Gísli Ágústsson fæddist á Brúnastöðum í Hraungerðishreppi hinn 12. janúar 1946. Hann lést á Sjúkrahúsi Suðurlands hinn 23. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Ágúst Þorvaldsson bóndi og alþingismaður og Ingveldur Ástgeirsdóttir húsmóðir. Systkini Gísla eru: Ásdís, gift Guðjóni Axelssyni, Þorvaldur, kvæntur Guðrúnu Guðfinnsdóttur, Ketill Guðlaugur, kvæntur Þórunni Pétursdóttur, Geir, kvæntur Margréti Stefánsdóttur, Hjálmar, kvæntur Ingibjörgu Einarsdóttur, Guðni, kvæntur Margréti Hauksdóttur, Auður, gift Jens Jóhannssyni, Valdimar, ókvæntur, Bragi, ókvæntur, Guðrún, gift Guðjóni Skúla Gíslasyni, Tryggvi, kvæntur Helgu Tryggvadóttur, Þorsteinn, kvæntur Margréti Jónsdóttur, Hrafnhildur, gift Oddi Bjarnasyni, Sverrir, kvæntur Helgu Sveinsdóttur og Jóhann, kvæntur Olgu Sveinbjörnsdóttur.

Gísli ólst upp í foreldrahúsum á Brúnastöðum og átti þar heimili fram yfir tvítugt en þá fluttist hann að Selfossi þar sem hann átti heimili til æviloka. Gísli vann á búi foreldra sinna á unglingsárum en fór 17 ára gamall á vetrarvertíð hjá Meitlinum í Þorlákshöfn þar sem hann vann nokkra vetur, en var ýmist heima eða í annarri vinnu á sumrin. Meðal annars hjá Halldóri bónda á Kiðjabergi í Grímsnesi. Þegar hann fluttist að Selfossi gerðist hann bifreiðastjóri hjá Kaupfélagi Árnesinga og starfaði þar allmörg ár. Nokkur ár vann hann sem sjálfstæður verktaki, aðallega við smíðar. Hann vann hjá trésmiðju Kaupfélags Árnesinga nokkur ár, en gerðist síðan starfsmaður hjá fyrirtækinu Fossmótum, þar sem hann vann meðan heilsan leyfði.

Gísli verður jarðsunginn frá Selfosskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Gísli mágur minn er dáinn og horfinn svo langt fyrir aldur fram. Þegar ég ung gekk inn í hina stóru Brúnastaðafjölskyldu tók það tíma að kynnast hverjum og einum. Ég minnist þess hversu hógvær og hlédrægur Gísli var.

Þegar við Guðni vorum flutt á Selfoss, í litla kjallaraíbúð á Kirkjuveginum, fórum við að ræða um að byggja okkur einbýlishús sem var nú ekkert auðvelt þá. Ég minnist þess að þá kom Gísli til okkar og sagðist sjálfur ætla að setjast að á Selfossi og lagði til að við myndum byggja hlið við hlið og hjálpast að við þetta verkefni. Við urðum afar glöð því Gísli var mikill hagleiks- og dugnaðar maður, allt gekk þetta eftir.

Í tuttugu og tvö ár bjuggum við á sama hlaðinu í Dælenginu og aldrei bar skugga á samskipti okkar. Það var gott að búa í nágrenni við Gísla, oft bað ég hann að rétta okkur hjálparhönd. Hann var einstaklega natinn og í bílskúrnum undi hann sér vel við smíðar og viðgerðir. Oftast var hann að vinna að einhverju fyrir systkini sín eða frændfólk.

Við mágkonur hans sögðum stundum að hann væri bónusvinningurinn okkar, alltaf hægt að biðja hann um greiða og hjálp þegar við þurftum einhvers við á okkar heimilum. Oft þegar Gísli var að vinna í bílskúrnum um helgar bauð ég honum yfir í mat eða kaffi. Þessar stundir í eldhúsinu geymi ég alveg sérstaklega, þá lék hann oft á als oddi og tíminn flaug. Aldrei fannst mér honum líða betur en þegar hann var að fást við eitthvað stórt og mikilvægt verkefni, ég tala nú ekki um væri það aðeins flókið viðureignar.

Gísli óx við kynni og hæverska hans var notaleg, hann var í eðli sínu hlýr maður og skemmtilegur, hafði til að bera kímni án þess að særa nokkurn mann. Hann gerði ekki mannamun og við börn og unglinga var hann bæði viðræðugóður og veitti þeim ekki síður af gestrisni sinni, átti gos í ískápnum og eitthvað gott í munninn.

