Geir H. Haarde
Geir H. Haarde
Geir H. Haarde utanríkisráðherra er nýkominn úr mikilli ferð um Evrópu, þar sem hann heimsótti auk frænda okkar Norðmanna og Dana, Frakkland, Þýzkaland og Rússland.

Geir H. Haarde utanríkisráðherra er nýkominn úr mikilli ferð um Evrópu, þar sem hann heimsótti auk frænda okkar Norðmanna og Dana, Frakkland, Þýzkaland og Rússland.

Raunar mun utanríkisráðherra vera fyrsti Íslendingurinn, sem gegnir því embætti, sem komið hefur í opinbera heimsókn í utanríkisráðuneytið í París og segir það nokkra sögu um hversu litla áherzlu við Íslendingar höfum lagt á pólitísk samskipti við Frakka. Þótt menningarleg samskipti við þá hafi alltaf verið mikil.

Styrkur Geirs H. Haarde í þeirri heimsókn hefur áreiðanlega verið sú staðreynd, að hann talar frönsku en Frakkar kunna vel að meta þá, sem það gera.

Fyrir skömmu gekk Chirac Frakklandsforseti út af fundi, þar sem frönskum embættismanni varð það á að tala ensku!

Eins og við máttí búast var utanríkisráðherra vel tekið í Berlín enda lengi legið fyrir að við eigum mikla möguleika í auknum pólitískum samskiptum við Þjóðverja og mikilvægt að rækta þau tengsl.

Morgunblaðið hefur m.a. hvatt til þess ítrekað undanfarin ár, að samskiptin við Þýzkaland verði gerð ein af höfuðstoðum íslenzkrar utanríkisstefnu.

En það var líka eftirtektarvert hve mikil áherzla var lögð á það í Moskvu að heimsókn utanríkisráðherra þangað væri annað og meira en formleg heimsókn. Það sást m.a. á því hve löngum tíma rússneski utanríkisráðherrann varði í samtöl við íslenzkan starfsfélaga sinn.

Í ljósi þeirrar stöðu, sem nú er í samskiptum okkar við Bandaríkjamenn er augljóst, að það hefur mikla pólitíska þýðingu að rækta samskiptin við gömlu evrópsku stórveldin.

Þess vegna má segja að tímasetningin á heimsókn utanríkisráðherra hefði ekki getað verið betri.