— Ljósmynd/Haukur Snorrason
Þeir Magnús Guðmundsson og Smári Karlsson voru með reyndustu flugstjórum landsins segir Snorri Snorrason, sem hér birtir mynd af Skymaster-flugvélinni Heklu.

Tveir af reyndustu flugstjórum Íslendinga fyrr og síðar, þeir Smári Karlsson t.v. og Magnús Guðmundsson eru hér á þessari mynd. Báðir hófu störf hjá Flugfélagi Íslands 1944 og flugu þá meðal annars Rapide, Norseman, Beechcraft, Grumman, Catalina og Douglas-flugvélum félagsins. En þegar Loftleiðir keyptu Skymaster-flugvélina Heklu 1947 vantaði reynda flugstjóra. Var þeim Magnúsi og Smára boðin flugstjórastaða og fóru þeir báðir til félagsins og luku sínum starfsferli hjá Loftleiðum og síðar Flugleiðum.

Flugstjórarnir tveir sem eiga stórmerka flugsögu að baki halda hér á ljósmynd af málverki sem breski listamaðurinn W. Hardy málaði fyrir Snorra Snorrason, en þetta er DC-8-63 þota sem þeir Magnús og Smári flugu árum saman. Er þotan á flugi við suðurströndina, Eyjafjalla- og Mýrdalsjökull í baksýn. Skúli Br. Steinþórsson flugstjóri hjá Loftleiðum kom einnig úr röðum Flugfélagsmanna, flaug meðal annars með Snorra á Douglas-flugvélunum fyrir 50 árum. En Skúli sem flaug DC-8 þotunum um árabil hefur tekið eftirfarandi saman:

Loftleiðir tóku Douglas DC-8-63 þotur í notkun í maímánuði árið 1970 og voru þær í notkun til 1989. Þær voru útbúnar með 249 farþegasætum hjá Loftleiðum en verksmiðjurnar leyfðu 259 farþegasæti. Árið 1971 var tekin í notkun DC-8-55 til Norðurlandaflugs. Það var minna afbrigði sem tók færri farþega (189). Árið 1985 var einnig DC-8-71 í notkun en það var DC-8-61 sem hafði verið útbúin með CFM-56 hreyflum sem voru mun öflugri en í fyrri afbrigðum. Fyrsta DC-8 flugvélin flaug í maí 1958, mörg afbrigði voru smíðuð, margar flugvélar af afbrigðunum DC-8-61/62 og 63, voru síðar útbúnar með CFM-56 hreyflunum og fengu þá heitið DC-8-71/72 og 73. 556 DC-8 flugvélar voru framleiddar, sú síðasta í maímánuði 1972. Árið 2005 voru enn margar DC-8-61-73 flugvélar í notkun. Allmargar af þeim flugvélum eiga yfir 100.000 fartíma að baki. Mjög fáar flugvélategundir hafa náð því marki. DC-8 flugvélarnar voru mjög sterkbyggðar og traustar. DC-8-63 flugvélin þurfti langa flugtaksbraut þegar hún var fullhlaðin, en fullhlaðin gat hún flogið um 7200 km vegalengd.

Leiðrétting 11. júlí - Rangt farið með heiti flugvélar á málverki

Í fyrirsögn og kynningu greinar eftir Snorra Snorrason í Morgunblaðinu á sunnudag var rangt farið með heiti flugvélar á málverki breska málarans W. Hardy. Eins og fram kemur í textanum er um að ræða mynd af DC-8-63 þotu. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.