Haraldur Auðunsson
Haraldur Auðunsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haraldur Auðunsson og Þórður Helgason fjalla um nýmæli innan verkfræðinnar: "Heilbrigðisverkfræðingar þurfa í starfi sínu að samþætta þekkingu á mannslíkamanum og verkfræðilegum aðferðum."
NÝLEG grein verkfræðinnar er heilbrigðisverkfræði þverfagleg grein þar sem aðferðum verkfræðinnar er beitt á mannslíkamann til að leysa mismunandi vandamál tilkomin vegna veikinda eða slysa, eða einfaldlega til að bæta lífsgæði og öryggi okkar allra.

Framsækin verkfræði

Við uppbyggingu verkfræðináms við Háskólann í Reykjavík var ekki bara horft á daginn í dag heldur var rýnt í framtíðina og greint hvaða greinar væru í mestum vexti í heiminum. Það blasti við að heilbrigðistæknin, og þar með heilbrigðisverkfræðin, væri einstaklega framsækin grein sem mikil þörf væri fyrir, bæði hér heima og erlendis. Vöxtur heimsframleiðslu heilbrigðitækniafurða hefur að meðaltali verið u.þ.b. 8% á ári nú um a.m.k. tveggja áratuga skeið. Þetta er með því mesta sem gerist í iðnaðinum í heiminum í dag.

Sérstaða heilbrigðisverkfræðinnar

Heilbrigðisverkfræðin hefur nokkra sérstöðu innan verkfræðinnar. Heilbrigðisverkfræðingar þurfa í starfi sínu að samþætta þekkingu á mannslíkamanum og verkfræðilegum aðferðum. Undirstöðugreinar heilbrigðisverkfræðinnar eru stærðfræði, eðlisfræði og lífeðlisfræði, og það er einmitt lífeðlisfræðin og starfsemi mannslíkamans sem setur heilbrigðisverkfræðina í nokkra sérstöðu miðað við aðrar greinar verkfræðinnar.

Fjölbreytt atvinnutækifæri

Og hvað gera svo heilbrigðisverkfræðingar? Sem dæmi þá hanna þeir gervilimi, ýmis raftæki til að bæta heyrn heyrnarskertra og háþróuð tæki sem notuð eru á skurðstofum sjúkrahúsa. Einnig taka þeir þátt í ólíkum mælingum á starfsemi líkamans. Sem dæmi um tæki sem heilbrigðisverkfræðingar hafa tekið þátt í að hanna og smíða eru ígræðanleg hjartastuðtæki, tæki sem þó nokkrir Íslendingar ganga með í brjóstinu. Heilbrigðisverkfræðingar beita raförvun á einstaklinga til að bæta vöðvastarfsemi sem annars væri ekki til staðar vegna lömunar, sem og greina burðarþol beina með þrívíddar tölvulíkönum. Þeir þróa tæki til læknisfræðilegrar myndgerðar og aðferðir til að bæta sjúkdómsgreiningu. Einnig hafa heilbrigðisverkfræðingar verið eftirsóttir í stjórnun fyrirtækja og sjúkrahúsa. Þessi dæmi sýna að heilbrigðisverkfræðingar vinna gjarnan í teymum ólíkra sérfræðinga innan heilbrigðisvísindanna, svo sem lækna, sjúkraþjálfara, eðlisfræðinga og taugavísindamanna.

Af þessum fáu dæmum ætti að vera ljóst að viðfangsefni heilbrigðisverkfræðinga eru afskaplega fjölþætt, enda er nám þeirra þverfaglegt en um leið með örugga fótfestu í verkfræði. Hvað þessir verkfræðingar fást við fer, eins og svo oft, eftir frumkvæði þeirra, áræðni og hugmyndaflugi. Ísland í dag er fullt tækifæra fyrir framsækna verkfræðinga og heilbrigðistæknin er nú þegar öflug og er ekki annað að sjá en að heilbrigðisverkfræðingar eigi eftir að taka þátt í því starfi og síðast en ekki síst skapa ný sóknarfæri.

Heilbrigðistækniiðnaður á Íslandi er í fyrirtækjum eins og Össur, Viasys (áður Taugagreining), Medcare (áður Flaga), Kine og fleirum. Mikill vöxtur hefur verið í þessum fyrirtækjum undanfarin ár. Tilvera þeirra sýnir að á Íslandi er að mörgu leyti gott að setja af stað fyrirtæki í þessari grein. Samkeppnisforskot Íslands má hinsvegar enn bæta töluvert og þar kemur m.a. Háskólinn í Reykjavík til sögunnar.

Við Háskólann í Reykjavík er boðið upp á framsækið nám í iðnaðar-, rekstrar-, fjármála- og heilbrigðisverkfræði auk hugbúnaðarverkfræði. Greinar sem eru heilbrigð viðbót við þau svið verkfræðinnar sem nú þegar er lagt stund á hér heima.

Höfundar starfa við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.