Ritnefnd skólablaðsins: Urður Anna Björnsdóttir, Gerður Guðmundsdóttir, Elísabet Kemp, Bára Dís Benediktsdóttir og Aðalheiður Dögg Finnsdóttir.
Ritnefnd skólablaðsins: Urður Anna Björnsdóttir, Gerður Guðmundsdóttir, Elísabet Kemp, Bára Dís Benediktsdóttir og Aðalheiður Dögg Finnsdóttir. — Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is SKÓLABLAÐ Menntaskólans í Reykjavík kom út nýverið, en blaðið er sérstaklega veglegt að þessu sinni.
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is
SKÓLABLAÐ Menntaskólans í Reykjavík kom út nýverið, en blaðið er sérstaklega veglegt að þessu sinni. Ástæðan er sú að í ár eru 950 ár frá stofnun hins Lærða skóla, en MR á rætur sínar að rekja til biskupsstólsins í Skálholti sem stofnaður var árið 1056. Að sögn Báru Dísar Benediktsdóttur, ritstjóra blaðsins, verður blaðinu dreift til allra núlifandi MR-inga sem búsettir eru hér á landi, en hún segir það aldrei hafa verið gert áður.

"Við ákváðum að gera nokkuð venjulegt Skólablað líkt og gert hefur verið undanfarin ár, fyrir utan að við jukum efni sem höfðar til fyrrverandi nemenda við skólann. Við fengum til dæmis stúdenta til þess að skrifa og tókum viðtöl við fræga stúdenta úr MR," segir Bára, en á meðal viðmælenda eru Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Baltasar Kormákur, leikstjóri, sem bæði voru nemendur við skólann. Aðspurð segir Bára að blaðinu verði dreift til 7.970 fyrrum MR-inga, en upplagið er 9.000 eintök.

"Hugsunin var sú að sýna útskrifuðum MR-ingum hvernig skólinn er í dag," segir hún. "Ástæðan er sem sagt sú að Lærði skólinn er 950 ára, auk þess sem það eru 160 ár síðan skólinn var fluttur niður í Lækjargötu," bætir hún við. Efni blaðsins höfðar þó ekki einungis til fyrrverandi MR-inga heldur einnig þeirra sem nú stunda nám við skólann. "Við vorum líka mjög dugleg við að virkja nemendur til þess að senda inn efni, og svo gerðum við könnun á meðal tæplega 90% nemenda skólans," segir Bára, en um er að ræða könnun þar sem viðhorf og atferli menntaskólanema voru rannsökuð.

Þess má að lokum geta að dreifing blaðsins stendur nú yfir og mega fyrrum MR-ingar búast við að fá það inn um lúguna hjá sér um eða rétt eftir páskahátíðina.