Eftir Agnesi Bragadóttur agnes@mbl.is BRESK þingnefnd, þverpólitísk, sem rannsakað hefur smásölumarkaðinn á Bretlandseyjum undanfarið ár, gerir m.a. tillögu í skýrslu sinni, um að frekari samrunar og yfirtökur verði tímabundið bannaðar.
Eftir Agnesi Bragadóttur agnes@mbl.is
BRESK þingnefnd, þverpólitísk, sem rannsakað hefur smásölumarkaðinn á Bretlandseyjum undanfarið ár, gerir m.a. tillögu í skýrslu sinni, um að frekari samrunar og yfirtökur verði tímabundið bannaðar. Jim Dowd, þingmaður Verkamannaflokksins, formaður þingnefndarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að það sé undir ríkisstjórninni og breska þinginu komið að taka ákvörðun um hvort ráðist verði í lagabreytingar.

Fjórar stórar verslanakeðjur eru allsráðandi á breska smásölumarkaðnum og hafa yfir 70% markaðshlutdeild. Þær eru Tesco, Asda-Wal-Mart, J. Sainsbury og M Morrisons. Hlutdeild Tesco á breska smásölumarkaðnum er langstærst, eða um 30%.

Keðjan stefnir að því að ná 50% markaðshlutdeild á örfáum árum. Náist þau markmið og nái óhindrað fram að ganga verður hlutdeild Tesco á breskum smásölumarkaði svipuð og hlutdeild verslana Baugs er nú á Íslandi. Önnur stærsta smásölukeðjan á Bretlandseyjum er Asda-Wal-Mart, með um 17% markaðshlutdeild. Asda hefur sömu yfirlýstu markmið og Tesco, þ.e. að tvöfalda verslanafjölda sinn á næstu 10 árum.

Í viðtalinu segir Jim Dowd m.a.: "Við tökum sérstakan vara við og bendum á að í auknum mæli gerist það á Bretlandseyjum að góð fyrirtæki eru neydd til þess að hætta, þau keypt upp og/eða lögð niður. Ekki vegna þess að þau standi sig illa, veiti ekki góða þjónustu og bjóði upp á gæði, heldur vegna þess að þeir stóru hafa slíka yfirburði að þeir geta í krafti stærðarinnar þröngvað þeim út af markaði, með ýmsum meðulum sem eru ekki endilega af hinu góða eða markaðnum, neytendum og samfélaginu til góðs."