Erindisbréf Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra til starfshóps, sem efla skyldi öryggisþjónustu lögreglunnar og aðra varnarstarfsemi gegn njósnum og hryðjuverkum 1986-1987.
Erindisbréf Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra til starfshóps, sem efla skyldi öryggisþjónustu lögreglunnar og aðra varnarstarfsemi gegn njósnum og hryðjuverkum 1986-1987.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þór Whitehead Frá því að ég birti grein í tímaritinu Þjóðmál, þar sem sagt var frá öryggisþjónustu í landinu 1939-1991, virðist mér sem umræða um málið hafi því miður farið út á villigötur. Í útvarpsþættinum Speglinum 22. sept. sl. komst Guðni Th.
Eftir Þór Whitehead

Frá því að ég birti grein í tímaritinu Þjóðmál, þar sem sagt var frá öryggisþjónustu í landinu 1939-1991, virðist mér sem umræða um málið hafi því miður farið út á villigötur. Í útvarpsþættinum Speglinum 22. sept. sl. komst Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur svo að orði:

"Við getum til dæmis velt því fyrir okkur hvað gerist á valdaskeiði vinstristjórna, fyrst þá 1956 til '58 ríkisstjórnar Hermanns Jónassonar og svo 1971 til '74, þegar Ólafur Jóhannesson er forsætisráðherra. Hvað þá? Láta þessir aðilar, sem sjá um leyniþjónustu á Íslandi, sína yfirmenn dómsmálaráðherra og forsætisráðherra líka kannski vita af tilvist þessarar leyniþjónustu og hvernig hún starfi...eða ákveða Sigurjón Sigurðsson [lögreglustjóri] og Árni Sigurjónsson [starfsmaður og síðar forstöðumaður útlendingaeftirlitsins, sem einkum annaðist öryggisþjónustuna] og starfsmenn að það sé fyrir bestu að láta þessa tilteknu valdhafa ekki vita af þessari starfsemi?"

Í framhaldi af álíka spurningum í sjónvarpsstöðinni NFS var Guðni Th. Jóhannesson spurður að því hvort hér hefði þá verið um að ræða ,,hægri leyniþjónustu"? Þessu svaraði Guðni ekki beint en endurtók spurningar sínar og af því mátti draga þá ályktun að svo væri. Í fréttum NFS var málið þá snarlega afgreitt með heitinu: ,,Leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins".

Þannig varð þessi flokksleyniþjónusta til úr endurteknum en ósvöruðum spurningum og hefur lifað góðu lífi í fjölmiðlum upp frá því. En leitum nú svara við spurningunum og athugum hvers við verðum vísari um málið.

Hvað vissi Hermann?

Guðni Th. Jóhannesson spurði fyrst hvort Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, hefði verið látinn vita um tilvist ,,leyniþjónustu" á Íslandi þegar hann gerðist forsætis- og dómsmálaráðherra í vinstristjórn 1956. Á móti verður að spyrja: Hvernig gat Hermanni dulist tilvist öryggisþjónustu í landinu þar sem hann hafði sjálfur stofnað til hennar í embætti dómsmálaráðherra 1939-1942 og getað fylgst með starfsemi hennar frá fyrstu hendi fram til 1947, en þá lét trúnaðarmaður hans, Agnar Kofoed-Hansen, af störfum lögreglustjóra. Hermann hafði raunar líka haft alla forgöngu um að búa lögregluna skotvopnum með það að yfirlýstu markmiði að hún gæti varist kommúnistum sem rökstuddur grunur lék á að hefðu safnað hér að sér skotvopnum fyrir stríð. Allt frá stríðslokum hafði Hermann síðan beitt sér fyrir því að Íslendingar kæmu sér upp einhvers konar vopnuðu varðliði eða heimavarnarliði sem gæti tekið við vörnum landsins úr höndum Bandaríkjamanna og tryggt jafnframt innra öryggi þess gagnvart kommúnistum. Að þessu stefndi Hermann í vinstristjórn 1956 og ekki er vitað til að hann hafi í grundvallaratriðum breytt afstöðu sinni til kommúnista fremur en Ólafur Thors sem myndaði með þeim nýsköpunarstjórn 1944.

