Katrín Magnúsdóttir
Katrín Magnúsdóttir
Katrín Magnúsdóttir fjallar um brjóstagjöf: "Mjólkurframleiðsla minnkar ekki eða hættir nema barnið minnki eða hætti að sjúga."

Í TILEFNI af árlegri alþjóðlegri brjóstagjafaviku, sem liðin er fyrir nokkru, er við hæfi að fara nokkrum orðum um atriði brjóstagjafar sem mörgum virðast óljós.

Gömul ,,þjóðtrú" og jafnframt misskilningur fólks um líkamsstarfsemi kvenna virðast enn lifa ,,góðu lífi". Það er sorglegt, en engu að síður staðreynd, að enn þann dag í dag er brjóstagjöf nýorðinna mæðra stundum eyðilögð með því að viðhalda ,,þjóðtrúnni" og misskilningnum. Ábyrgð þeirra sem viðhalda þeim er mikil.

Sú ,,villutrú" er of útbreidd að broddurinn, sem kemur úr brjóstunum fyrstu 2-3 dagana, sé svo sem ekki neitt nema slímugur og ógeðslegur. Hann sé örugglega ,,gamall" og engin næring fyrir barnið. Það taki því eiginlega ekki að gefa barninu brjóst því það fái hvort eð er ekki neitt. Þetta sé í raun ,,biðtími" eftir að mjólkin komi. Oft heyrast setningar á þessa leið: ,,Jú, hann sýgur ágætlega en hann fær ekki neitt. Mjólkin er ekki komin."

Ekkert er fjær sanni. Af öllum samsetningum mjólkurinnar, (en hún getur verið býsna fjölbreytt), er broddurinn líklega sú fullkomnasta. Í fáum dropum hans er fólgin öll sú næring og öll þau efni sem barnið þarfnast til að setja meltinguna rétt af stað, til að halda uppi blóðsykri, til að koma í veg fyrir alvarlega lífeðlisfræðilega gulu og til varnar gegn sýkingum. Þar að auki lendir móðir, sem ekki er sogin oft og mikið á fyrstu 2 sólarhringunum, oft í vandræðum með að ná upp nægri mjólkurframleiðslu. Lykillinn að mikilli mjólkurframleiðslu er að barnið sjúgi af sinni hjartans lyst án ytri truflana allan þann brodd sem það mögulega getur. Fyrir það magn sem barnið sýgur út framleiðist margfalt magn í staðinn.

Annar of útbreiddur misskilningur er sá að stálmi sé ofurframleiðsla mjólkur sem barnið hafi ekki undan að sjúga. Þetta er eðlilegur misskilningur. Brjóstin eru á þessum tíma þrútin og hörð og ef þrýst er á þau þá lekur út mjólk; ergo þau hljóta að vera full af mjólk. Ekkert er fjær sanni.

Á stálmatímanum er mjög lítil mjólk í brjóstum en hins vegar er brjóstvefurinn afar bjúgaður. Stálmi byggist á sogi barnsins. Ef barn sýgur lítið fyrstu 2 dagana getur stálmi orðið slæmur en ef það sýgur vel og er alfarið hjá móður sinni finnur hún lítið fyrir stálma.

Allt er þegar þrennt er. Sú trú er því miður of algeng að eðlilegt sé að geirvörtur séu sárar á fyrstu dögum eða jafnvel vikum brjóstagjafar. Það fari aðallega eftir húðgerð konunnar, háralit hennar, stærð vörtu eða lögun, hversu fast barnið sýgur sem og heppni eða óheppni.

Sárar vörtur eru merki um að eitthvað hafi farið úrskeiðis í upphafi brjóstagjafarinnar. Oftast hefur vantað upp á rétta tækni við að láta barnið grípa um vörtuna eða að stelling barnsins við brjóstið eða stuðningur við það hefur verið rangur. Snuðnotkun er önnur algeng ástæða fyrir sárum vörtum.

Það getur verið eðlilegt að geirvörtur séu aumar fyrstu daga brjóstagjafar en þær eiga ekki að verða sárar. Það hefur ekkert með húðgerð, háralit eða aðra áðurnefnda þætti að gera.

Enn eru, því miður, of margir sem halda að brjóstamjólkurframleiðsla geti minnkað verulega eða stöðvast algjörlega af óþekktum orsökum eða fyrir óheppni. Því er jafnvel trúað að þetta sé frá brjóstunum komið. Þau hætti framleiðslu af eigin hvötum.

Þetta er mistúlkun. Mjólkurframleiðsla minnkar ekki eða hættir nema barnið minnki eða hætti að sjúga. Framleiðslan byggist alfarið á hve mikið barnið tekur. En margir rugla saman mjólkurframleiðslu og mjólkurflæði. Tilfinningar kvenna og ytri aðstæður geta haft áhrif á mjólkurflæði eða losun. Kona sem er t.d. í mikilli spennu nær ekki að koma mjólkurflæði af stað og hún fer að trúa því að engin mjólk sé til staðar. Framleiðslugetan er hins vegar í 100% lagi. Það vantar bara slökun.

Þjóðtrúin um að ,,tæma" brjóst er mjög gömul og ótrúlega lífseig. Hún hefur átt mikinn þátt í að trufla og jafnvel skemma brjóstagjöf margra kvenna. Því miður.

Konubrjóst eru ekki ílát sem ,,fyllast" eða ,,tæmast". Hvert brjóst er ,,framleiðslueining" sem framleiðir nær eingöngu á meðan barnið sýgur.

Að lokum langar mig að nefna þá ,,villutrú" að eftir ákveðinn tíma brjóstagjafar, sumir segja 6 mánuði aðrir 9 mánuði eða ár, þá verði móðurmjólkin einskisverð. Hún sé bara eitthvert þunnt gutl sem sé afar næringarrýrt eða næringarlaust með öllu. Barnið sé meira og minna að leika sér og móðirin of eftirlátssöm.

Í síðasta sinn. Ekkert er fjær sanni. Næringarsamsetning mjólkurinnar er ekki sú sama og þegar barnið var yngra. Það er búið að aðlaga næringarsamsetninguna þannig að hún hæfi barni á þessum ákveðna aldri fullkomlega. Þannig að áfram er brjóstamjólkin hin besta næring sem hugsast getur fyrir barnið og móðirin er að gera það besta sem hún getur fyrir barnið hversu gamalt sem það er.

Höfundur er brjóstagjafaráðgjafi.