Gísli var, eins og systkini hans öll, tengdur órofaböndum æskuheimilinu að Brúnastöðum. Foreldrum sínum var hann einstaklega trúr og tryggur. Hann var mikill náttúruunnandi og mörg sumur stundaði hann veiði á Brúnastöðum í Hvítá. Ég fann oft hvað veiðin bæði gladdi hann og heillaði enda kom enginn að tómum kofunum þegar rætt var um veiðiskap við hann. Okkur öllum þótti mikilvægt að hafa Gísla með í ráðum er erfitt verkefni bar að höndum. Hann þaulhugsaði hvernig í verkið yrði farið og fannst manni stundum að undirbúningurinn væri fullítarlegur. En alltaf kom í ljós að þaulhugsuð vinnubrögð Gísla skiluðu öllu í höfn á skömmum tíma. Aldrei kvartaði Gísli eða kveinkaði sér í veikindunum, hins vegar minnti hann okkur á að þessi tegund krabbameins væri illvíg og því væri rétt að búast við öllu. Að leiðarlokum vil ég þakka Gísla fyrir það sem hann var okkur Guðna og dætrunum. Það var sárt að sjá illvígan sjúkdóm bera þessa hetju ofurliði á svo skömmum tíma. Ég kveð kæran mág minn og góðan og tryggan vin. Far þú í friði , friður Guðs fylgi þér.

Margrét Hauksdóttir.

Fyrir um 30 árum fór ungur maður að starfa hjá Kaupfélagi Árnesinga við útkeyrslu á vörum í sveitirnar. Strax fannst mér ég þekkja þennan mann en hafði þó aldrei kynnst honum fyrr. Þessi maður bauð svo góðan þokka af sér að mér fannst eins og ég hefði þekkt hann alla tíð, hann var þægilegur í umgengni, viðræðugóður og traustur með sterkar skoðanir og stefnufastur. Gísli Ágústsson átti síðar eftir að verða mágur minn þegar ég fór að stíga í vænginn við systur hans og held ég að okkur báðum hafi ekki þótt það slæmur kostur að tengjast fjölskylduböndum, allavega var samband okkar afar gott og náið alla tíð.

Ég minnist fyrst og fremst allrar þeirrar hjálpsemi sem hann sýndi okkur hjónum eftir að við fórum að búa á Stöðulfelli. Sama hvort hann var að laga eða bæta í íbúðarhúsinu eða fjósinu, gera við vélar, allt lék í höndum hans og allt var traustlega gert og allt af samviskusemi unnið. Það er eins og hann hafi alltaf hugsað og unnið eftir því orðatiltæki ,,Vel skal til þess vanda sem lengi skal standa". Eftir að Gísli hætti hjá KÁ fór hann að vinna á eigin vegum þótt ólærður væri, var sama hvað hann fékkst við, allt lék í höndum hans enda laginn og útsjónarsamur svo af bar og var hann eftirsóttur í hverskonar vinnu og var maður oft undrandi á því hvað þekking hans var mikil á öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Eitt sinn spurði ég hann að því hvað honum þætti skemmtilegast að fást við. Hann sagði mér að múrverk þætti sér afar skemmtilegt því það væri svo skapandi form að vinna með. Eitt var það sem hann hafði mjög gaman af, það var laxveiði í net sem hann stundaði nokkur sumur á Brúnastöðum, enda var staðurinn honum afar kær alla tíð og var hann mikill kappsmaður að stunda veiðina og óþreytandi þótt stundum væri harðsótt. Í nokkur ár vann hann hjá Trésmiðju KÁ. En hin seinni ár hefur Gísli stundað smíðar með mági sínum Guðjóni Skúla Gíslasyni og fannst mér hann vera mjög sáttur við það. En í fyrravetur sagði hann mér að hann fyndi orðið til þess að hann hefði ekki sama úthald og hann hefði haft meðan hann var ungur maður. Ég brosti að því og fannst það ekkert skrítið því hann væri búinn að vinna alla sína ævi erfiðisvinnu og einhvern tímann myndu menn þreytast. Síðustu vikur hafa verið Gísla erfiðar, þessi hrausti og sterkbyggði maður varð að lúta ógnarvaldi sjúkdóms sem að lokum sigraði.

Að leiðarlokum vil ég minnast Gísla Ágústssonar sem trausts vinar sem alltaf var boðinn og búinn að hjálpa hvar sem hjálpar var þörf og eru öll systkinin honum þakklát fyrir að hafa átt svo góðan bróður að. Ég kveð kæran mág með auðmýkt og virðingu.

Oddur Guðni Bjarnason.

Það er aldrei auðvelt að kveðja, en fátt er eins erfitt og að kveðja góðan vin í hinsta sinn.