En er þá hugsanlegt að Hermann Jónasson hafi ekki vitað að sjálfstæðismaðurinn Bjarni Benediktsson, sem var dómsmálaráðherra 1947-1956, hafi eflt öryggisþjónustuna? Hermann hafði látið Agnar Kofoed-Hansen lögreglustjóra beina starfsemi útlendingaeftirlitsins að nokkru að öryggiseftirliti og fengið Agnari sérstaka fjárveitingu til að ráða sér leynierindreka svo að hann gæti fylgst með mönnum sem hér gengju erinda Þýskalands Hitlers eða Sovétríkjanna. Bjarni Benediktsson hafði síðan ráðið Árna Sigurjónsson til að sinna öryggismálum jafnframt störfum við útlendingaeftirlitið 1948 en þá sat að völdum ríkisstjórn undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar úr Alþýðuflokki, sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkurinn áttu einnig aðild að. Tveimur árum síðar var Pétur Kristinsson lögreglumaður settur til álíka starfa hjá embætti lögreglustjóra í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti framsóknarmannsins Steingríms J. Steinþórssonar. Meðal ráðherra í þeirri stjórn var einmitt Hermann Jónasson sem fór með landbúnaðarmál.

Þessar tvær ofannefndu ríkisstjórnir 1947-1953 áttu sér það sameiginlegt að sitja að völdum á tímum megnrar stríðshættu í Evrópu þegar öryggismál landsins brunnu á ráðherrum svo vikum og mánuðum skipti. Allir litu þeir svipuðum augum á þær hættur sem steðja virtust að landinu út á við sem inn á við. Full samstaða náðist líka með ráðherrum um að bregðast við þessum hættum með inngöngu í Atlantshafsbandalagið 1949 og varnarsamningi við Bandaríkin 1951. Í viðræðum við Bandaríkjamenn vegna inngöngu í bandalagið lýsti Bjarni Benediktsson því hins vegar sérstaklega yfir í áheyrn samráðherra úr Alþýðuflokki og Framsóknarflokki að íslensk stjórnvöld ætluðu sér sjálf að taka á þeirri hættu sem stafað gæti af kommúnistum innanlands og fylgispekt þeirra við sovétstjórnina.

Er líklegt að Bjarni Benediktsson, sem ábyrgð bar á innra öryggi landsins, hefði viljað eða getað dulið aðra ráðherra því að hann hefði nú tvo menn í þjónustu lögreglunnar til bregðast við hættunni sem ríkisstjórnum kom saman um að stafaði af hundruðum ákafra kommúnista og starfsemi sovétsendiráðsins á Íslandi með stríð yfirvofandi? Ótal heimildir sýna að Bjarni lagði sig allan fram um samvinnu og samráð við ráðherra og þingmenn úr lýðræðisflokkunum þremur sem svo nefndu sig. Hermann Jónasson hafði eins og áður segir markað þá braut sem hann fetaði við takmarkaða eflingu öryggisþjónustunnar. Á þessu sviði höfðu Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn viljað ganga mun harðar fram á stríðsárunum 1939-1941 en Sjálfstæðisflokkurinn, meina kommúnistum að gegna embættum fyrir íslenska ríkið og banna eða takmarka flokksstarfsemi þeirra. Stefán Jóhann Stefánsson forsætisráðherra sagði bandarískum sendifulltrúa í Reykjavík 1948 að hann hefði þungar áhyggjur af því hvernig ráðherrar kommúnista í nýsköpunarstjórninni hefðu hyglað sínum mönnum við ráðningar í störf hjá ríkinu og hann vildi koma í veg fyrir að þeir gætu grafið undan öryggi þess.

Niðurstaðan er sú að ekki verði komið auga á neina frambærilega ástæðu til þess að Bjarni hefði átt að leyna samstarfsflokka sína því að hann væri að efla af veikum burðum innra öryggi landsins. Stofnun öryggisþjónustu hjá lögreglunni 1939 var á ábyrgð lýðræðisflokkanna þriggja sem stóðu að Þjóðstjórn Hermanns Jónassonar, rétt eins og efling hennar og starfsemi næstu hálfa öld a.m.k. verður að teljast á ábyrgð þessara sömu flokka sem allir fengu dómsmálaráðuneytið í sinn hlut á þessu tímabili og fylgdu í grundvallaratriðum sömu stefnu í utanríkis- og öryggismálum.

