Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Eftir Elínu Ebbu Ásmundsdóttur: "Víða hafa miklar breytingar orðið í geðheilbrigðisþjónustu vegna þrýstings frá notendasamtökum og niðurstöðum úr rannsóknum þar sem geðsjúkir eru spurðir álits um hvað virki og hvað ekki."

Þegar heilbrigðisráðherrar Evrópu undirrituðu geðheilbrigðissáttmálann í Helsinki í janúar 2005 voru þeir jafnframt að undirstrika verðgildi og trú á manneskjunni; að hún sjálf hafi krafta til að breytast og þroskast. Mikilvægi umhverfisins er einnig dregið fram. Þannig felur geðheilbrigðisstefnan nú í sér breiðari nálgun sem mun breyta valdahlutföllum og áherslum í geðheilbrigðisþjónustunni. En er sá áhugi og geta, sem til þarf til að aðlagast breyttum formerkjum, fólgin í því kerfi sem við höfum byggt, eða þarf að stokka upp?

Skilgreining á geðheilbrigði hefur breyst en áherslur í þjónustunni hafa ekki náð að fylgja því eftir. Í fyrstu var geðheilbrigði skilgreint þannig að viðkomandi væri ekki greindur með geðsjúkdóm eða laus við geðræn einkenni. Síðan var tekin með vellíðan, líkamleg og félagsleg, samskipti og tengsl umhverfis og einstaklings. Nýjasta skilgreiningin á geðheilbrigði er að einstaklingur hafi þol til að ráða við tilfinningaleg áföll og vonbrigði, beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og trúi bæði á eigin verðleika og annarra. Aðalmarkmiðið er ekki lengur að vera laus við einkenni. Geðheilbrigðissamtök í Bretlandi hafa sett saman lista um atriði sem áhrif hafa á geðheilsu. Þar kemur fram að til þess að viðhalda og efla geðheilsu þurfi umhverfið að gefa einstaklingnum tækifæri til að þroskast tilfinningalega, andlega og vitrænt. Tækifæri til að fá útrás fyrir skapandi krafta. Að geta tengst öðrum og viðhaldið tengslum, að læra að takast á við hindranir í daglegu lífi og að það sé í lagi að gera mistök. Mistökin séu til að læra af. Að trúa á sjálfan sig og hafa áhrif, að geta umgengist og unnið með öðru fólki, en einnig að geta verið einn með sjálfum sér. Umhverfið þarf að veita tækifæri til að stunda iðju sem í felst skemmtun, möguleika t.d. á að hlæja bæði að sjálfum sér og öðrum. Tækifæri til að efla siðgæðisvitundina og hegða sér í samræmi við aldur, menningu og aðstæður. Íslensk geðheilbrigðisþjónusta byggist takmarkað á ofangreindum þáttum.

Notenda- eða batarannsóknir setja fram ákveðna sýn og í henni felst m.a. að hægt sé að skilja vanda geðsjúkra á margan hátt. Að ekki sé heppilegt fyrir alla að fá sjúkdómsgreiningu. Fyrir marga séu vandræðin tengd tilfinningastíflum vegna erfiðrar lífsreynslu eða færniskerðingar. Að það sé ekki sjúkdómur að vera öðruvísi, eða eiga ekki samleið með fjöldanum. Samkynhneigðir voru lengi vel taldir vera með sjúkdóm og hindraði það réttindabaráttu þeirra. Líf þeirra breytist ekki til batnaðar fyrr en þeir gerðu sjálfir kröfu um að verða samþykkir og að samfélagið veitti þeim tækifæri til að fá að njóta sín. Þjáningar þeirra sem kallast geðsjúkir geta verið merki um erfitt líf, en ekki endilega afleiðingar taugatruflana, af efna- eða erfðafræðilegum toga.

