INGIBJÖRG Jónsdóttir, línumaður ÍBV, fagnaði sínum þriðja Íslandsmeistaratitli með meistaraflokki félagsins um helgina.

INGIBJÖRG Jónsdóttir, línumaður ÍBV, fagnaði sínum þriðja Íslandsmeistaratitli með meistaraflokki félagsins um helgina. Leikurinn gegn HK var hennar síðasti alvöru leikur að eigin sögn, þar sem hún er að flytja búferlum frá Vestmannaeyjum og hyggst leggja handboltann á hilluna. Hún hefur nú reyndar hætt áður en segir að þetta sé endanleg ákvörðun:

"Við erum að flytja upp á land, fjölskyldan. Við erum með tvö börn, maðurinn er á sjó, og ég í fullri vinnu, þannig að þetta er alltof erfitt. Lífið er meira en íþróttir og þegar maður er komin með fjölskyldu þá verður maður að hætta að hugsa um sjálfan sig. Þetta er bara leikur. Ég byrjaði fimmtán ára í meistaraflokki, þannig að það eru komin 22 ár síðan."

Deildin skemmtilegri

"Það er aðeins öðruvísi að vinna þennan titil. Mér finnst skemmtilegra sem leikmanni að hafa svona deildarkeppni þar sem hver leikur skiptir máli. Það var til dæmis ansi slæmt fyrir okkur að tapa fyrir FH og það sat í okkur lengi. Það þýðir ekkert að fara með hangandi haus í leikina."

Hvað telur Ingibjörg að hafi skipt sköpum hjá ÍBV í baráttunni við Hauka, Val og Stjörnuna á þessari leiktíð? "Ég hugsa að það sé umgjörðin. Hið frábæra starf sem unnið er í Eyjum og nánast allt í sjálfboðavinnu. Einnig eigum við marga stuðningsmenn á útileikjum og það skiptir máli. Nálægðin er jafnframt mikil í okkar liði, t.d. erum við alltaf að ferðast saman í leiki", sagði Ingibjörg en það verður sjónarsviptir að henni úr boltanum. Er þetta var borið undir Alfreð Finnsson þjálfara ÍBV, sagði hann einfaldlega: "Já, hún er hætt núna. Ég fer ekkert ofan af því að ég á aldrei eftir að þjálfa annan eins persónuleika og Ingibjörgu og ég á eftir að sakna þess að hafa hana ekki í liðinu."