ÍSLENSKUM flugrekendum var í gær kynnt viðbúnaðaráætlun sem Flugmálastjórn Íslands hefur unnið til að bregðast við því að tæplega 60 flugumferðarstjórar hafa ekki ráðið sig til starfa hjá Flugstoðum, sem taka við flugumferðarstjórn í kringum landið um...

ÍSLENSKUM flugrekendum var í gær kynnt viðbúnaðaráætlun sem Flugmálastjórn Íslands hefur unnið til að bregðast við því að tæplega 60 flugumferðarstjórar hafa ekki ráðið sig til starfa hjá Flugstoðum, sem taka við flugumferðarstjórn í kringum landið um áramót.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir að gangi viðbúnaðaráætlunin eftir megi búast við smávægilegum töfum á innanlandsflugi.

Í áætluninni er gert ráð fyrir því að tekin verði upp flugupplýsingaþjónusta á Reykjavíkurflugvelli og Akureyrarflugvelli, í stað þess að flugumferðarstjórar með fullgild réttindi verði í flugturnunum til að beina flugvélum inn til lendingar.

Árni segir að það geti valdið því að einhverja daga verði ekki hægt að lenda á Akureyrarflugvelli vegna skýjahæðar, sem myndi ekki vera vandamál eins og þjónustan sé nú. Ástæðan sé sú að hætta verði við flug verði skýjahæð undir 1.200 fetum en nú er ekki hægt að lenda sé skýjahæð undir 800 fetum.

Aukinn eldsneytiskostnaður

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að miðað við þá viðbúnaðaráætlun sem fulltrúa fyrirtækisins hafi verið kynnt í gær verði mjög lítil röskun á áætlun.

Þó megi gera ráð fyrir auknum eldsneytiskostnaði vegna þess að flugvélar geti ekki lengur hagað flughæð og flugleiðum eftir veðurskilyrðum, en hversu mikill sá kostnaður verði, og hvort hann muni sjást í verði flugmiða, þurfi að koma í ljós.

"Yfirvöld, það er að segja flugmálastjóri og ráðherra samgöngumála, hafa ítrekað fullvissað okkur og alla aðra um að það verði litlar sem engar truflanir á flugsamgöngum," segir Guðjón.

Í yfirlýsingu frá Flugmálastjórn kemur fram að flugöryggi skerðist ekki 1. janúar, eins og skilja megi af orðum formanns Félags flugumferðarstjóra í fjölmiðlum. Viðbúnaðaráætlunin miðist við fullt og óskert flugöryggi, bæði hvað varðar innanlands- og millilandaflug.