Þar sem Gísli er nú horfinn á braut úr þessu lífi er stórt skarð höggvið í fjölskylduna. Hann var einn hlekkurinn í þessari sterku fjölskyldukeðju.

Kynni okkar Gísla hófust fyrir tæpum tuttugu árum þegar ég giftist yngsta bróður hans og kom inn í þessa stóru fjölskyldu. Frá fyrstu tíð tókst með okkur góð vinátta. Gísli var mikill og góður verkmaður og ósjaldan var leitað til hans ef þurfti að ráðast í einhverjar framkvæmdir, annaðhvort til skrafs og ráðagerða eða hreinlega til að fá hann til að taka að sér verkið. Það lék allt í höndunum á honum og hann fann alltaf lausnina á vandamálunum, það var sama hvort um var að ræða bilanir í bílum eða framkvæmdir í húsamálum, hann hafði alltaf lausnina á reiðum höndum. Það er ekki svo sjaldan sem hann hefur rétt okkur Jóhanni hjálparhönd og erum við afar þakklát fyrir það.

Strákarnir okkar leituðu líka stundum til hans í skúrinn til að fá lausn á einhverjum vandamálum þegar þeir voru að smíða eitthvað og eitt sinn smíðaði hann fyrir þá stóran forláta vörubíl með sturtupalli og öllum græjum sem er mikil völundarsmíð. Þessi gripur er nú vel varðveittur til minningar um góðan frænda sem gaf sér tíma til sinna litlum pottormum.

Þegar leiðir skilur leitar hugurinn yfir farinn veg. Við eigum margar bjartar og góðar minningar um Gísla. Eina slíka bjarta minningu eigum við fjölskyldan frá því fyrir fjórum árum er hann kom með okkur Jóhanni og krökkunum í nokkurra daga tjaldferðalag um Snæfellsnesið. Krakkarnir skiptust á að fá að vera í bílnum með frænda sínum og var það mikið sport. Við fórum um Nesið þvert og endilangt, yfir vegi og vegleysur og þegar kom að vegleysunum tróðum við okkur öll í stóra jeppann hjá Gísla og ekkert stoppaði okkur. Krakkarnir rifja oft upp þessa skemmtilegu ferð.

Gísli var einstakt snyrtimenni og alltaf með allt í röð og reglu hjá sér. Nú síðustu tvö árin hafði Gísli verið að endurnýja ýmislegt í húsinu sínu. Þetta gerði hann allt saman sjálfur með hógværð og stillingu, smíðaði og setti upp innréttingar bæði í eldhúsi og á baði, setti parket á stofuna og flísalagði bæði í eldhúsi og á baði. Það helsta sem hægt var að hjálpa honum við var ef þurfti að lyfta þungum hlutum eða þ.h. þá kallaði hann oft í litla bróður sem gat komið til hjálpar. Allt annað sá hann sjálfur um að gera. Það var ekki laust við að ég væri svolítið upp með mér þegar hann vildi bera undir mig hvernig hann ætti að mála hjá sér bað og eldhús, samhliða öllum þessum endurbótum. Hann var mjög stoltur af framkvæmdunum í húsinu sínu og mátti vel vera það. Við fylgdumst grannt með hvernig húsið tók stakkaskiptum og komum regluleg í heimsóknir til þess. Það var alltaf gott að líta inn í Dælenginu. Gísli kom alltaf með kaffi og með því þegar við litum inn og alltaf átti hann öl, ís og nammi til að bjóða krökkunum.

Nú þegar komið er að leiðarlokum í þessu lífi hjá Gísla viljum við Jóhann og krakkarnir þakka honum samfylgdina.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Olga Sveinbjörnsdóttir.

Stórt skarð er höggvið í einstakan systkinahóp. Gísli Ágústsson frá Brúnastöðum hefur gengið götu sína alla eftir snarpa baráttu við illkynja mein.

