— Ljósmynd/Jón Svavarsson
ÚTSKRIFT nemenda frá Menntaskólanum í Kópavogi fór fram 20. desember sl. við hátíðlega athöfn í Digraneskirkju. Alls útskrifuðust 47 stúdentar, 17 iðnnemar og 12 nemendur af skrifstofubraut. Þá brautskráðust 3 nemar úr meistaraskóla matvælagreina.

ÚTSKRIFT nemenda frá Menntaskólanum í Kópavogi fór fram 20. desember sl. við hátíðlega athöfn í Digraneskirkju. Alls útskrifuðust 47 stúdentar, 17 iðnnemar og 12 nemendur af skrifstofubraut. Þá brautskráðust 3 nemar úr meistaraskóla matvælagreina. Einnig útskrifuðust frá skólanum á þessu hausti 20 flugþjónustunemar þannig að alls voru brautskráðir 99 nemar frá Menntaskólanum í Kópavogi á þessu hausti.

Nýtt gæðastjórnunarkerfi í MK

Í máli Margrétar Friðriksdóttur skólameistara kom m.a. fram að á haustönn hefur verið í gangi umfangsmikil vinna að undirbúningi og innleiðingu á gæðastjórnunarkerfi skv. ISO 9001 sem er alþjóðlegur staðall um gæðastjórnunarkerfi og þær kröfur sem þarf að uppfylla. Stefnt er að því að sækja um vottun á kerfinu fyrir lok þessa skólaárs. Skólinn hefur ráðið gæðastjóra, Þór Steinarsson, sem hefur störf við upphaf vorannar 2007.

Upplýsingatæknin verkfæri í öllum námsgreinum

Fimm ára áætlun skólans um að gera upplýsingatæknina að verkfæri í öllum námsgreinum er nú að ljúka. Skólinn hefur sett sér áframhaldandi stefnu til ársins 2010 um að vinna áfram á þessari braut enda hafa flestir nemar skólans nú yfir að ráða fartölvu og kennarar hafa unnið mikið og óeigingjarnt starf við að skipuleggja áfanga í samræmi við upplýsingastefnu skólans.

Gullverðlaun í ferðamálakeppni

MK er aðili að Evrópusambandi hótel- og ferðamálaskóla en árlega er haldin Evrópukeppni á þessu sviði. Dagana 7.–12. nóvember sl. komu saman á Írlandi um 300 þátttakendur frá 33 Evrópulöndum til að keppa sín á milli. Fulltrúar MK og Íslands að þessu sinni voru ferðamálaneminn Íris Jóhannesdóttir og bakaraneminn Ragnar Th. Atlason. Þau sýndu bæði frábæran árangur og komu heim með tvenn gullverðlaun.

Góður námsárangur

Forseti bæjarstjórnar, Ármann Kr. Ólafsson, afhenti útskriftarnemum viðurkenningar úr Viðurkenningarsjóði MK sem stofnaður var af bæjarstjórn Kópavogs 1993. Tveir nemar hlutu viðurkenningu að þessu sinni: Stúdentarnir Valgeir Tómasson og Rúnar Helgason fyrir einstakan námsárangur en Rúnar var jafnframt að ljúka iðnmeistaranámi í bakaraiðn.