Eina skjalið, sem fram hefur komið fyrir tilviljun um öryggisþjónustu hjá lögreglustjóraembættinu, ber þess líka merki að starfsemi hennar náði inn á svið ýmissa ráðuneyta 1951. Árás sovéthersins á landið var talin líklegri en nokkru sinni fyrr vegna Kóreustríðsins og lögreglan hugðist m.a. rannsaka átta ríkisstofnanir með það fyrir augum að ganga úr skugga um hvort þar væri að finna sovétvini líklega til að liðsinna árásarher. Þessar stofnanir störfuðu á verksviði ráðherra úr báðum stjórnarflokkunum. Er sennilegt að slík rannsókn hafi farið fram án vilja eða vitundar viðkomandi ráðherra? Lögreglan virðist að vonum hafa lagt mest kapp á að rannsaka starfslið flugvallanna í Reykjavík og Keflavík sem þá stóðu opnir og óvarðir. Á þessu sviði hafði ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar þegar gripið til óvenjulegrar varúðarráðstöfunar 1947. Eysteinn Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sem fór með flugmál í ríkisstjórninni, hafði látið flytja stjórn vallanna 1947 úr höndum Erlings Ellingsens flugmálastjóra, sem var einn eindregnasti sovétvinur landsins, og skipað Agnar Kofoed-Hansen lögreglustjóra í nýtt embætti flugvallastjóra. Sú könnun, sem lögreglan var að undirbúa á starfsliði flugvallanna 1951, hlýtur að hafa verið gerð undir handarjaðri Agnars, enda hafði hann beinlínis verið skipaður flugvallastjóri til að efla öryggi þeirra á hættutíma. Æðsti maður á því sviði, sem öryggisþjónustan lét sig mestu varða í upphafi, Agnar flugvallastjóri, átti því embætti sitt að þakka Framsóknarflokknum og var sérstakur trúnaðarmaður Hermanns Jónassonar allt frá því að hann hafði tekið að sér að efla lögregluna á hans vegum 1939.

Hvað vissi Ólafur?

Í viðtali við NFS taldi Guðni Th. Jóhannesson sig hafa fengið upplýsingar um að Ólafi Jóhannessyni, forsætis- og dómsmálaráðherra í vinstristjórn 1971-1974 ,,hafi ekki verið skýrt frá tilvist öryggisþjónustunnar, þó að ekki sé loku fyrir það skotið að honum hafi hugsanlega verið sagt að einhvers konar öryggiseftirlit væri í gangi", sérstaklega þegar Nixon og Pompidou hittust á fundi í Reykjavík 1973. Af þessum ummælum og fyrrgreindum spurningum Guðna verður að álykta að hann geri ráð fyrir því að embættismenn hafi dulið Ólaf starfseminnar án þess þó að nokkur gögn hafi enn verið færð fram því til sönnunar. Sá embættismaður sem hér kæmi helst til greina er Baldur Möller ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins. Hann liggur nú einnig undir óbeinum ásökunum um að hafa leynt tvo aðra dómsmálaráðherra úr Framsóknarflokknum, Steingrím Hermannsson 1978-1979 og Jón Helgason 1983-1985, starfsemi öryggisþjónustunnar. Baldur Möller var á sinni tíð almennt talinn með samviskusömustu og grandvörustu embættismönnum íslenska ríkisins og ekki er vitað til að hann hafi nokkru sinni verið sakaður um að misbeita embætti sínu í þágu Sjálfstæðisflokksins þótt hann teldist sjálfstæðismaður í skoðunum. Alkunna er að hann átti ætíð góð skipti við ráðherra, einu gegndi hvort þeir voru úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki eða Alþýðuflokki. Samstarf Baldurs við Ólaf Jóhannesson var reyndar sérstaklega náið. Hvað hefði átt að reka þennan gætna embættismann til að leyna fyrir Ólafi þeim þætti í starfi lögreglunnar, sem hann vissi að flokkur ráðherrans, Framsóknarflokkurinn, hafði átt frumkvæði að og tengst með ýmsum hætti um árabil, er þar kom að Ólafur myndaði vinstri stjórn 1971? Ólafur var úr þeim armi Framsóknarflokksins, sem hafði ætíð stutt vestrænt varnarsamstarf og deilur hans við vinstrimenn í flokknum, ekki síst um utanríkismál, leiddu að lokum til klofnings í flokknum.

Hvað vissi Steingrímur?

