Djúpivogur er einn af fegurstu stöðum landsins og Víkverji hefur nú fengið enn eina ástæðuna til að gera sér ferð þangað í vor eða sumar.

Djúpivogur er einn af fegurstu stöðum landsins og Víkverji hefur nú fengið enn eina ástæðuna til að gera sér ferð þangað í vor eða sumar. Víkverji fékk áhuga á fuglum í fyrrasumar þegar hann var á ferð um Mývatnssveit og á dögunum rambaði hann á mjög áhugavert vefsetur um fugla - birds.is - þar sem fólk getur fengið ýmsan fróðleik um fuglaparadísina Djúpavog.

Að vefsetrinu standa nokkrir hugmyndaríkir og framtakssamir fuglavinir sem hafa einsett sér að kynna Djúpavog og nágrenni sem áhugavert svæði fyrir fuglaskoðara, jafnt erlenda sem innlenda.

Víkverja finnst þetta frábært framtak hjá Djúpavogsbúum því fuglaskoðun hefur verið vanmetin í ferðaþjónustu hér á landi. Þetta frábæra tómstundagaman nýtur sívaxandi vinsælda víða um heim og margir ferðast til annarra landa með það fyrir augum að skoða fugla.

Framtak Djúpavogsbúanna er líklegt til að lengja ferðamannatímabilið því að apríl og maí eru að mörgu leyti bestu mánuðirnir til fuglaskoðunar hér á landi.

Fuglalífið á Suðausturlandi er mjög fjölskrúðugt og sérstakt að því leyti að farfuglar koma þangað fyrst á vorin og fara þaðan síðastir á haustin. Meðal fugla sem verpa þar eru brandönd, skeiðönd og flórgoði, að því er fram kemur á birds.is.

Einnig er boðið upp á daglegar ferðir frá Djúpavogi út í Papey á tímabilinu frá 15. júní til 15. september. Siglt er fram með fuglabjörgunum út í Papey til að skoða fuglinn og sel á skerjum. Á eyjunni eru um 30.000 lundapör á varptíma.

Fuglaskoðararnir geta einnig notið einstakrar náttúrufegurðar Djúpavogs og nágrennis. Tákn Djúpavogshrepps, Búlandstindur, er til að mynda eitt formfegursta fjall landsins og í grennd við hann eru fjölmargar skemmtilegar gönguleiðir.