Áslaug Björgvinsdóttir
Áslaug Björgvinsdóttir
Áslaug Björgvinsdóttir svarar greinum Sigurðar Líndals og Björns Þ. Guðmundssonar: "Mér er fyrirmunað að skilja hvað ræður þessu framferði lærifeðra minna."

FYRRUM lærifeður mínir og samstarfsmenn við lagadeild Háskóla Íslands, Sigurður Líndal og Björn Þ. Guðmundsson, sjá ástæðu til að svara grein minni í Morgunblaðinu 30. mars sl. Sigurður segir í grein sinni 31. mars að hann nái ekki samhenginu milli forsendna og niðurstöðu minnar í málinu, en grein Björns 1. apríl hefur einvörðungu að geyma ókurteisi og dylgjur í minn garð og Háskólans í Reykjavík sem ekki eru svaraverðar. Ekki verður þó hjá því komist að leiðrétta þann misskilning Björns að umræðan um niðurstöðu héraðsdóms hafi átt sér stað eftir að málinu var áfrýjað til Hæstaréttar. Björn telur það sérlega ámælisvert að fjalla um héraðsdóma sem hefur verið áfrýjað. Hið rétta er að umræðan átti sér stað áður en málinu var áfrýjað . Umræðan fór fram eftir uppkvaðningu héraðsdóms þann 15. mars og fram að fundi Háskólans í Reykjavík þann 20. mars. Ákvörðun um áfrýjun var svo tekin 22. mars sl. Þetta er dæmi um ónákvæmni og rangfærslur í umfjöllun Björns.

Forsendur lögfræðilegrar rökræðu

Í svargrein sinni leggur Sigurður aftur á móti áherslu á nauðsyn þess að mál séu rædd á réttum forsendum. Þetta er einmitt veikleiki rökræðu Sigurðar þegar hann deilir á skoðanir mínar. Sigurður var ekki á fundinum sem hann er að fjalla um, frekar er Björn, og hefur því takmarkaðar forsendur til að fjalla um erindi frummælenda. Hann byggir eingöngu á frásögn Morgunblaðsins þann 21. mars sl. af fundinum og virðist auk þess leggja sig fram um að draga rangar ályktanir af þeirri umfjöllun. Það var ekki ætlun mín að fjalla frekar efnislega um túlkun Héraðsdóms Reykjavíkur á hugtakinu lán í skilningi 43. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga (nú 53. laga nr. 3/2006) en ítrekaðar rangfærslur Sigurðar kalla á leiðréttingu.

Missagnir leiðréttar

Kjarni erindis míns á fundinum í Háskólanum í Reykjavík, sem bar yfirskriftina "Hvenær er lán lán?" og Sigurður hefur kallað "áróðursfund" var sá að ekki ætti að þurfa að velkjast í vafa um að hugtakið lán í skilningi umdeilds ákvæðis ársreikningalaga tæki til bæði óformlegra lánveitinga og heimilla viðskiptalána samkvæmt 104. gr. hlutafélagalaga. Ef sú túlkun er rétt ber ekki nauðsyn til skýrari reglna um það atriði. Það er rangt að niðurstaða mín á fundinum hafi verið sú að lögin væru ekki nægilega skýr en samt sem áður líklegt að Hæstiréttur kvæði upp "áfellisdóm". Hér eru mér lögð orð í munn. Í umfjöllun Morgunblaðsins segir m.a. orðrétt: "Áslaug sagði 43. greinina mjög skýra að því leyti að það eigi að tilgreina öll lán í skýringum með ársreikningum." Ég hef ennfremur sagt, eins og fram kom í Morgunblaðinu, að ég leyfi mér að efast um að Hæstiréttur muni komast að sömu niðurstöðu og héraðsdómur varðandi inntak ákvæðis 43. gr. áðurgildandi ársreikningalaga þ.e. um hugtakið lán, og enn fremur hugtakið viðskiptalán samkvæmt 104. gr. hlutafélagalaga. Sú skýring byggist á orðanna hljóðan ákvæðis 43. gr. en tilgangur þess styður einnig þá skýringu. Það er viðurkennt lögskýringarsjónarmið í refsirétti að horfa til tilgangs einstakra ákvæða eins og lesa má m.a. nánar um í 8. þætti bókar Jónatans Þórmundssonar, Afbrot og refsiábyrgð I, frá árinu 1999, þar sem fjallað er um skýringu refsilaga. Loks hef ég bent á evrópuréttarlegan bakgrunn reglunnar og sagt að ef túlkun héraðsdóms er rétt, liggur fyrir að ekki hefur verið staðið rétt að innleiðingu 13. tl. 43. gr. 4. félagatilskipunarinnar, sem án efa er ætlað að taka til hvers konar lána. Eða eins og segir í umfjöllun Morgunblaðsins: "Ef þetta eru reglurnar og þessi túlkun [dómsins] er rétt, leiðir það til vangaveltna um hvort við höfum innleitt 4. félagatilskipunina rétt."

Framangreind rök liggja til grundvallar þeirri skoðun minni að ég tel líkur á að niðurstaða Hæstaréttar um túlkun hugtaksins lán verði önnur en héraðsdóms. Sú niðurstaða ein og sér þarf þó ekki að leiða til sakfellingar, því eftir stæði að taka afstöðu til hvort umdeildar færslur teldust lán á grundvelli efnislegs mælikvarða og ef svo væri saknæmis athafna eða athafnaleysis hvers og eins sakbornings, þ. á m. með hliðsjón af stöðu þeirra hjá félaginu, og þar með ábyrgðar. Þess vegna hef ég aldrei fullyrt nokkuð um sekt sakborninga í málinu heldur einvörðungu bent á að forsendur og skýring dómsins á hugtakinu lán séu umdeilanlegar.

Það hefði verið hægur vandi fyrir Sigurð að hafa samband við mig og leita eftir nánari skýringum á ummælum mínum um forsendur umrædds héraðsdóms. Með ánægju hefði ég útskýrt nánar skoðanir mínar og m.a. fúslega látið hann fá yfirlit yfir erindið. Það stendur honum enn til boða. Mér finnst undarlegt að Sigurður hafi fremur kosið að draga undarlegar ályktanir af skoðunum mínum samkvæmt blaðafrétt og fara beinlínis rangt með ummæli mín í henni, að því er best verður séð, til að gera umfjöllun mína um dóminn tortryggilega. Ekki minna skrýtinn er málflutningur Björns um fræðilegt fjas, framhleypni og fjölmiðlaflipp. Mér er fyrirmunað að skilja hvað ræður þessu framferði lærifeðra minna.

Höfundur er dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.