22. október 2006 | Innlent - greinar | 2107 orð | 5 myndir

Kópasker

"Vanir því að bíta á jaxlinn"

Texti Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjölfestan í atvinnulífinu á Kópaskeri er Fjallalamb hf. sem hefur verið starfandi frá árinu 1990. Sérsvið fyrirtækisins er meðhöndlun á lambakjöti, allt frá slátrun til fullvinnslu afurða.
Kjölfestan í atvinnulífinu á Kópaskeri er Fjallalamb hf. sem hefur verið starfandi frá árinu 1990. Sérsvið fyrirtækisins er meðhöndlun á lambakjöti, allt frá slátrun til fullvinnslu afurða. Hjá Fjallalambi starfa að meðaltali um 20 starfsmenn allt árið en í sláturtíð sem stendur yfir frá byrjun september til októberloka eykst fjöldinn í um 50-60 manns. Fjallalamb er í eigu 130 hluthafa, sem flestir tengjast starfsemi fyrirtækisins á einn eða annan máta. Helstu eigendur eru bændur í Norður-Þingeyjarsýslu, samtök þeirra og sveitarfélög í Norður-Þingeyjarsýslu, ennfremur starfsmenn og aðrir einstaklingar.

Daníel Árnason framkvæmdastjóri Fjallalambs segir rekstur fyrirtækisins ganga vel. "Það er gott árferði í þessari grein og vaxandi áhugi á afurðum sem við erum að vinna, ekki síst gamla góða matnum sem tengist sögu þessarar þjóðar. Rekstur Fjallalambs hefur gengið vel um árabil og vonandi getum við prjónað við það sóknarfærum."

Fólk af sjö þjóðernum starfar hjá Fjallalambi í sláturtíðinni. Daníel segir þá stefnu hafa verið tekna í fyrra að manna starfsemina á þeim álagspunkti með útlendingum. Skýringin er sú að ekki er lengur aðgangur að heimamönnum. "Hér áður var sláturtíðin að miklu leyti mönnuð með fólki úr nærliggjandi sveitum. Nú er ekki lengur hægt að sækja vinnuaflið inn á heimilin, börnin eru ýmist í skóla eða farin í burtu og þátttaka kvenna í atvinnulífinu hefur aukist til muna. Það er því ekki um annað að ræða."

Bændum má ekki fækka

Daníel kveðst ekki hafa rýnt svo mikið í samfélagið á Kópaskeri og nærsveitum. "Mitt hlutverk er að reka fyrirtækið og ég hef talið heillavænlegra að einbeita mér að því. Ég verð þó var við það gegnum okkar viðskiptamenn, bændur, að þeim má ekki fækka og býlin ekki smækka á svæðinu. Það myndi veikja samfélagið. Meðalaldurinn í þorpinu og sveitunum er orðinn nokkuð hár sem er áhyggjuefni."

Hann segir að það sé lífsstíll að vera sauðfjárbóndi. "Menn eru ekki í þessu til að tryggja sér góða afkomu. Margir ungir menn vilja eignast jörð en versti óvinur þeirra eru auðmenn sem eru að kaupa upp allar jarðir. Það er sem betur fer ekki mikið um það hér ennþá - en er að byrja."

Daníel er fæddur og uppalinn á Kópaskeri og tók við framkvæmdastjórastarfinu hjá Fjallalambi fyrir tveimur árum.

Daníel segir fleira fólk hafa verið á Kópaskeri á sínum uppvaxtarárum, ekki síst ungt fólk. "Það hefur eitthvað molnað úr samfélaginu. Samt sem áður stendur þorpið vel hvað varðar alla þjónustu. Hér er prýðileg verslun, læknir og sjúkraþjálfari, svo eitthvað sé nefnt. Það eina sem vantar eru betri vegir í grenndinni. Það er ekki malbikað alla leið."

Daníel veit til þess að ungt fólk af svæðinu sé í nokkrum stíl að ganga menntaveginn en er ekki sannfærður um að Öxfirðingar endurheimti það nema að litlum hluta. Skortur sé á atvinnutækifærum fyrir langskólagengið fólk.