Geðrænar truflanir eru háalvarlegt mál en rétt aðstoð felst ekki endilega í réttri sjúkdómsgreiningu, lyfjum eða öðrum læknisfræðilegum aðferðum. Það er fleira en eitt sem veldur lélegri geðheilsu. Það eru tengsl milli samfélagsins, geðheilsu og geðheilsubrests. Geðrof geta verið brestur í félagslegu tilliti, í samskiptum og tengslum manna á milli. Svokölluð sjúkdómseinkenni sem einstaklingur sýnir, geta allt eins verið hans leið til að ná tökum á tilverunni, eða ráða við sálfélagsleg vandamál. Einkenni þurfa ekki að vera tilgangslaus og sjúkum heila að kenna. Geðtruflanir geta verið viðbrögð með þýðingu og gildi alveg eins viðbrögð þeirra sem flokkast sem heilbrigðir. Það er alls ekki sannað að skortur á hinu eða þessu efninu sé ástæða geðrænna kvilla. Allt eru þetta tilgátur, en einhvern veginn hafa læknisfræðilegar tilgátur orðið sannleikur í tímans rás.

Aðstoð í formi lyfja hefur verið sett í forgang síðustu tvo áratugina, vegna tilgátna um að orsökin liggi í efnaójafnvægi heilans. Lyfin slá oft vel á einkennin, hjálpa mörgum og geta flýtt fyrir bataferlinu, en menn eru ekki á eitt sáttir um virkni þeirra þegar til lengdar lætur og á það bæði við um geðrofslyf og þunglyndislyf. Nýleg bresk langtímarannsókn á þunglyndislyfjum ( Joanna Moncrieff and Irving Kirsch bmj.com 25/7 2005 ) sýndi t.d. að lítill munur væri á virkni þeirra og placebo (lyfleysu), og að það væru heldur ekki nægar sannanir þess að þunglyndislyf hefðu betri áhrif á alvarleg þunglyndistilfelli þegar til lengra tíma væri litið. Bent er á í þessari grein að eftir þjóðarátak hjá Bretum 1990 gegn þunglyndi jukust lyfjaávísanir á þunglyndislyf um 253% á 10 árum. Greinahöfundar benda á að viðhorfum til þunglyndislyfja verði að breyta og að skoða beri aðrar íhlutunarleiðir. Þeim sem hafa fengið geðlyf farnast oft verr en þeim sem bent hafði verið á aðra kosti, oft aðferðir sem fólk gat sjálft tileinkað sér og stundað. Þeirra mat er að þunglyndislyf séu skammtímalausn númtímasamfélagins til að þola aukna streitu og væntingar sem einkenna nútímaþjóðfélag.

Robert Whitaker rannsóknarblaðamaður endaði með að skrifa heila bók sem kom út 2002, " Mad in America: Bad science, bad medicine, and the enduring mistreatment of the mentally ill ", eftir að hafa kannað ástæður þess að batahorfur geðklofasjúklinga í Bandaríkjunum hefðu versnað á síðustu 25 árum, þegar umfjöllunin væri á þann veg að alltaf kæmu ný lyf á markaðinn eða meðferðir sem ættu að bylta lífi geðsjúkra til hins betra. Í bókinni er hörð ádeila á lyfjaiðnaðinn og meðhöndlun á geðsjúkum.

Víða hafa miklar breytingar orðið í geðheilbrigðisþjónustu vegna þrýstings frá notendasamtökum og niðurstöðum úr rannsóknum þar sem geðsjúkir eru spurðir álits um hvað virki og hvað ekki.

Þessar breytingar hafa oftast orðið vegna samvinnu og breyttra viðhorfa stjórnvalda. Hvað gerist á Íslandi næstu ár er ekki gott að spá um, en stjórnvöld eru í lykilaðstöðu til að flýta fyrir breytingum, hvort sem er með lögum og reglugerðum, stefnumörkun eða breyttum farvegi fjármuna.

Höfundur er meðlimur í Hugarafli og lektor við HA.