Úr nýju vídeóverki Heimis Björgúlfssonar sem sýnt verður í Suðsuðvestur.
Úr nýju vídeóverki Heimis Björgúlfssonar sem sýnt verður í Suðsuðvestur.
Eftir Hjálmar S. Brynjólfsson hsb@mbl.is HANN VAR einn af stofnmeðlimum Stilluppsteypu og tók þátt í þeirri hljómsveit í áratug, frá 1992 til 2002.
Eftir Hjálmar S. Brynjólfsson hsb@mbl.is

HANN VAR einn af stofnmeðlimum Stilluppsteypu og tók þátt í þeirri hljómsveit í áratug, frá 1992 til 2002. Eftir það ákvað Heimir að einbeita sér að myndlistinni og sínum eigin verkefnum í tónlist, en kemur stundum fram með hljómsveitinni The Vacuum Boys . Um það band segir hann reyndar "að það líti frekar út eins og hljómsveit heldur en að vera hljómsveit".

Þrátt fyrir að hægt væri að skrifa langa grein um slíka hljómsveit og uppátæki hennar, er málið að einbeita sér að myndlist Heimis. Í þeim heimi hefur bakgrunnur hans í tónlist nýst vel og hljóðvinnan blandast inn í innsetningar og vídeóverk."Allt sem maður gerir fer út í eitthvað annað. Það næsta sem þú gerir er byggt á öllu því sem þú hefur gert á undan. Þetta er svona eins og pýramídi sem er stöðugt að fara hærra."

Tilnefndur til Rembrandt-verðlauna í Hollandi

Heimir lærði myndlist í Gerrit Rietveld Akademíunni í Amsterdam frá 1998-2001 og lauk mastersgráðu við Sandbergstofnunina í Amsterdam 2003. Hann notar ýmsa miðla, en segir að listsköpunin snúist samt öll um sama hlutinn: "Samband mitt við umhverfi mitt." Myndlist hans hefur tekið persónulegri stefnu síðari ár í stað þess að fást við einhvern sammannlegan stuðul. "Ég er meira að fjalla um mitt persónulega samband við umhverfi mitt, frekar en sambandið við það sem maður. Spurningin er frekar: "Hvað er ég að gera hérna?" en ekki "hvað erum við öll að gera hérna?"".

Heimir segir að líklega fjalli verk hans um náttúru og umhverfi vegna bakgrunns hans. Það að vera uppalinn á Íslandi, að geta farið út fyrir bæjarmörkin og vera kominn í umhverfi þar sem enginn var á kreiki verkaði sterkt á hann. Hann var einnig mjög meðvitaður um að vera Íslendingur þegar hann var í Amsterdam, þar sem hver fersentímetri er skipulagður og opin svæði fá.

Einnig segir Heimir að mörg verka hans snúist um það "hvað maður eltist við sjálfan sig í tilgangsleysi sínu. Hversu langt við förum til að ná engu fram; án þess að fá í raun umbun erfiðis vinnu okkar." Hann tekur þó ekki undir að hann sé tómhyggjumaður, en er heldur ekki á móti henni.

"Það sem er eiginlega það mikilvægasta í þessu öllu er að ég kem ekki fram með neinar lausnir á hlutunum. Það mikilvæga er varpa fram spurningum. Um það snýst heila málið."

Heimir hefur vakið athygli í Hollandi en hann var nýlega tilnefndur til sérstakra Rembrandt-verðlauna í tilefni þess að 400 ár eru liðin frá fæðingu Rembrandts. Hann er einn af sex tilnefndum, en aðstandendur eru GEM safnið í Den Haag, hollenska ríkissjónvarpið og dagblaðið Volkskrant. Fyrir vikið verður sýndur um hann þáttur í ríkissjónvarpinu.

"Fólk keppist við að verða eins og hvað annað"

Sýning Heimis ber heitið Yst glitrar . Meðal verka er ný vídeóinnsetning sem hann tók upp á Íslandi auk "collage"-mynda eða klippimynda, unninna úr ljósmyndum og teikningum. "Ljósmyndirnar og vídeóin eru gjörningar þar sem ég er gerandi í mínum eigin leikjum úti í náttúrunni. Teikningarnar og skúlptúrarnir eru meira fantasíur eða metafórar við ákveðnar mannlegar aðstæður. Þær eru um mannlega hegðun, að þú allt í einu ferð að hegða þér öðruvísi en þú gerðir."

Auk þess eru á sýningunni innsetningar sem eru mitt á milli vídeóverksins og klippimyndanna. Innsetningar sem eru, að sögn Heimis, lífrænt ferli; vaxa, deyja og breytast með tímanum, en innan ákveðins ramma samt sem áður.

Í vídeóverkinu koma við sögu hlaupkennt efni og almennt eðli. Hann útskýrir það með því að það sé "eitthvað loðið" við efni sem er hlaupkennt, þannig að maður treysti því ekki alveg. "Þetta er eins og leðja, þú þorir ekki að stíga ofan í hana."

- Þannig er bein tenging yfir í hið loðna hugtak "almennt eðli" eða hvað?

"Almennt eðli er í raun og veru bara fyrirbæri sem er ekki til - eða jú, það er til. En fólk er alltaf að keppast við að vera eins og hvað annað og það þorir ekki að skera sig úr. Þróunin finnst mér hafa verið þannig að sérviska verður sjaldgæf. Allir fylgja stöðlum um hvað telst eðlilegt, en það er bara eitthvað sem menn gera af því að einhver annar hefur sagt að tiltekið athæfi sé eðlilegt. En hver á að ákveða hvað er eðlilegt?

Að mínu mati er það bara persónubundið. Það sem mér finnst fullkomlega eðlilegt, finnst þér kannski mjög óeðlilegt, og öfugt. Þetta er spurning sem vaknar, án þess að ég sé eitthvað að dæma hlutina. Ég er ekki að setjast í neitt hásæti. Alls ekki. Það er meira að það sem hverjum og einum finnst er í raun og veru það rétta fyrir hvern og einn."

Sýning Heimis verður opnuð klukkan 21 og stendur frá 24. júní til 16. júlí í Suðsuðvestur.