Þróunin ekki ávísun á sókn

Daníel vonar að í sameiningu sveitarfélaganna séu fólgin sóknarfæri. "Ég sá enga framþróun í gamla sveitarfélaginu. Ég held að öll grunnþjónusta muni styrkjast með sameiningunni. Sveitarfélögin sem sameinuðust áttu öll í vök að verjast og tilgangurinn hlýtur að hafa verið að snúa bökum saman."

Að áliti Daníels mættu framtíðarhorfur vera bjartari á Kópaskeri. "Þróun undanfarinna ára er ekki ávísun á það að sókn sé í vændum. Hér verða allir að leggjast á eitt til að stemma stigu við þessari trénun. Það þarf að nýta allar auðlindir til atvinnusköpunar. Þar er orkuþátturinn mikilvægur. Það eru líka jákvæð teikn á lofti í landbúnaði, þrátt fyrir umræðu um niðurfellingu tolla sem ég veit ekki ennþá hvaða afleiðingar hefur í för með sér, t.d. fyrir þetta fyrirtæki. Við höfum a.m.k. ekki gengið í sæng með neinum ennþá - og það er ekki á dagskrá."

Daníel sér fleiri möguleika, m.a. í ferðaþjónustu. "Ágætur lífskúnstner sagði eitt sinn að hér byggi einkennilegt fólk sem vildi fá að vera í friði. Ef það eitt og sér er ekki ávísun á fjöldann allan af ferðamönnum veit ég ekki hvað," segir hann og hlær.

Vantar fleiri tíma í sólarhringinn

Guðmundur Magnússon er Reykvíkingur sem búsettur hefur verið á Kópaskeri undanfarin níu ár. Hann starfar hjá Fjallalambi en hefur undanfarin tvö og hálft ár rekið fyrirtækið Magnavík í hjáverkum en það sérhæfir sig í háhraðanettengingum.

"Það var þörfin sem hvatti mig til að fara út í þetta. Stóru fyrirtækin voru ekki að sinna þessu og ég lét því slag standa. Fram að þessu hef ég aðallega verið á Kópaskeri og í Öxarfirði en er núna að færa út kvíarnar með stuðningi frá Kelduneshreppi og er kominn af stað með að tengja alla leið niður í Þistilfjörð. Ég er búinn að fjárfesta í dýrum búnaði og þetta hefur gengið vonum framar. Núna vantar mig bara fleiri tíma í sólarhringinn," segir Guðmundur sem vonast til að gera nettengingar að aðalstarfi í framtíðinni.

Guðmundur er bjartsýnn á framtíð Kópaskers. "Ég væri ekki að fjárfesta fyrir á annan tug milljóna í fyrirtæki ef ég væri ekki bjartsýnn. Sjálfsagt er bjartsýnin mismikil en í það heila er gott hljóð í fólki. Við höfum misst svolítið af fólki á þessu ári, örugglega upp undir tuttugu manns, en eitthvað er að koma í staðinn. Ég held að þessi fækkun sé tilfallandi. Hér standa ekki mörg hús auð og ég sé ekki fram á frekari fækkun."

Guðmundur studdi sameiningu sveitarfélaganna. "Ég held að það hafi verið jákvætt skref. Menn geta örugglega lært af öðrum sveitarfélögum sem hafa sameinast á síðustu árum og ég er sannfærður um að þetta verður a.m.k. ekki verra en það var. Vonandi er þetta breyting til hins betra."

Guðmundur viðurkennir að það mætti vera meiri framför varðandi atvinnu. "Eftir að rækjuvinnslan okkar, Gefla, varð gjaldþrota fyrir þremur árum er Fjallalamb eini stóri vinnustaðurinn ásamt fiskeldisstöðinni Silfurstjörnunni hér í Öxarfirði. Það er vitaskuld ekki nægilega gott. Það vantar líka fleiri störf fyrir menntafólk. En það þýðir ekki að fást um það. Hér eru ýmsir möguleikar, t.d. fyrir einyrkja, og fólk er í auknum mæli farið að stunda fjarnám. Á Kópaskeri eru menn vanir því að bíta á jaxlinn."