Gísli var kær frændi og einstakur sómamaður. Hann markaði sér sérstöðu í æsku minni sökum þess að hann hafði orðið fyrir því óhappi að saga af sér litla fingur vinstri handar, en eftir því sem árin færðu mér aukinn þroska þá öðlaðist ég skilning á sterkri persónu hans. Gísli stendur fyrir margt í huga mér. Hann var vandaður í orði og verki, yfirvegaður, traustur, heiðarlegur og hreinskiptinn. Hann hafði ákveðnar skoðanir á flestum málum og því algengt að það væri leitað ráða hjá honum. Hann var vinur vina sinna og hjarta sínu trúr. Gísli var mikið snyrtimenni og hagleikssmiður; það lék allt í höndum hans. Vinnusemin var honum í blóð borin og hann hafði kjark og þor til þess að mæta og takast á við þau fjölmörgu og fjölbreyttu viðfangsefni sem á vegi hans urðu – og allt unnið að hans hætti; af heilum hug og með hjartað í för. Gísli hefur án efa sótt mörg af sterkustu persónueinkennum sínum til foreldra sinna, Ágústar og Ingveldar á Brúnastöðum. Á barnmörgu heimilinu varð Gísli, ungur að árum, þátttakandi í fjölbreyttum verkum sveitalífsins og upplifði ávöxt samvinnu og samtakamáttar. Sólin var hátt á lofti í sumar þegar meinið greindist. Gísli tók á móti því með baráttuvilja og stuðningi fjölskyldunnar. En meinið magnaðist og nú þegar sólin kemst vart upp fyrir sjóndeildarhringinn er hann allur. Já öllu er afmörkuð stund. Að lifa hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma. Ljóðið, Gamlar vísur um blóm eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, lýsir vel lokakaflanum á lífsgöngu Gísla:

Undir dumbrauðum kvöldhimni drúpir eitt blóm

með daggir á hálfvöxnum fræjum.

Og senn kemur haustnótt á héluðum skóm

og hjúpar það svalköldum blæjum.

Því veðrið er annað en var hér í gær

og vorið og sumarið liðið.

Hinn nafnlausi brunnur mun niða þér fjær,

hitt nálgast sem fyrir var kviðið.

Þú hræðist ei lengur þinn hlut og þinn dóm

en hjarta þitt glúpnar og viknar:

Undir dumbrauðum kvöldhimni drúpir eitt blóm

– að deyr kannski í nótt og bliknar.

Skuggi sorgar hvílir nú á þeirri miklu náð og blessun sem fylgt hefur systkinunum frá Brúnastöðum um langan tíma. Kærleikurinn, undirstaða alls, útdeilir ekki gleði án sorgar og minnir okkur á gildi lífsins. Kristur sagði: "Hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera." Hvíl í friði, kæri frændi. Minningin um góðan dreng lifir.

Jóhanna Guðjónsdóttir.

Glæsimennið Gísli Ágústsson er genginn á vit feðra sinna langt fyrir aldur fram.

Ég varð snemma aðdáandi frænda míns enda færni hans á sumum sviðum einstök. Gísli var sjálfmenntaður smiður, jafnvígur á tré og járn. Það var lærdómsríkt að fylgjast með Gísla við störf því að hvert smáatriði var skipulagt og því urðu verkin hans afar vönduð og sterk.

Eitt af áhugamálum Gísla var laxveiði í net og nytjaði hann veiðiréttinn á Brúnastöðum í nokkur sumur þegar ég dvaldi þar sumarlangt. Ég hygg að þetta hafi verið draumastarfið hjá frænda og þótti mér mjög spennandi að fylgjast með aflabrögðunum en hógvær var hann þó vel veiddist. Gísli var mikill bílaáhugamaður og það fyrsta sem ég gerði þegar ég hafði verslað mér bíla var að bjóða frænda í bíltúr og ef honum leist vel á ráðahaginn þá voru kaupin gulltryggð. Stundum leitaði ég til Gísla í tengslum við bílaviðgerðir og þá brást hann ávallt skjótt við og leysti vandann enda mikill vinnuþjarkur.

Í seinni tíð hefur fjölskyldan að Baugstjörn 1a átt margar góðar samverustundir með Gísla og dætur okkar hjóna hafa veitt þessum hægláta og trausta frænda mikla athygli. Ekki spillti það fyrir að frændi átti alltaf eitthvað góðgæti handa smáfólkinu enda höfðingi heim að sækja. Í vor sem leið færði Gísli okkur hjónum forláta málverk sem hann keypti á Kúpu í vetur. Þetta kom okkur hjónum í opna skjöldu en mun verða vel varðveitt sem minning um einstakan frænda.

Í sumar greindist Gísli með krabbamein en tók þeim tíðindum af karlmennsku og barðist gegn þessum illvíga sjúkdómi af fullum þunga fram á síðasta dag.

Gísla er sárt saknað í Baugstjörn 1a og votta ég systkinum hans mína dýpstu samúð.

Ágúst Guðjónsson.

Í örfáum orðum langar mig að minnast Gísla föðurbróður.