Guðni Th. Jóhannesson hafði ekki fyrr fullyrt að Ólafur Jóhannesson hefði ekki vitað um ,,tilvist öryggisþjónustunnar" en Steingrímur Hermannsson sagði í viðtali í NFS 25. september sl. að Ólafur hlyti að hafa vitað um þjónustuna, en sjálfur hefði hann enga vitneskju haft um hana sem dómsmálaráðherra 1978-1979 og forsætisráðherra 1983-1987 og 1988-1991. Jón Helgason dómsmálaráðherra úr Framsóknarflokki 1983-1987 kannaðist heldur ekkert við að hér hefði starfað ,,öryggis-/leyniþjónusta", þegar útvarpið innti hann eftir því. Í Blaðinu, 26. sept. sl. endurtók Steingrímur síðan að honum sýndist ,,eins og um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins hefði verið að ræða". Hann áfelldist að vísu ekki Bjarna Benediktsson fyrir að hafa gripið til aðgerða á óróatímum í byrjun kalda stríðsins en síðar virtist þetta hafa ,,þróast yfir í að vera eins konar prívat njósnastarfsemi á vegum Sjálfstæðisflokksins".

Þegar litið er á skriflegar heimildir er ljóst að Steingrímur komst ekki hjá því að vita um starfsemi öryggisþjónustunnar sem forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 1986-1987. Á þessum tíma voru innri öryggismál ríkisins í brennidepli vegna mikillar fjölgunar í starfsliði sovétsendiráðsins í Reykjavík, húsakaupa þess og ótrúlegra umsvifa. Sendiráðsmenn voru um 37 talsins, en í skyldu- og fylgiliði þeirra um 46 manns, þannig að um 80 sovétþegnar voru hér á vegum sendiráðsins, sem var hið langfjölmennasta í Reykjavík. Sendiráðið réð yfir rösklega 8.000 rúmmetra fasteignum í höfuðstaðnum, sérstaklega í gamla vesturbænum. Í bílaflota þess voru tugir bifreiða, sem sumar báru ekki merkingar sendiráða, en sáust iðulega á ferð utanbæjar, enda engar hömlur á ferðum sendiráðsmanna hér. Þeir höfðu m.a. notað ferðafrelsi sitt til að kasta gömlum hlerunartækjum í Kleifarvatn 1973, en þessi tæki hafði leyniþjónusta sovéthersins einkum notað til að hlera fjarskipti varnarliðsins, áður en hún endurnýjaði tækjabúnað sinn. Þá lék rökstuddur grunur á því, eins og nú hefur verið staðfest að sovéska leynilögreglan KGB hefði komið hingað miklum fjármunum til flokksstarfsemi sósíalista, væri með íslenska og erlenda hjálparmenn á sínum snærum og héldi uppi njósnum og undirróðri í landinu, eins og ráða mátti af sífelldum afhjúpunum á erindrekum þessar stofnunar erlendis, m.a. á Norðurlöndum.

Allt hafði þetta leitt til þess að Matthías Mathiesen utanríkisráðherra úr Sjálfstæðisflokknum beitti sér fyrir því sumarið 1986 að ríkisstjórnin setti á fót starfshóp, sem skipaður var ráðuneytisstjórum dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu, lögreglustjóranum í Reykjavík og fulltrúa forsætisráðuneytis. Verkefni hópsins var að ,,auka samstarf þeirra ráðuneyta og stofnana er starfa með einhverjum hætti að öryggismálum ríkisins í sambandi við meðferð þeirra verkefna, sem þeim eru falin að lögum," eins og segir í erindisbréfi til hópsins sem forsætisráðuneytið hefur létt af leynd. Ætlast var til starfshópurinn gerði ,,tillögur um úrræði er stuðli að markvissu starfi til að vinna gegn og uppræta ólögmæta starfsemi er skaðað gæti íslenska ríkið og öryggi þess, svo sem ólöglega upplýsingastarfsemi," en einnig að stuðla að viðbúnaði gegn ,,og viðbrögð gagnvart aðgerðum hryðjuverkamanna".

