27. október 2006 | Aðsent efni | 570 orð | 2 myndir

Reykjavík biskupssetur í 200 ár

Þórir Stephensen minnist 210 ára vígsluafmælis Dómkirkjunnar í Reykjavík og að 200 ár eru liðin frá því biskup Íslands settist að í Reykjavík

Aðalstræti 10 gekk lengi undir nafninu Biskupsstofan og þar bjó Geir Vídalín til dauðadags 20. september 1823.
Aðalstræti 10 gekk lengi undir nafninu Biskupsstofan og þar bjó Geir Vídalín til dauðadags 20. september 1823. — Morgunblaðið/Rax
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórir Stephensen minnist 210 ára vígsluafmælis Dómkirkjunnar í Reykjavík og að 200 ár eru liðin frá því biskup Íslands settist að í Reykjavík: "Nærvera biskups Íslands í þessum nýstofnaða höfuðstað hlaut að hafa jákvæð áhrif, bæði á sjálfsmynd staðarins og eins þá ímynd, sem hann hafði út á við."
DÓMKIRKJAN í Reykjavík á 210 ára vígsluafmæli 30. október nk. og verður þess minnst með hátíðarmessu og fleiru sunnudaginn 29. október. En um þessar mundir eru einnig liðin 200 ár frá því biskup Íslands settist að í kaupstaðnum Reykjavík. Þótt ástæðurnar fyrir flutningi herra Geirs Vídalín frá Lambastöðum á Seltjarnarnesi til Reykjavíkur væru ömurlegar, þá var þetta merkur atburður, sem vert er að minnast. Nærvera biskups Íslands í þessum nýstofnaða höfuðstað hlaut að hafa jákvæð áhrif, bæði á sjálfsmynd staðarins og eins þá ímynd, sem hann hafði út á við.

Árið 1770 var sett á stofn sk. Landsnefnd til að gera tillögur um úrbætur í málefnum Íslands. Meðal hugmynda hennar var stofnun fjögurra kaupstaða. Einn þeirra var Reykjavík, sem nefndin taldi, að gæti orðið höfuðstaður landsins. Þangað væri þá rétt að flytja bæði biskupsstólinn og skólann frá Skálholti. Bæinn mætti svo nefna Kristjánsvík í heiðursskyni og þakklætis við konunginn. Að því kom, að biskupsstóll og skóli voru fluttir til Reykjavíkur í kjölfar móðuharðindanna 1785. Næsta ár, 1786, varð Reykjavík höfuðstaður landsins, en fékk sem betur fer að halda sínu forna nafni.

Geir Vídalín sóknarprestur í Seltjarnarnesþingum, og þar með Reykjavíkur, var skipaður biskup, er Hannes Finnsson, síðasti Skálholtsbiskupinn, lést 1796, Geir var vígður biskupsvígslu heima á Hólum 1797 af herra Sigurði Stefánssyni. Er hann féll frá, var landið allt gert að einu biskupsdæmi 1801.

Geir biskup sat áfram á Lambastöðum. Hann var manna best að sér, greindur, orðheppinn, ritfær vel og hagmæltur. Hann þótti frjálslyndur í trúmálum og svo góðgerðasamur, að efnahagur var afar bágborinn. Sagt er, að hann hafi einhvern tíma sagt við kunningja sinn um eldamennskuna á Lambastöðum: "Á tveim stöðum slokknar aldrei eldur, - hjá mér og í helvíti." Árið 1804 leitaði biskup ásjár stjórnvalda um launahækkun og hjálp í erfiðri skuldastöðu. Svör komu vorið 1806 og voru á þá leið, að Ísleifur Einarsson á Brekku, dómari í Landsyfirréttinum, Rasmus Frydenberg bæjarfógeti í Reykjavík og Markús Magnússon stiftsprófastur í Görðum á Álftanesi voru skipaðir í nefnd til að gera úttekt á högum biskups. Kom þá í ljós, að hann var gjaldþrota. Þar með voru Lambastaðir teknir af honum, hinu stóra heimili, sem oft taldi 24-30 manns, var sundrað og biskupi gert að flytja á mölina í Reykjavík. Til að fullkomna niðurlægingu hans var honum gert að búa við þau smánarlegu kjör að taka við vikuskammti í senn af mjöli, smjöri, bleki og tóbaki. Ábúandanum á Lambastöðum var gert að leggja honum til eitt kýrfóður af heyi árlega, en bústað fékk biskup í húsi því, sem enn stendur að Aðalstræti 10, og nú er verið að gera upp. Raunar átti hann upphaflega ekki að fá allt húsið, en náði því þó. Um þetta má lesa meira í bók Finns Sigmundssonar Geir biskup góði í vinarbréfum 1790-1823, bls. 66-78, sem út kom í Reykjavík 1966. Þar segist biskup eiga að flytja um miðjan september. Svo virðist sem sú áætlun hafi staðist, því frá 25. september 1806 eru bréf til hans með heimilisfanginu Reykjavík. Því eru sannanlega 200 ár um þessar mundir frá því að biskup Íslands settist að í höfuðstað landsins.

Aðalstræti 10 gekk lengi undir nafninu Biskupsstofan og þar bjó Geir Vídalín til dauðadags 20. september 1823. Eftirmaður hans, Steingrímur Jónsson, bjó reyndar í Laugarnesi árin 1826-1845. Það var þá enn í Seltjarnarneshreppi, en er á því svæði, sem nú telst til Reykjavíkur, og hefur verið það frá 1894.

Höfundur er fv. Dómkirkjuprestur og fv. staðarhaldari í Viðey.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.