Frá því ég man eftir mér var Gísli alltaf mikill heimagangur á æskuheimili mínu í Gaulverjabæjarhreppi. Hann og pabbi voru miklir mátar auk þess sem Gísli var oftast fenginn heim ef eitthvað þurfti að laga eða hús var í byggingu. Gísli var handlaginn maður og vannst öll verk vel úr hendi, hann var líka einstaklega vandvirkur og ef hann gerði hlutina mátti maður vera viss um þeir voru vel gerðir. Gísli var líka snyrtimenni mikið og ég man þegar ég var krakki hvað mér þótti furðulegt hvað hann náði alltaf að halda verkfærunum sínum í röð og reglu.

Gísli var alltaf virðulegur og vel til fara og honum fylgdi píputóbaks- og saglykt enda reykti hann pípu og vann í trésmiðju stóran hluta ævi sinnar. Mér þótti pípan hans alltaf merkileg og hvernig hann geymdi píputóbakið í brjóstvasanum, tróð því í pípuna á milli verka og gaf sér góðan tíma til að kveikja upp í henni. Gísli var ekkert fyrir það að blaðra út í loftið en þegar hann kom heim, þó það væri til að vinna verk, gaf hann sér alltaf tíma til að tala við okkur krakkana, stríða okkur aðeins og spyrjast fyrir um okkar daglega líf.

Gísli var mikið heima á seinustu árum enda vann hann við nýja fjósbyggingu sem var tekin í notkun í sumar. Ekki grunaði mig þegar ég rakst á Gísla út í búð í nóvember að það yrði í seinasta sinn sem ég sæi hann, mér þótti hann þá óþarflega svartsýnn á að sjúkdómurinn næði að sigra hann enda grunaði engan að svo yrði í bráð. Við ræddum aðeins saman og svo kvaddi ég hann með orðunum: "Gaman að sjá þig". Þar sem að þetta var í seinasta sinn sem við sáumst voru þetta kannski viðeigandi kveðjuorð, enda þótti mér alltaf gaman að hitta Gísla frænda.

Blessuð sé minning hans.

Ingveldur Geirsdóttir.

Á Þorláksmessumorgun kvaddi Gísli Ágústsson jarðlíf sitt og hélt á vit feðra okkar. Eftir skamma baráttu við illvígan sjúkdóm sem að lokum hafði betur. Kynni mín af Gísla voru ekki talin í áratugum og hófust ekki fyrr en eftir að ég hóf samband með frænku hans og systurdóttur. Til að byrja með fannst mér Gísli vera lokaður maður og erfitt að kynnast honum og vera frekar til hlés. En það átti eftir að breytast þegar kynni okkar urðu meiri og betri. Hann fór ekki um með látum og gauragangi heldur hafði góða nærveru og var jarðbundinn og rólegur. Oft hafði ég gaman af því að taka upp spjall við hann um það sem efst var á baugi á hverjum tíma, hvort heldur það var um stjórnmálin eða eitthvað annað. Og enginn þarf að efast um að hann hafi haft ákveðnar skoðanir. Það kom oft fram og hann var þá ekkert að liggja á þeim. Því var oft gaman að ræða ákveðin málefni við hann og færa rök fyrir skoðunum sínum og ekki síður að hlusta á hann færa rök fyrir sínum skoðunum. Því Gísli var hreinskiptinn og skoðanafastur. Gísli var mikill hagleiksmaður og skipti þá engu máli hvort var á tré eða járn. Víst er að margir nutu þeirra gæða hans og það voru ófá verkin sem hann tók að sér fyrir ættingja sína, hvort heldur voru systkini eða börn þeirra. Gísli kvæntist aldrei og var barnlaus. En þrátt fyrir það umgekkst hann fjöldann allan af börnum enda systkinahópur hans stór og mikið af börnum í þeirra hópi. Öllum þeim var hann góður og umgekkst af mikilli nærgætni. Að leiðarlokum vil ég votta systkinum Gísla alla samúð mína um leið og ég veit að Guð mun styrkja þau í missi sínum.

Drottinn er minn hirðir, mig mun

ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig

hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég

langa ævi.

(23. Davíðssálmur.)

Helgi Sigurður Haraldsson.

Gísli frændi minn er nú fallinn frá, fyrr en mig óraði fyrir. Það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa til hans er að hann var mikill raunsæismaður. Hann sagði mér eitt sinn að maður ætti alltaf að horfa raunsætt á hlutina því þá yrði maður ekki fyrir vonbrigðum. Í minningunni er hann frændinn sem allt kunni og gat. Alltaf var hann kallaður til ef vandasamt verk þurfti að vinna. Þá brást hann hratt við og vann vel. Útlitið hafði hann með sér og var hann snyrtimenni mikið. Heimilið var alltaf sérstaklega vel um hirt og gaman að koma í heimsókn.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Inga Sjöfn Sverrisdóttir