George W. Bush segir Donald Rumsfeld réttan mann á réttum stað.
George W. Bush segir Donald Rumsfeld réttan mann á réttum stað. — Reuters
Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti blés á föstudagskvöld á allar kröfur um að Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra yrði látinn víkja. "Hann nýtur míns fyllsta trausts," sagði Bush í yfirlýsingu.
Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is
GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti blés á föstudagskvöld á allar kröfur um að Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra yrði látinn víkja. "Hann nýtur míns fyllsta trausts," sagði Bush í yfirlýsingu. "Kraftmikil og stöðug leiðsögn Rumsfelds ráðherra er einmitt það sem þarf á þessari úrslitastundu," sagði Bush einnig í yfirlýsingu sinni.

Undanfarna viku hafa skyndilega farið að heyrast háværar kröfur þess efnis að Rumsfeld segði af sér, eða yrði látinn víkja. Sex fyrrverandi hershöfðingjar í Bandaríkjaher, sem sumir hafa gegnt lykilhlutverki í hernaðaraðgerðum í Írak, hafa stigið fram fyrir skjöldu og krafist afsagnar Rumsfelds, en þeir saka hann um að hafa klúðrað málum rækilega í Írak og um að hafa haft að engu ráðleggingar yfirmanna á vettvangi. Þá fordæma þeir það sem þeir kalla hrokafullan stjórnunarstíl varnarmálaráðherrans.

Rumsfeld sjálfur hafnaði kröfum um afsögn í viðtali á al-Arabiya -sjónvarpsstöðinni á föstudag. "Það eru auðvitað til þúsundir og aftur þúsundir af aðmírálum og hershöfðingjum. Ef við færum að skipta um varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í hvert sinn sem tveir eða þrír lýstu óánægju sinni yrði það auðvitað eins og eilífðar hringekja," sagði hann.

Uppstokkunar að vænta?

Sumir ef ekki allir hershöfðingjanna sex eru hins vegar álitnir þungavigtarmenn og AP -fréttastofan hafði eftir ónafngreindum embættismanni að af þeim sökum hefði þótt nauðsynlegt, að Bush sendi frá sér formlega yfirlýsingu til stuðnings Rumsfeld. Aðrir ráðherrar, s.s. John Snow fjármálaráðherra, gætu vart átt von á jafn eindreginni stuðningsyfirlýsingu. En altalað mun vera í Washington að nýr skrifstofustjóri í Hvíta húsinu, Joshua Bolten, sem formlega tók til starfa á föstudaginn langa, muni senn tilkynna um uppstokkun í starfsliði forsetans, jafnvel strax eftir páskahelgina.

Sagði í frétt The Washington Post í gær að Bush og ráðgjafar hans líti á árásir í garð Rumsfelds sem gagnrýni á forsetann sjálfan, enda hafi bæði Bush og Dick Cheney varaforseti verið Rumsfeld fyllilega sammála um þá stefnu sem mótuð var í Afganistan og Írak. Útilokað væri að Rumsfeld viki við slíkar aðstæður.