Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, og Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræða við Ibrahim al-Jaafari, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar Íraks, á skrifstofu hans í Bagdad í gærmorgun.
Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, og Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræða við Ibrahim al-Jaafari, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar Íraks, á skrifstofu hans í Bagdad í gærmorgun.
Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.
Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.is

CONDOLEEZZA Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Jack Straw, starfsbróðir hennar í Bretlandi, fóru í óvænta heimsókn til Bagdad í gær til að freista þess að flýta myndun þjóðstjórnar í Írak eftir nær fjögurra mánaða samningaþref flokka sjíta, súnní-araba og Kúrda.

Rice gaf til kynna að þolinmæði bandarískra ráðamanna væri á þrotum. "Við ætlum að hvetja Íraka til að ljúka samningaviðræðunum. Öllum ætti að vera ljóst að það er kominn tími til að viðræðurnar leiði til þjóðstjórnar," sagði Rice á leiðinni til Íraks. "Ég geri ráð fyrir því að sú staðreynd að við förum þangað til að ræða við leiðtoga Íraks sé merki um hversu mikla áherslu við leggjum á þörfina á þjóðstjórn í Írak."

Ráðgert hafði verið að utanríkisráðherrarnir yrðu fluttir með þyrlu frá alþjóðaflugvellinum í Bagdad inn á Græna svæðið svokallaða þar sem helstu stjórnsýslubyggingar Íraks eru. Vegna úrhellis var ákveðið að flytja ráðherrana með bílum og ströng öryggisgæsla var á veginum frá flugvellinum, einum af hættulegustu vegum heims, vegna hættunnar á sprengjuárás uppreisnarmanna.

Utanríkisráðherrarnir ræddu fyrst við Jalal Talabani, forseta Íraks, og síðan Ibrahim Jaafari forsætisráðherra og Aziz al-Hakim, einn af áhrifamestu leiðtogum sjíta.

Jaafari afskiptur?

Blaðamenn, sem ferðuðust með ráðherrunum, höfðu á orði að Rice hefði ekki verið eins hlý í viðmóti við Jaafari forsætisráðherra og við aðra leiðtoga Íraks. Fregnir hermdu í vikunni sem leið að bandaríski sendiherrann í Bagdad hefði sagt leiðtogum sjíta að stjórn Bandaríkjanna vildi ekki lengur að Jaafari gegndi embættinu, en bandarískir embættismenn neituðu þessum fréttum. Rice ræddi aðeins í 45 mínútur við Jaafari en átti nær tveggja stunda hádegisverðarfund með Hakim og Adel Abdel Mahdi, varaforseta Íraks og hugsanlegu forsætisráðherraefni sjíta.

Bandalag sjö stjórnmálaflokka sjíta tilnefndi Jaafari í embætti forsætisráðherra eftir kosningarnar í janúar þegar bandalagið fékk tæpan helming þingsætanna. Flokkar súnní-araba og Kúrda höfnuðu tilnefningunni og hafa hótað að taka ekki þátt í myndun stjórnar nema Jaafari dragi sig í hlé. Er hann einkum gagnrýndur fyrir að hafa ekki staðið sig sem skyldi í baráttunni við uppreisnarmenn og sakaður um að hafa lagt svo mikla áherslu á að gæta hagsmuna sjíta að hann sé ekki rétti maðurinn til að fara fyrir þjóðstjórn nú þegar landið er talið ramba á barmi borgarastyrjaldar.

Leiðtogar sjíta farnir að efast um Jaafari

Óánægjunnar með Jaafari er nú einnig farið að gæta í bandalagi hans. Leiðtogar fjögurra af sjö flokkum bandalagsins hafa látið í ljósi efasemdir um að hann sé rétti maðurinn í embætti forsætisráðherra. Hermt er að þeir hafi gefið honum nokkurra daga frest til að sýna að hann geti myndað þjóðstjórn, ella missi hann stuðning þeirra.

Rice og Straw sögðu að þau hefðu ekki í hyggju að blanda sér í valdabaráttuna í Bagdad.

Rice hafði tvisvar áður ferðast til Bagdad frá því að hún varð utanríkisráðherra Bandaríkjanna í janúar á liðnu ári. Þetta er í þriðja skipti sem Straw ferðast til Íraks á árinu.

Utanríkisráðherrarnir fóru til Bagdad eftir tveggja daga heimsókn Rice til Bretlands.

Rice viðurkenndi á föstudag að Bandaríkjastjórn hefðu orðið á "þúsundir" mistaka í Írak en sagði daginn eftir að hún hefði aðeins sagt þetta í "óeiginlegri merkingu".