TVÍFARI SANNLEIKANS í nýjustu bók sinni hittir Philip Roth fyrir tvífara sinn ÞAÐ ER ekki nóg að lesa eina bók eftir Philip Roth. Bækur hans nærast hver á annarri, á milli þeirra eru margslungin textatengsl og saman mynda þær sinn sérstaka merkingarheim.

TVÍFARI SANNLEIKANS í nýjustu bók sinni hittir Philip Roth fyrir tvífara sinn

ÞAÐ ER ekki nóg að lesa eina bók eftir Philip Roth. Bækur hans nærast hver á annarri, á milli þeirra eru margslungin textatengsl og saman mynda þær sinn sérstaka merkingarheim. Gleggsta dæmið er nýjasta bók Roths, Operation Shylock - A Confession, en hún er full af vísunum til fyrri bóka Roths og höfundarferils hans.

Operation Shylock fer fram makalaus leikur að sambandi skáldskapar og veruleika, sem er þó ekki nýtt viðfangsefni hjá Roth. Sögumaður bókarinnar heitir ósköp einfaldlega Philip Roth og er höfundur allra þeirra bóka sem Roth er skrifaður fyrir, allt frá Goodbye, Columbus og Portnoy's Complaint til The Counterlife svo dæmi séu nefnd. Þegar við bætist að bókin ber undirtitilinn "játning" og að þess er hvergi getið á bókarkápu að um skáldverk sé að ræða fer maður fljótlega að velta fyrir sér sannleiksgildi frásagnarinnar. Er þetta satt eða logið? Roth ýtir undir þennan vafa með margvíslegum hætti, til dæmis með því að auðkenna nöfn sem hann segist hafa orðið að breyta. Öðrum nöfnum breytir hann hins vegar ekki. Þannig fær eiginkona hans, leikkonan Claire Bloom, að dúsa á síðum bókarinnar, verður meira að segja að sætta sig við að söguhetjan Philip Roth haldi framhjá sér. Ekki bætti úr skák að hinn raunverulegi Roth birti greinarstúf í bókablaði The New York Times daginn sem bókin var ritdæmd. Þar segir hann frá því að í janúar 1989 (bókina lætur hann hefjast árinu fyrr) hafi hann reynt togstreituna í Miðausturlöndum á sjálfum sér þegar maður á aldur við hann og ótrúlega líkur honum skaut upp kollinum í Jerúsalem og hóf að tala fyrir því að gyðingar flyttu frá Ísrael og dreifðu sér meðal þjóða heimsins, alveg eins og gerist í bókinni. Þannig virðist Roth meðvitað reyna að rugla veruleikatengsl lesandans, eins og honum sé mikið í mun að fólk komi að bókinni með sjálfsævisögulegar væntingar. Síðan er lesandinn löðrungaður í bókarlok: "Þessi játning er fölsuð," segir þar, þótt auðvitað geti það verið skáldskapur líka.

Hér virðist Roth feta enn einu sinni, en nú á djarfari hátt en nokkru sinni fyrr og af enn meiri íþrótt, það einstigi sem liggur milli skáldskapar og veruleika. Hér tekur hann sína eigin ævi, óbreytta að því er virðist, og setur hana í nýtt samhengi. Er þetta snilldarbragð eða fjörbrot skáldgáfunnar? Því er vandsvarað, það liggur í eðli sögunnar, en af kraftinum og kynnginni í frásögninni að dæma fer þar ekki höfundur að lotum kominn.

Tvífarinn

Í stuttu máli fjallar Operation Shylock um ferð rithöfundarins "Philips Roths" (gæsalappirnar vísa til sögupersónunnar) til Ísraels í því augnamiði að taka viðtal við ísraelska rithöfundinn Ahron Appelfeld, en það ku hafa birst í bókablaði New York Times 1988. Þegar ferðin hefst er "Roth" nýstiginn upp úr veikindum sem orsökuðust af hliðarverkunum svefntaflna og lýstu sér í sjúklegum kvíða og ofskynjunum (svipaðri reynslu hefur hann lýst í sjálfsævisögulegri ritsmíð áður). Skömmu áður en Roth leggur af stað fréttir hann af tvífara sínum og er látið að því liggja að tvífarinn hefði sem best getað verið ein af ofskynjunum skáldsins. Nema "Roth" hringir í kauða og þykist vera franskur blaðamaður: "Tilhugsunin um að hann væri að þykjast vera ég á hinum enda línunnar og ég væri að þykjast vera einhver annar en ég sjálfur mín megin reyndist ótrúlega kitlandi og líklega var það þetta sem olli þeim kjánalegu mistökum sem ég gerði í næstu andrá. "Ég er Pierre Roget," sagði ég." Svo skemmtilega vill til, eins og skýrt er af sögumanni, að Pierre Roget hefur ekki aðeins sama fangamark og "Philip Roth" heldur er hann höfundur þekktrar samheitaorðabókar.