Nú hafði sú breyting orðið í yfirstjórn lögreglu og öryggismála að Baldur Möller, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis, og Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri höfðu látið af embætti fyrir aldurs sakir 1984 og 1985 en dómsmálaráðherrann, Jón Helgason úr Framsóknarflokki, hafði skipað í þeirra stað Böðvar Bragason lögreglustjóra og Þorstein Geirsson ráðuneytisstjóra. Þeir tóku báðir sæti í ofangreindum starfshópi, en jafnframt skipaði Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra Baldur Möller, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, fulltrúa sinn í starfshópnum, sem starfaði á vegum forsætisráðuneytisins. Þessar mannabreytingar snerta þær aðdróttanir sem menn hafa haft frammi beint og óbeint í garð þeirra Baldurs Möllers, Sigurjóns Sigurðssonar og Árna Sigurjónssonar. Þessir menn eiga að hafa misnotað aðstöðu sína og brotið embættisskyldur til að halda uppi ,,njósnum" fyrir Sjálfstæðisflokkinn og dulið það fyrir ráðherrum annarra flokka, vegna stjórnmálaskoðana sinna um fjörutíu ára skeið 1948-1985. Frá 1985-1997 eiga hins vegar menn, sem nutu trúnaðar Framsóknarflokksins til að vera skipaðir í embætti af ráðherra flokksins, að hafa dulið hann sjálfan, eftirmann hans, Jón Sigurðsson úr Alþýðuflokknum 1987-1988, Halldór Ásgrímsson úr Framsóknarflokki 1988-1989 og Steingrím Hermannsson forsætisráðherra ,,tilvist öryggisþjónustunnar." Stjórnmálaskoðanir þeirra Böðvars Bragasonar og Þorsteins Geirssonar voru og eru enn þeirra einkamál, eins og annarra embættismanna. Hvorugur þeirra hefur eftir því sem ég veit best nokkru sinni verið sakaður um að misnota embætti sín í pólitískum tilgangi fremur en Baldur Möller. En hafi ,,leyniþjónustan", eins og menn kjósa að kalla öryggisþjónustu lögreglunnar, starfað á vegum Sjálfstæðisflokksins 1948-1985 vegna þess að yfirstjórnendur hennar voru skipaðir í embætti af þeim flokki, mætti með sömu ,,rökum" segja að hún hafi starfað á vegum Framsóknarflokksins 1939-1947, og 1985-1997. Hvort tveggja er þó jafnfráleitt.

Samsærið afhjúpast?

Áður en ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ákvað að skipa starfshóp til að efla innra öryggi landsins í júlí 1986 fór fram mikil umræða utan þings sem innan um það mál og hinn furðulega vöxt, sem hlaupið hafði í sovétsendiráðið í Reykjavík með sínum tveimur leyniþjónustudeildum. Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg efndu t.d. til ráðstefnu um þetta efni í mars 1986 þar sem þingmennirnir Eiður Guðnason úr Alþýðuflokknum og Haraldur Ólafsson úr Framsóknarflokki sátu við pallborð og lýstu báðir yfir ,,stuðningi við að um framkvæmd, skipulag og yfirstjórn þessara mála yrði rætt með það í huga að úrræði fyndust til að tryggja viðunandi gæslu þessara öryggishagsmuna.

Á meðal þátttakenda í ráðstefnunni var Ólafur Walter Stefánsson, skrifstofustjóri dómsmálaráðuneytisins, og lýsti hann því yfir við pallborð ,,að ýmsum þáttum innri öryggismála væri þegar sinnt af réttum yfirvöldum", eins og sagði í frétt Morgunblaðsins um ráðstefnuna, 21. mars 1986.

Þórður Ægir Óskarsson, stjórnmálafræðingur og síðar forystumaður í samtökum ungra framsóknarmanna, sem vann að rannsóknum fyrir öryggismálanefnd ríkisstjórnarinnar, komst enn nær því að lýsa starfsemi öryggisþjónustunnar í fyrirlestri sínum: ,,Við höfum enga formlega öryggislögreglu...sem hefur skýrt og skorinort það hlutverk að gæta innra öryggis ríkisins. Það liggur því í skilgreiningu á hlutverki íslensku löggæslunnar að hún er eini aðilinn, sem nú hefur það hlutverk að gæta innra öryggis íslenska ríkisins, að svo miklu leyti sem slíkt öryggi er skilgreint...Í fyrsta lagi eru, ef svo má segja, okkar íslensku landamæraverðir, útlendingaeftirlitið, deild innan lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, sem vinnur sín störf í samvinnu við tollgæsluna ellegar lögregluyfirvöld á viðkomandi stað. Má segja að öll lögreglan sé í eðli sínu útlendingaeftirlit. Virk og öflug starfsemi útlendinga- og vegabréfaeftirlits er talin ein, ef ekki mikilvægasta forvörnin í baráttu við hryðjuverkaöfl...Ennfremur liggur fyrir að til hafa verið lengi einhverjar áætlanir um öryggisgæslu ráðamanna og lögreglustjóra hefur verið falið af forsætisráðherra að gera frekari tillögur um öryggisgæslu opinberra starfsmanna."

