni," segir Eyrún Baldvinsdóttir hjúkrunarfræðingur sem starfar við áhættumat persónutrygginga hjá Sjóvá. Hún býr í Grafarvogi og vegalengdin þaðan í vinnuna mælist tíu kílómetrar. "Ég er í fullri vinnu og með fjölskyldu þannig að ég verð að skipuleggja tíma minn vel til að koma öllum hlaupaæfingunum fyrir," segir Eyrún sem æfir langhlaup með skokkhópi Fjölnis í Grafarvogi undir vaskri stjórn Erlu Gunnarsdóttur. Eyrún æfir hlaup sex daga vikunnar og þegar hún kemur hlaupandi í vinnuna þá skellir hún sér í sturtu og skiptir um föt í kjallara Sjóvár þar sem er líkamsræktarsalur og sturtuaðstaða.

Gaman að hlaupa í nýjum borgum

Eyrún ætlar að hlaupa maraþon í London núna í lok apríl ásamt þrjátíu og fjórum öðrum Íslendingum og þar af eru fjórtán úr skokkhópnum hennar í Grafarvogi.

"Að hlaupa maraþon er í mínum huga ekki spurning um að koma í mark á einhverjum svakalega góðum tíma, ég geri þetta fyrst og fremst fyrir ánægjuna og til að vera með. Ég kom í mark á fjórum og hálfum tíma í maraþoni sem ég hljóp í New York fyrir tveimur árum, sem er rétt yfir meðallagi og vissulega væri gaman að bæta það, en það er ekki aðalatriðið." Eyrún segist ætla að safna borgum sem hún hleypur í. "Það er rosalega gaman að hlaupa á ókunnum slóðum. Ég hef hlaupið hálft maraþon í Prag og stefni á að taka þátt í fleiri borgum í framtíðinni."

Eyrún stundaði enga líkamsrækt áður en hún fór að hlaupa svona vasklega fyrir fimm árum en hún segist ævinlega hafa hjólað mikið fram að því. "Það sem mér finnst best við að hlaupa er almenn vellíðan og svo eykst þolið auðvitað til muna. Félagsskapurinn í hópnum mínum er mjög góður og það skiptir miklu máli. Þetta eru mínir bestu félagar."

Eyrún játar að hún sé að vissu leyti orðinn hlaupafíkill. "Ef ég kemst ekki út að hlaupa þá verð ég alveg friðlaus, líkaminn kallar á hlaupin. Þetta er minn lífsstíll og ég kann vel við hann."

Hvannadalshnjúkur framundan

Eyrún lætur ekki duga að hlaupa með hópnum sínum innanbæjar, þau hafa líka verið að hlaupa utanvegar. "Við hlupum bæði Fimmvörðuháls og Laugaveginn í fyrra og svo ætla ég að ganga á Hvannadalshnjúk með samstarfsfólki mínu í Sjóvá núna í maí. Það er hluti af átaki sem er í gangi hjá starfsmönnum okkar og heitir Heilbrigt Sjóvá."

Mikil brennsla fylgir óneitanlega miklum hlaupum og Eyrún segir það hafa verið bónus að grennast við það að byrja markvisst að stunda hlaup. "Ég var orðin nokkuð þung og mátti alveg missa nokkur kíló, en maður má passa sig að verða ekki of grannur, það gerðist einmitt hjá mér, en svo var eins og líkaminn næði jafnvægi. Ég þarf að passa að borða vel af kolvetnum, sem allir virðast vilja forðast í dag."