Þetta er upphafið að furðulegum samskiptum "Roths" og tvífarans, þar er stokkið milli hlutverka, stundum er "Roth" tekinn í misgripum fyrir tvífarann (og öfugt) og lætur sem ekkert sé, bregður sér í annað hlutverk og öðlast þannig aðgang að reynslu sem hann hefði ella orðið af. Þar á meðal er heimsókn til Palestínumanns, gamals skólafélaga "Roths" frá Chicago (þar nam hin raunverulegi Roth líka), en þá talar "Roth" máli tvífarans, sem hefur meðal annars stofnað samtök til að lækna fólk af gyðingahatri (sbr. AA), og tekur "Roth" meira að segja vel í að hitta Jasser Arafat fyrir milligöngu Palestínumannsins. Af því verður reyndar ekki, en þessi heimsókn og lýsingin á kjörum araba í Ísrael sýnir að þótt Roth sé gyðingur hefur hann innsýn í það sem Palestínumenn hafa mátt þola af gyðingum. Það er varla tilviljun að baksvið þessara atburða eru réttarhöld yfir Demjanjuk nokkrum, manni sem sakaður er um að hafa gengið hart fram í Treblinka. "Roth" er einnig viðstaddur réttarhöld yfir Palestínumanni, væntanlega til samanburðar. Þessi réttarhöld kallast síðan á við réttarhöld yfir Shylock-titlinum, eins og síðar verður vikið að. Þannig liðast tvíhyggjan gegnum bókina; allt kallast á við eitthvað annað, ekkert er einhlítt.

Dag einn er "Roth" stungið inn í bíl og haldið daglangt í gíslingu, eða svo heldur hann, af leyniþjónustu Ísraels, Mossad. Í framhaldi af því gengst hann inn á að verða handbendi þeirra við að leita uppi gyðinga sem styðja PLO; það er "Operation Shylock". Í þeim tilgangi fer hann til Aþenu og síðar til annarrar evrópskrar borgar, en frásögnina af þeim leiðangri strikar hann út úr handritinu að tilmælum yfirmanns hjá Mossad. Hápunkt sögunnar vantar því í bókina, af öryggisástæðum, er sagt, en lesandanum látið eftir að grufla eftir hinni raunverulegu ástæðu. Til að komast á slóðir svars verðum við líklega að elta ólar við hina bókmenntalegu skírskotun sem er fólgin í titli bókarinnar.

Sælokk Shakespeares

Sælokk, eins og Helgi Hálfdanarson kýs að stafsetja nafnið, er einn þekktasti gyðingur heimsbókmenntanna. Hann er ríki gyðingurinn í Kaupmanni í Feneyjum, sá sem lánar hinum kristna kaupmanni Antóníó þrjú þúsund dúkata með þeim skilmálum að ef skuldin verði ekki greidd á réttum degi beri honum í bætur "eitt vegið pund af yðar bjarta holdi, sem skorið verði til og tekið brott úr líkamanum þar sem þóknast mér". Áður hefur komið fram útsviðs að Sælokk leggur fæð á Antóníó fyrir að lasta kaupskap sinn: ". . . mjög vel fenginn hagnað kallar hann okur." Þessu getur Sælokk ekki unað: "Þá sé þjóð mín fordæmd, ef það skal fyrirgefið," segir hann. Það er skemmst frá því að segja að Antóníó lendir í vanskilum, en Sælokk heimtar sitt pund án miskunnar. Lyktir mála verða þær að "útlendingurinn" Sælokk er jú sagður eiga lagalegan rétt á sínu pundi af holdi, en ekki svo að blóð þurfi að fljóta, og er hann að lokum dæmdur fyrir að ógna lífi borgara til að láta allar sínar eignir.

Þessi hatursfulli og grimmi gyðingur hefur síðan orðið tvífari allra gyðinga í vitund hinna upplýstu Vesturlandabúa, lætur Roth eina sögupersónu sína segja. Þá liggur beint við að spyrja hvort rannsókn "Roths" á gyðingum sem styðja Frelsissamtök Palestínumanna, þ.e. Operation Shylock, sé ekki rannsókn á sjálfshatri gyðinga, jafnvel sjálfseyðingarhvöt þeirra. Það sé leyndarmálið sem Mossad bannar honum að upplýsa, þar sé kominn tvífari hvers gyðings, það sem ógni þjóðaröryggi. Er skemmst að minnast viðfangsefna tvífara "Roths" í því sambandi.

Of snjall?

Allt frá því Goodbye, Columbus kom út 1959 hefur Philip Roth verið einn umdeildasti höfundur gyðinga og með Portnoy's Complaint varð hann einn umdeildasti höfundur heims. Roth skirrist ekki við að fjalla um viðkvæmustu mál gyðinga, um snöggu blettina, um bannhelg málefni. Hann er sannarlega enn við sama heygarðshornið í Operation Shylock, reyndar er mér til efs að hann hafi hoggið nær hælum áður; sumir mundu segja að refurinn væri farinn að bíta hættulega nálægt greninu. Víst er að Roth bliknar ekki þegar hann horfist í augu við hinn gyðinglega veruleika. En gyðingar lesa verk hans margir hverjir; þeir stóðu í röðum til að fá áritun hjá honum vestur í Chicago í vetur. Hann hefur svo mikið innsæi, heyrðist einn þeirra segja.

Sumir gagnrýnendur hafa sagt að Operation Shylock sé helsti snjöll bók, hún sé of úthugsuð, en það hefur reyndar verið fundið að bókum Roths áður. Ekki skal því neitað að sagan sé snjöll, hún er nístingshvöss greining á sjálfsmynd gyðinga, en á hitt skal bent að bókin er langt frá því að vera stirðbusaleg aflestrar. Atburðarásin virðist ekki þrælskipulögð og fyrirsjáanleg, heldur virkar hún sem sjálfsprottinn straumur kaótískra hugsana og atburða sem söguhetjan "Roth" hefur enga stjórn á, enda leiksoppur aðstæðna. Að vissu leyti er þessi bók vatn á myllu þeirra sem amast við naflaskoðun rithöfunda, en eins og bent hefur verið á er bókin svo tvöföld í roðinu að við verðum margs vísari um nafla annarra en þess snjalla penna sem Philip Roth heitir.

Rúnar Helgi Vignisson

Philip Roth notar sjálfan sig sem söguhetju í nýjustu skáldsögu sinni.