26. júní 2006 | Innlendar fréttir | 371 orð

Símafyrirtækin um þriðju kynslóðina

Ekki tímabært sökum kostnaðar

HVORKI Síminn né OgVodafone hafa sótt um leyfi fyrir þriðju kynslóðar farsímakerfi, en að sögn forstjóra félaganna er ástæðan fyrst og fremst sá mikli kostnaður sem uppsetning kerfisins útheimtir.
HVORKI Síminn né OgVodafone hafa sótt um leyfi fyrir þriðju kynslóðar farsímakerfi, en að sögn forstjóra félaganna er ástæðan fyrst og fremst sá mikli kostnaður sem uppsetning kerfisins útheimtir.

Nýlega greindi Morgunblaðið frá því að fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, Novator, hefði fengið tilraunaleyfi fyrir þriðju kynslóðar farsímakerfi og hyggist setja á fót nýtt símafyrirtæki næsta haust.

"Þriðja kynslóðin hefur verið í skoðun hjá Símanum í þó nokkurn tíma enda teljum við að kerfið verði tekið upp hér á landi í náinni framtíð," segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans. "Við höfum fylgst grannt með þróuninni í Evrópu og verið lengi í startholunum.

Hingað til höfum við hins vegar ekki talið ástæðu til að ráðast í þessa fjárfestingu með flýti, t.a.m. var það fyrst í fyrra sem lög um þriðju kynslóðar farsíma voru samþykkt," segir Brynjólfur.

Kostnaðarsamar kvaðir

Lögin sem Brynjólfur vísar til eru lög nr. 8 sem samþykkt voru í febrúar 2005. 3. grein laganna fjallar um lágmarks útbreiðslu sem rétthafar leyfisins verða að uppfylla, en þjónustan verður að ná til 60% íbúa í hverjum landsfjórðungi. 4. grein laganna kveður á um það tíðnigjald sem rétthöfum ber að greiða. Gjaldið er 190 milljónir króna en 10 milljóna króna afsláttur er veittur fyrir hverja hundraðshluta íbúa umfram 60% útbreiðslu utan höfuðborgarsvæðisins.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri OgVodafone, segir að vegna þess hve Ísland sé fámenn þjóð og dreifð geri úbreiðslukrafa laganna það að verkum að kostnaðurinn við að koma upp kerfinu hér á landi sé umtalsvert hærri en í þeim borgum Evrópu þar sem kerfið sé komið í notkun.

"Það er einfalt að æða fram og fullyrða að það sé engum erfiðleikum bundið að koma upp kerfinu hér á landi og að menn hafi einfaldlega ekki viljað ráðast í þetta. Þessar kvaðir gera það að verkum að mjög kostnaðarsamt er að leggja út í þetta," segir Árni Pétur.

Hleypur á milljörðum

Brynjólfur segir að í kjölfar gildistöku laganna hafi Síminn gert könnunarútboð milli þriggja birgja um búnað fyrir þriðju kynslóðina. "Við höfum farið í gegnum allan þennan feril og gerum okkur því grein fyrir kostnaðinum. Hann hefur farið minnkandi ár frá ári, en hleypur enn á milljörðum króna. [...] Eins og er teljum við ekki tímabært að ráðast í [fjárfestingarnar] að svo stöddu," segir Brynjólfur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.