Hvorki uppsveifla né ládeyða

Elísabet Gunnarsdóttir frá Daðastöðum útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2003 og hefur nú snúið aftur á heimaslóðir. "Þetta var einfaldlega orðið tímabært. Mig langaði að koma heim enda búin að vera lengi fjarri fjölskyldu og heimahögum. Í fyrstu starfaði ég sem landvörður í Þjóðgarðinum við Jökulsárgljúfur og kunni því starfi afar vel. Það er ekki hlaupið að því að fá starf í smáþorpi eins og Kópaskeri að námi loknu þar sem maður fær tækifæri til að virkja menntun sína. Ég var aftur á móti svo heppin að í kjölfarið á landvarðarstarfinu bauðst mér staða skrifstofustjóra hjá Fjallalambi hf. Það sem átti í fyrstu aðeins að verða nokkurra mánaða heimsókn er nú orðið að þremur árum. Þrátt fyrir ánægjuleg þrjú ár tók ég þá ákvörðun í vor að flytja og takast á við ný verkefni. Ég var í rauninni flutt og búin að pakka þegar mér bauðst staða dreifbýlisfulltrúa nýsameinaðs sveitarfélags. Ég tek við því starfi um mánaðamótin svo það bendir allt til þess að ég verði eitthvað áfram hér á Skerinu."

Að áliti Elísabetar er almennt gott hljóð í fólki á Kópaskeri. "Það er kannski engin sérstök uppsveifla en engin ládeyða heldur. Atvinnuástandið er nokkuð stöðugt. Fjallalamb gengur vel og sömuleiðis hefur Silfurstjarnan tryggt fólki á svæðinu atvinnu. Það væri auðvitað gaman að geta boðið upp á fleiri atvinnutækifæri. Það vill loða við lítil samfélög að það er lítil fjölbreytni í atvinnuframboði. Þau bjóða ekki upp á mörg störf fyrir fólk með sérhæfða menntun. Fæstir hafa efni á að fjárfesta í námi til að fara að vinna í sláturhúsi til frambúðar. Ekki af því að það sé eitthvað til að skammast sín fyrir, síður en svo, það er einfaldlega reikningsdæmi sem gengur illa upp."

Maður í manns stað

Það er meðal annars þess vegna sem það reynist mörgum brottfluttum íbúum erfitt að koma aftur. "Það þarf að kanna möguleikana á því að gera byggðarlagið aðlaðandi bæði með því að skapa ný tækifæri en ekki síður með því að virkja það sem þegar er fyrir hendi. Ég vil þó benda á að það er nú þegar margt jákvætt í gangi."

Elísabet segir sitthvað hafa breyst á Kópaskeri frá því hún var barn. "Fyrirtæki hafa horfið af sjónarsviðinu og sömuleiðis fólk. Þetta er auðvitað alltaf blóðtaka. Tíðarandinn hefur auðvitað breyst töluvert. Tíminn líður og því fylgja breytingar, hér sem annars staðar. Maður hefur komið í manns stað og mér finnst íbúarnir hafa verið duglegir að aðlagast og koma auga á ný tækifæri. Hér skiptir hvert framtak máli, og má þar nefna verslunina okkar Bakka, Gumma í Magnavík og ferðaþjónustu á svæðinu, svo einhver dæmi séu nefnd. Það er ýmislegt hægt ef rétta hugarfarið er fyrir hendi."

Sameining sveitarfélaga er nýlega um garð gengin en Elísabet segir að hún finni ekki mikla breytingu ennþá. "Hversdagurinn er sá sami hjá flestum og fólk lifir sínu hefðbundna lífi. Ég held að viðhorf til sameiningarinnar sé almennt jákvætt en fólk hefur eflaust ólíkar væntingar eftir því hvar er komið niður. Ég hef góða tilfinningu gagnvart sameiningunni og bind vonir við að hún styrki stoðir byggðarinnar."

Allt nema Ora fiskibollur

Einar Garðar Hjaltason er Vestfirðingur sem búið hefur á Kópaskeri í um tvö ár. Hann stýrir fiskmarkaðinum og aðgerðarþjónustunni Öxarnúpi þar sem rækjuverksmiðjan Gefla var áður til húsa. Hjá honum starfa á bilinu fimm til tíu manns, eftir verkefnum.

