Vídeóverk eftir Sigurð Guðjónsson, sem nú er sýnt í Melbourne í Ástralíu.
Vídeóverk eftir Sigurð Guðjónsson, sem nú er sýnt í Melbourne í Ástralíu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is "Ísland og Ástralía eiga að minnsta kosti það sameiginlegt að vera bæði eylönd þar sem auðnin ríkir í miðjunni.
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is

"Ísland og Ástralía eiga að minnsta kosti það sameiginlegt að vera bæði eylönd þar sem auðnin ríkir í miðjunni. Löndin eru hol að innan en jafnframt uppfull að fantasíum, á sitt hvorum enda veraldarinnar eins og við þekkjum hana." Svona hljómar inngangur í sýningarskrá samsýningar íslenskra listamanna sem var opnuð í Melbourne í Ástralíu í gær. Sýningin ber yfirskriftina "The Other Side of Things (On The Other Side)", og samkvæmt fréttatilkynningu vísar titillinn til landfræðilegrar fjarlægðar milli heimalands sýnenda og sýningarstaðarins sjálfs á suðurhluta Ástralíu. Listagalleríið sem hýsir sýninguna heitir BUS Gallery og er staðsett í miðri Melbourne.

Fantasíur og ljóðræn sýn

"Ég kynntist galleríeigandanum (Tristian Koening) í Feneyjum í fyrrasumar og hann bauð mér að sína í galleríinu sínu og það þróaðist út í að halda samsýningu með fleiri íslenskum listamönnum," segir Birta stjórnandi sýningarinnar en hún fékk til liðs við sig þau Darra Lorenzen, Geirþrúði Finnbogadóttur Hjörvar, Harald Jónsson og Sigurð Guðjónsson til að taka þátt í sýningunni. Þar sem það er bæði ansi kostnaðarsamt og tímafrekt að komast til Ástralíu voru aðeins tveir listamannanna viðstaddir opnunina, þau Birta og Haraldur.

Í fréttatilkynningunni stendur að "verk listamannanna einkennast af fantasíu, tilfinningalegri nálgun og ljóðrænni sýn, sem eru einkennandi þættir í íslenskri myndlist. Sýningin gengur útfrá persónulegum upplifunum og skynjunum, sem ekki er hægt að orða."

Verkin eru unnin í ýmsa miðla en þarna eru þrjú vídeóverk, ljósmyndir og svo eru skúlptúrar og hljóðverk. Að sögn Birtu tengjast verkin ekki beint í viðfangsefni heldur meira í fagurfræði.

"Þetta var ofboðslega fín opnun, mikill fjöldi af fólki. Meirihluti gestanna var fólk úr listheiminum hérna sem við höfum kynnst á þessari viku sem við höfum dvalið hér," segir Birta.

Upphaf góðrar vináttu

Fyrir utan að setja upp þessa sýningu og sýna hana þá er ætlun ferðarinnar einnig að kynna Áströlum íslenska myndlist. "Við tókum með okkur helling af kynningarefni í þeim tilgangi," segir Birta. "Við höfum líka verið dugleg að nálgast listamenn héðan og safnstjóra með það í huga að efla tengsl á milli landanna sem hafa hingað til ekki verið mjög mikil."

Birta segir að Ástralarnir hafi sýnt sýningunni mikinn áhuga og jafnframt íslenskri myndlist almennt og vill hún meina að það sé góður grundvöllur fyrir öflugra menningarsamstarfi á milli landanna. "Það hefur verið mikið spurningaflóð á báða bóga því þó að Ástralía sé mikið stærri en Ísland og allt það þá hef ég fundið það út að það er svo margt sameiginlegt með okkur líka. Það eru svona eyjarskeggja-komplexar í gangi hjá okkur. Ég finn einnig fyrir þörf beggja aðila við að halda og efla tengslin. Þetta er bara blábyrjunin á góðri vináttu held ég."