Ef taka ætti mark á aðdróttunum um tæplega 40 ára samsæri embættismanna um að leyna öryggisþjónustunni fyrir ráðherrum annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins, höfðu hér óvænt tíðindi gerst: Ungur stjórnmálafræðingur og skrifstofustjóri dómsmálaráðuneytisins (náinn samstarfsmaður og staðgengill Baldurs Möllers) höfðu nú skyndilega ljóstrað upp um þetta samsæri á ráðstefnu, sem sótt var af tugum áhrifamanna, þar á meðal þingmönnum úr Framsóknarflokki og Alþýðuflokki, svo og blaðamönnum. Í tímaritinu Viðhorf XII. (1986) voru síðan birt erindi Þórðar Ægis og annarra fyrirlesara á ráðstefnunni. Enginn maður virðist hafa kippt sér upp við þær upplýsingar, sem þar komu fram, því flestir þeirra sem ráðstefnuna sóttu höfðu sjálfsagt mismunandi glöggva hugmynd um að íslenska ríkið hlyti að sinna öryggismálum sínum með einhverjum hætti. Sjálft stofnunarheitið, útlendingaeftirlit, var vísbending um það. Ekkert samsæri reyndist afhjúpað á ráðstefnunni.

Efling öryggisþjónustunnar 1986-1987

Í tillögunni um starfshóp í öryggismálum, sem ríkisstjórnin samþykkti nokkru síðar, kom líka skýrt fram, eins og sjá má hér að ofan, að samræma ætti starfsemi sem þegar væri á hendi ráðuneyta. Ekkert gat því farið á milli mála hvorki hjá Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra né Jóni Helgasyni dómsmálaráðherra um að íslenska ríkið sinnti, svo sem öll önnur Evrópuríki, innra öryggi sínu. Það starf færi fram undir þeirra eigin forystu og embættismanna, sem dómsmálaráðherrann hafði skipað í embætti.

Nokkru síðar, í október 1986, efndu þeir Reagan og Gorbatsjov, til fundar síns í Höfða. Í tengslum við þennan fund var efnt til mestu öryggisráðstafana í sögu landsins til verndar þjóðarleiðtogunum í nánu samstarfi við öryggisyfirvöld í Bandaríkjunum, Sovétríkjunum og víðar. Ekki þarf að hafa mörg orð um það, hvernig Íslendingar hefðu getað tekið að sér að annast um undirbúning þessa sögufræga fundar, fremur en utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins 1987 og fundar Pompidous og Nixons 1973, ef ráðherrar Framsóknarflokksins hefðu ekki getað snúið sér til neins aðila í íslenska ríkiskerfinu um að annast öryggi hinna tignu gesta vegna þess að starfsemi lögreglunnar á þessu sviði fór einungis fram í dulheimum Sjálfstæðisflokksins. Í öryggisgæslu við allar þessar heimsóknir lék Árni Sigurjónsson, forstöðumaður útlendingaeftirlitins og öryggisþjónustunnar, aðahlutverkið með vitund og vilja ráðherra og annarra yfirboðara sinna og hélt uppi samstarfi við erlendar öryggisþjónustur, eins og raunar árið um kring, undir yfirstjórn lögreglustjórans í Reykjavík og ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytis - einu gilti hvaða ráðherra hafði skipað þá í embætti. Til að rækta þetta fjölþjóðlega samstarf sótti lögreglustjóri - Sigurjón Sigurðsson og síðan Böðvar Bragason frá 1985 fundi öryggismálastjóra Atlantshafsbandalagsins tvisvar á ári hverju með Árna Sigurjónssyni fram til 1995.