Einar Garðar segir starfsemina ganga vel. "Það er meira en tvöföldun í lönduðum afla milli ára. Við erum að fá lífríki sjávar eins og það leggur sig, allt nema Ora fiskibollur. Það er eins gott að þessi fiskabók kom út fyrir skemmstu, hún hjálpar okkur að bera kennsl á tegundirnar," segir Einar Garðar og glottir. "Ég hafði ekki hugmynd um að hverju ég gekk hérna en þetta hefur gengið ljómandi vel. Og við ætlum að gefa í á næsta ári."

Það eru eingöngu smærri bátar sem landa á Kópaskeri enda hafnarskilyrði með þeim hætti. "Þetta eru bátar frá Akureyri, Húsavík, Raufarhöfn og víðar, auk 3-4 báta héðan. Svo er að koma nýr bátur í plássið sem útgerðarfélagið Axarskaft mun gera út en það er dótturfélag Öxarnúps."

Einar Garðar segir skólabörn dugleg að leggja honum lið yfir sumartímann. "Fyrst vissu þau varla hvað það var að slægja fisk en nú eru allir með þetta á hreinu og vinna hér baki brotnu. Það var algjör vertíðarstemmning í sumar."

En rækjumiðin eru horfin. "Hér hefur varla fundist rækja í mörg ár og ég sé ekki að það verði rækjuvinnsla í framtíðinni sem er synd þegar maður horfir á þessi fullkomnu tæki sem safna ryki hér í húsinu."

Vin í eyðimörkinni

Einar Garðar segir gott að vera á Kópaskeri. "Fyrir dreifbýlistúttu eins og mig er þetta eins og að koma heim. Á Kópaskeri eru kaffihúsin jafnmörg og húsin í þorpinu. Þetta svæði er algjör vin í eyðimörkinni. Veðrið er hvergi betra á landinu. Það vantar bara fjöllin."

Einar Garðar ber líka lof á fólkið. "Hér býr yndislegt fólk. Harðduglegt sveitafólk sem ann staðnum sínum og vill öllum vel. Það er tilbúið að leggja mikið á sig. Opinberir starfsmenn eru heldur ekki fleiri en nauðsynlegt er, bara læknirinn og presturinn. Annar til að taka á móti þér og hinn til að jarða þig. Meira þarf ekki," segir hann og bætir við: "Landsbyggðafólkið sparar helling með því að hafa fáa opinbera starfsmenn. Vinur minn Árni Mathiesen hlýtur að gefa okkur veglegan skattaafslátt að ári. Flestir opinberir starfsmenn eru fyrir sunnan."

Enda þótt fiskgengdin sé að aukast verður sauðféð áfram burðarásinn í Öxarfirðinum, það er Einari Garðari ljóst. "Rollan mun áfram ráða ríkjum, eins og hún er nú hallærisleg blessunin. Ég er alltaf að stríða mönnum á þessu og þeir eru voðalega viðkvæmir fyrir því," segir hann og hlær. "En að öllu gríni slepptu færðu ekki betri afurðir en hjá Fjallalambi. Sú framleiðsla er í hæsta gæðaflokki."

Í hnotskurn
» Í Öxarfjarðarhreppi er nær eingöngu stundaður sauðfjárbúskapur. Stærsta fyrirtækið á Kópaskeri er Fjallalamb hf. sem er sláturhús og kjötvinnsla.
» Hrossarækt hefur verið stunduð um árabil með allgóðum árangri, fjárhundarækt og þjálfun um nokkurt skeið.
» Fiskeldi í Öxarfirði er nú í blóma eftir margra ára tilraunir. Silfurstjarnan hf. var stofnuð 1988 og er ein af stærstu strandeldisstöðvum landsins.
» Rækjuvinnsla var um árabil mikil á Kópaskeri en seinustu ár hefur rækjustofninn í Öxarfirði verið það lítill að Hafrannsóknastofnun hefur ekki lagt til neinar veiðar. Sumarið 2003 var rækjuverksmiðjunni á Kópaskeri, Geflu hf., lokað.
» Fiskveiðar og útgerð var allnokkur á árum áður og var stærsta skipið Árni á Bakka, 250 tonna togskip sem gert var út frá Kópaskeri um skeið. Nú eru gerðar út þar örfáar trillur. Í janúar 2005 tók til starfa fiskmóttaka Öxarnúps ehf. í húsnæði rækjuverksmiðjunnar.
» Á Kópaskeri búa 140 manns.

orri@mbl.is | rax@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.