[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ólaf Guðstein Kristjánsson Þegar komið er til Berlínar vekur mikill fjöldi kebapstaða athygli ferðamannsins. Þeir eru á nánast hverju götuhorni, enda er aðalrétturinn sem þar er boðið upp á - döner kebap - vinsælasti skyndibitinn í Þýskalandi.

Eftir Ólaf Guðstein Kristjánsson

Þegar komið er til Berlínar vekur mikill fjöldi kebapstaða athygli ferðamannsins. Þeir eru á nánast hverju götuhorni, enda er aðalrétturinn sem þar er boðið upp á - döner kebap - vinsælasti skyndibitinn í Þýskalandi. Til gamans má benda á að í Þýskalandi er kebap skrifað með "p" en í flestum öðrum löndum með "b".

Fjöldi kebapstaðanna fer svolítið eftir borgarhlutum en slá má föstu að þeir séu þó nokkrir í hverju einasta hverfi. Í borgarhlutunum þar sem Íslendingar eru tíðir gestir, í Mitte, Prenzlauer Berg, Kreuzberg og Friedrichshain, eru dönerarnir á hverju strái, en þar eru líka margir áþekkir staðir t.d. líbanskir, marokóskir og íranskir. En dönerinn á margt sammerkt með réttum líkt og shawarma. Hér verður þó einblínt á döner kebap sem segja má að sé blanda tveggja menningarheima og ætti að gefa góða mynd af bragðinu af Berlín.

Uppfinning tyrkneskra innflytjenda

Það voru tyrkneskir innflytjendur í Þýskalandi sem fundu upp döner kebap, í því formi sem hann er þekktastur, í kringum 1970. Tilgangurinn var að fella hann sem best að smekk Þjóðverja. Sögu hans má þó rekja aftur til 18. aldar. Þá var rétturinn úr lambakjöti, sem grillað var lárétt, skorið í sneiðar og borið fram með hrísgrjónum, sterkri sósu, bráðnu smjöri og papriku.

Rekja má svo uppruna döner kebap til bæjarins Oltu í Tyrklandi. Þar var kjötið, og er enn, skorið í þykkari sneiðar nú en gert er í Þýskalandi.

Dönerinn er oftast úr nauta- eða kjúklingakjöti sem þjappað er saman í sívalning sem grillaður er lóðrétt og oft bragðbættur með tómötum, lauk eða papriku. Á sumum kebapstöðunum líkist kjötið þó meir farsi, sem er ekki eins gott. Það má þekkja á því að þá er það sléttara og engar rifur á milli kjötlaganna. Dönerkjötið er skorið í mjóar ræmur, með stórum hníf, líkustum sveðju, eða vélskorið og sett í pítubrauð með grænmeti, þ.e. salatblöðum, lauk, tómötum og stundum rauðkáli, auk sósu. Sósutegundirnar eru þrjár: sterk sósa (sharf eða chili), jógúrt sósa (kräuter) og hvítlaukssósa (knoblauch). Svo ekkert fari á milli mála er beðið um döner kebap eða normal döner eigi hann að vera úr nautakjöti en chicken döner sé kjúklingakjöt málið.

Á dögum þriðja ríkisins dreymdi Hitler um að Berlín yrði höfuðborg heimsins og hugðist nefna hana Germaníu. Líklega hefði lítið verið þar um döner kebap, heldur mest þýsku réttina eisbein og sauerkraut. Berlín hefði þá ekki orðið sá fjölmenningarstaður sem hún er heldur fremur einmenningarstaður.

E.t.v. mætti ganga svo langt að nefna dönerinn samnefnara fjölmenningarinnar. Jafnvel nýnasistar gleyma kynþáttahatrinu og kaupa sér döner við og við líkt og aðrir í borginni...

Döner er ódýr

Berlín er lifandi borg og nóg að sjá og gera fyrir ferðalang. Í skoðunarferðum gefst ekki alltaf tími til setjast inn á veitingahús og seðja hungrið. Þá má grípa döner, afgreiðsla hans er snögg og flestir verða saddir af einum slíkum. Döner er líka ódýr, kostar oftast tvær evrur [175 kr.] og stundum bara 99 cent, en líkast til eru gæðin þá ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Dönerstaðirnir eru fjölmargir og til að finna staði sem falla að smekk landans brá ég á það ráða að biðja nokkra Íslendinga í Berlín að benda á góða staði. Einn staður stóð upp úr, enda oft verið tilnefndur besti dönerstaður Berlínar. Hann er við Rosenthaler Platz, þar sem Torstraße, Rosenthaler Straße og Brunnenstraße mætast. Annar staður, Kup'up 1, þar rétt hjá, er í persónulegu uppáhaldi og er sérstakur fyrir það að þar er alltaf spiluð Johnny Cash tónlist, sem kannski er ágætis dæmi um hið fjölmenningarlega bragð Berlínar.