Hallur í flæðarmálinu í Vestmannaeyjum.
Hallur í flæðarmálinu í Vestmannaeyjum.
Ferðalög Bjarnheiður Hallsdóttir og Tómas Guðmundsson hafa skrifað nýja ferðahandbók sem nefnist Ferðahandbók fjölskyldunnar og kemur út hjá Eddu útgáfu innan tíðar.
Ferðalög Bjarnheiður Hallsdóttir og Tómas Guðmundsson hafa skrifað nýja ferðahandbók sem nefnist Ferðahandbók fjölskyldunnar og kemur út hjá Eddu útgáfu innan tíðar. "Þetta er nokkuð nýstárleg bók, því hún er einkum skrifuð með þarfir barnafjölskyldna í huga og bendir á áhugaverða staði fyrir börn hringinn í kringum landið. Staðirnir sem við segjum frá eru bæði þekktir og óþekktir, allt frá Geysi í Haukadal og til fjörunnar í Skarðsvík vestur á fjörðum."

Bjarnheiður segir að bókin sé skrifuð á mannamáli og að þau Tómas reyni að halda sig frá djúpri fræðimennsku, þótt í bókinni sé að finna marga fróðleiksmola sem tengist hverjum stað fyrir sig. "Í raun er bókin hugsuð fyrir Íslendinga sem eru vanir að þeytast á milli Reykjavíkur, Akureyrar, Egilsstaða og kannski Víkur með milljóna króna fellihýsi í eftirdragi og stoppa í mesta lagi í þjóðvegasjoppum. Þó að þær séu góðra gjalda verðar, út af fyrir sig, er markmiðið sem sagt að fá fólk til að stoppa og njóta og kenna börnunum sínum að upplifa þetta stórkostlega land okkar."

Bjarnheiður segir að nánast allir staðirnir sem bent er á séu náttúrulegir, það er að segja, það kostar ekkert að njóta þeirra, og þó að á því séu örfáar undantekningar er ekki fjallað um þjónustu í bókinni.

Einfaldleikinn heillar

Hugmyndin að bókinni kviknaði eitt sinn er Bjarnheiður og Tómas voru á ferðalagi með strákana sína, 13 og 5 ára, og vin eldri sonarins. "Við vorum að koma að norðan og allir frekar pirraðir og ég stakk þá upp á að við stoppuðum við Grábrók í Borgarfirði og gengjum á gíginn. Þetta fékk frekar dræmar undirtektir, en ég gaf mig ekki og smalaði öllum út.

Drengirnir voru ekki fyrr komnir af stað en viðmótið breyttist og allir komu endurnærðir og himinlifandi til baka," segir hún.

Síðastliðna 18 mánuði eða svo hafa Bjarnheiður og Tómas ferðast um landið vítt og breitt í þessum tilgangi.

"Við höfum komist að því að það er þetta einfalda sem hrífur börn mest - skemmtilegar fjörur, litlir lækir, skógarrjóður, berjalyng og gönguferðir. Við þurfum ekki endilega risaskemmtigarð til þess að hafa ofan af fyrir börnunum okkar," segir Bjarnheiður að síðustu.