Áðurnefndum starfshópi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar um öryggismál 1986 var ætlað að skila skýrslu sex mánuðum eftir að hann var settur á laggirnar, þ.e. í febrúar 1987. Hinn 27. desember 1986 hafði Baldur Möller, sem stýrði þessu starfi fyrir hönd Steingríms, sett saman minnisblað. Það hugðist hann nota sem uppistöðu í ,,framhaldsskýrslu", sem átti að kynna forsætisráðherra starf hópsins munnlega að því er embættismenn úr dómsmálaráðuneyti telja. Þetta minnisblað sendi Baldur til Þorsteins Geirssonar eftirmanns síns í embætti ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytis til að fá ,,bendingar um breytingar, viðauka eða niðurfellingar". Þorsteinn, sem veitti mér aðgang að þessari skýrslu, minnist þess ekki að hafa gefið Baldri neinar slíkar ábendingar um breytingar á minnisblaðinu.

Í inngangi hnykkti Baldur á því viðfangsefni starfshópsins að efla samstarf ráðuneyta við að vinna gegn og uppræta njósna- og neðanjarðarstarfsemi og efla viðbúnað gegn hryðjuverkamönnum, en síðan sagði í minnisblaðinu:

,,Starfshópurinn lagði í upphafi drög fyrir öflun gagna frá tilteknum nágrannalöndum varðandi skipulag öryggismálefna. Jafnframt hefur verið könnuð staða þeirra aðgerða til úrbóta í öryggismálefnum æðstu stjórnar landsins, sem þegar voru hafnar áður en þessi starfshópur var myndaður. Má telja að þær aðgerðir [á vegum öryggisþjónustunnar hjá útlendingaeftirliti og embætti lögreglustjóra] séu á allgóðum vegi en starfshópurinn telur nauðsynlegt að fylgjast með þeim áfram. Einnig er nauðsynlegt að huga frekar að skipulagningu upplýsingastreymis ásamt úrvinnslu á skipulagsramma fyrir aðgerðir við hættuaðstæður. Nú er unnið að mjög kröftugri eftir tölvustýrðs upplýsingastreymis frá öryggismálastofnunum í öðrum löndum [til íslensku öryggisþjónustunnar] og telur starfshópurinn að þar verði um mjög mikilvæga framþróun að ræða - Athygli er vakin á því að dómsmálaráðherra [Jón Helgason] sat í október ráðherrafund Evrópuráðsríkja um varnir gegn hryðjuverkum og framhaldsfundur æðstu embættismanna verður í janúar nk.

Meðal þeirra viðfangsefna sem starfshópurinn telur nauðsyn á að kanna vel eru öryggisaðstæður ýmissa viðkvæmustu ríkisstofnana - og starfsemi utan þrengstu miðstjórnar ríkisins, svo sem fjarskiptastofnana, útvarps, orkustofnana og flugvalla.

Starfshópurinn telur æskilegt að mega skila framhaldsskýrslu nokkru eftir áramót, t.d. í febrúarlok 1987."

Hér átti ekki að fara leynt með það fyrir Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra að lögreglan sinnti öryggisþjónustu í landinu og unnið væri að því að styrkja hana með nánu samstarfi við öryggisþjónustur bandalagsríkja Íslendinga. Kanna átti aðgang manna að ýmsum lykilstofnunum og æðstu ráðamönnum til að treysta öryggi þeirra gegn hryðjuverkamönnum eða öðrum ofbeldismönnum, sem látið höfðu til sín taka víða um lönd, svo sem í Svíþjóð, þar sem Olof Palme forsætisráðherra hafði nýlega fallið fyrir morðingjahendi í miðborg Stokkhólms.

Með því að senda Þorsteini Geirssyni eftirmanni sínum þetta minnisblað til yfirlestrar hefði heldur betur komist upp um strákinn Tuma ef Baldur Möller hefði í samráði við þá Sigurjón Sigurðsson og Árna Sigurjónsson leynt öryggisþjónustu lögreglunnar fyrir Steingrími Hermannssyni í dómsmálaráðherratíð hans 1978-1979 og fyrir þáverandi dómsmálaráðherra Jóni Helgasyni 1983-1984. Til þess hefði Baldur raunar einnig þurft að hafa stuðning Þorsteins Geirssonar og Böðvars Bragasonar lögreglustjóra frá 1985, eins og áður segir. En Baldur hafði vissulega ekkert að fela fyrir Steingrími eða Jóni Helgasyni um þessi efni því að eins og kom fram í sjálfu erindisbréfinu frá forsætisráðherra var það ekki verkefni Baldurs og starfshópsins að setja upp einhverja nýja stofnun til að gæta innra öryggis ríkisins heldur að auka starfsemi þeirra aðila sem þegar fengust við þetta verkefni og stuðla að markvissara starfi þeirra gegn njósnum, undirróðri og hugsanlegum hryðjuverkum.

