FASTEIGNAMAT hækkar um 20% á atvinnuhúsnæði og atvinnulóðum í Reykjavík, Kópavogi, á Seltjarnarnesi, í Garðabæ, Hafnarfirði, Egilsstöðum og Fellabæ, samkvæmt ákvörðun yfirfasteignamatsnefndar.

FASTEIGNAMAT hækkar um 20% á atvinnuhúsnæði og atvinnulóðum í Reykjavík, Kópavogi, á Seltjarnarnesi, í Garðabæ, Hafnarfirði, Egilsstöðum og Fellabæ, samkvæmt ákvörðun yfirfasteignamatsnefndar. Almennt mun matsverð íbúðarhúsa og íbúðarlóða, atvinnuhúsa og atvinnuhúsalóða, sumarhúsa og sumarhúsalóða, matsverð bújarða ásamt íbúðar- og útihúsum og matsverð hlunninda hækka um 10%.

Frá þessari almennu hækkun eru nokkrar undantekningar aðrar en greint er frá í upphafi fréttarinnar. Þannig hækkar fasteignamatsverð um 15% á íbúðarhúsum og íbúðarlóðum í Garðabæ, Grindavík, Vogum, Borgarnesi, Stykkishólmi, á Sauðárkróki, Hvammstanga, Skagaströnd, Dalvík, Húsavík, Reyðarfirði, Egilsstöðum, í Fellabæ, á Flúðum í Hrunamannahreppi og í þéttbýli í Snæfellsbæ. Matsverð atvinnuhúsa og atvinnuhúsalóða á Álftanesi, í Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Grindavík, Borgarnesi og á Selfossi hækkar einnig um 15%.

Matsverð íbúðarhúsa og íbúðarlóða í Grundarfirði og Bolungarvík hækkar um 5%.

Engin breyting verður á matsverði íbúðarhúsa og íbúðarlóða á Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Hnífsdal, Grímsey, Flatey á Skjálfanda, Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn, Bakkafirði, Vopnafirði, Bakkagerði, Breiðdalsvík, Djúpavogi, Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Matsverð atvinnuhúsa og -lóða verður og óbreytt í þéttbýli á Vestfjörðum frá Gilsfirði að Hrútafjarðarbotni, í Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Grímsey og Grýtubakkahreppi, í þéttbýli á Norður- og Norðausturlandi frá Kinnarfjöllum að og með Mjóafirði. Einnig í þéttbýli frá og með Breiðdalshreppi að og með Mýrdalshreppi og í Vestmannaeyjum.

Fjármálaráðherra hefur staðfest nýtt mat. Auglýsingin um fasteignamatið er dagsett 15. desember sl. en nýtt matsverð tekur gildi nú á gamlársdag.

Í hnotskurn
» Matsverð fasteigna verður óbreytt t.d. víða á Vestfjörðum, eins víða á Norðausturlandi, sunnanverðum Austfjörðum og í Vestmannaeyjum.
» Fasteignamat ríkisins hefur samið nýja fasteignaskrá.