Rangar spurningar

En hér verður einnig að gæta að því hvernig fjölmiðlar spurðu þá Steingrím og Jón Helgason um þessi efni. Spurningar voru á þá leið hvort þeir hefðu vitað að hér starfaði ,,leyniþjónusta". Spurningum sem þessum gátu þeir Steingrímur og Jón auðvitað svarað neitandi vegna þess að öryggisþjónustan var aldrei eiginleg stofnun, hvorki opinber né leynileg, heldur viðfangsefni, sem lengst af var einkum sinnt af tveimur mönnum hjá tveimur greinum lögreglunnar (útlendingaeftirliti og lögreglustjóraembætti) með hjálp aðstoðarmanna um lengri eða skemmri tíma og einum föstum starfsmanni til viðbótar hjá útlendingaeftirliti frá lokum áttunda áratugarins. Báðir ábyrgðarmenn öryggisþjónustunnar höfðu auk þess ýmis önnur viðfangsefni á sinni könnu, (Árni Sigurjónsson hafði forstöðu fyrir útlendingaeftirlitinu jafnhliða þessum störfum) og þessir tveir menn sýnast aldrei hafa myndað formlega starfseiningu heldur unnið saman að viðfangsefnum sínum undir yfirstjórn lögreglustjóranna Sigurjóns Sigurðssonar og Böðvars Bragasonar. Í Þjóðmálagreininni skýrði ég verkaskiptingu þessara manna en kaus að nefna þá einu nafni, öryggisþjónustuna, með skírskotun til viðfangsefna þeirra og til auðkenningar.

Annað, sem olli ruglanda í blöðum og útvarpi, var að fjölmiðlamenn inntu þá Steingrím og Jón eftir starfsemi öryggisþjónustumanna sem lagðist niður allnokkrum árum áður en þeir tóku við embætti dómsmálaráðherra. Þar má nefna alls sex dæmi um símahleranir vegna ótta við skipulagðar árásir á Alþingi og erlenda gesti á nítján ára tímabili 1949-1968 og skráningu íslenskra sovétvina, en henni var í raun sjálfhætt í dómsmálaráðherratíð Ólafs Jóhannessonar 1976, þegar skrár voru brenndar. Ef þeir Steingrímur og Jón hefðu aftur á móti verið spurðir að því hvort íslenska ríkið hefði sinnt öryggisþjónustu á borð við þá sem lýst er í áðurnefndri skýrslu Baldurs Möllers hefði mátt vænta þess að svör þeirra hefðu orðið á annan veg. Í ráðherratíð þeirra héldu 2-3 menn uppi öryggisþjónustu á vegum lögreglunnar, reyndu að fylgjast ögn með umfangsmikilli starfsemi sendiráða austantjaldsríkjanna, vinna hér gegn njósnum sem tugir sendiráðsmanna höfðu að atvinnu og líta eftir öryggi einstakra ríkisstofnana og háttsettra erlendra gesta meðfram annarri vinnu. Þetta var þungamiðjan í starfsemi íslenskrar öryggisþjónustu á hálfrar aldar skeiði kalda stríðsins, þegar álfan rambaði hvað eftir annað á barmi styrjaldar, landið taldist eitt hið mikilvægasta í hernaði í veröldinni og hafði skipað sér í bandalag með öðrum lýðræðisríkjum sem unnu að lokum fullan sigur í átökunum við einræðisríkin og tryggðu hundruð milljónum manna frelsi og mannréttindi í okkar álfu. Á þessu tímabili var það ætíð undir einstökum dómsmálaráðherrum komið hversu náið þeir vildu vita um þessa starfsemi eins og aðra starfsemi sem fram fór í hinum ýmsu stofnunum á embættissviði þeirra. Engin efni eru hins vegar til þess að kenna þessa veikburða sjálfsvörn ríkisins við einn stjórnmálaflokk öðrum fremur og engar heimildir hafa verið dregnar fram því til sönnunar að öryggisþjónustumenn hafi beitt sér í þágu nokkurs stjórnmálaflokks.

Höfundur er sagnfræðingur.