Flugeldafjör Fjörið byrjar svo fyrir alvöru hjá Harald Gunnar Halldórssyni, þegar heim er komið af brennunni. "Þá tökum við gjarnan góða skottörn fyrir skaupið sem öll fjölskyldan horfir saman á."
Flugeldafjör Fjörið byrjar svo fyrir alvöru hjá Harald Gunnar Halldórssyni, þegar heim er komið af brennunni. "Þá tökum við gjarnan góða skottörn fyrir skaupið sem öll fjölskyldan horfir saman á." — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flugeldar verða í forgrunni um helgina hjá Harald Gunnari Halldórssyni hjá Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur enda sér hann um flugeldamarkaði sveitarinnar ásamt fleirum.

Flugeldar verða í forgrunni um helgina hjá Harald Gunnari Halldórssyni hjá Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur enda sér hann um flugeldamarkaði sveitarinnar ásamt fleirum.

"Laugardagurinn verður dálítið sérstakur hjá mér því þá verður mestu vinnunni í kringum flugeldana lokið og við eigum bara eftir að selja," segir hann. "Það fylgir því mikil vinna að breyta björgunarmiðstöðvunum okkar í sölustaði. Við þurfum að setja upp hillur og raða vörunum í þær þannig að þetta verði þokkalega neytendavænt."

Selt án afláts

Hann segir vissulega þurfa að huga að eldvörnum í þessu sambandi enda strangar reglugerðir við lýði til að tryggja öryggi í kringum hinn eldfima söluvarning. Öflugur slökkvibúnaður sé á öllum sölustöðum en mesta vinnan í sambandi við eldvarnir gangi þó út á forvarnir. "Við þurfum að passa upp á að fólk sé ekki að skjóta í kringum staðina eða reykja inni í sölurýminu en það kemur fyrir að fólk áttar sig ekki á þeirri hættu sem er því samfara."

Laugardagurinn verður því helgaður flugeldasölunni. "Ég á nú ekki von á því að gera mikið annað en að vakna, selja flugelda og fara svo heim að sofa þann daginn."

Stærsti hluti sunnudagsins verður á svipuðum nótum hjá Harald. "Ég tek daginn snemma og fer yfir það sem þarf að redda fyrir daginn. Svo er selt án afláts fram að lokun sem er um fjögurleytið og eftir það þarf að ganga frá. Ætli við hugsum okkur ekki til hreyfings um sex- eða sjöleytið."

Farinn að líta í kring um sig

Harald segist heppinn því á gamlárskvöld er oftast hlaðborð hjá fjölskyldu hans svo það gerir ekki mikið til þótt honum seinki svolítið. "Maður hefur hlaupið upp úr baðinu og í fötin og oftast sleppur það rétt fyrir matinn. Á eftir er svo fólkinu smalað saman og farið á brennu, sem er alveg nauðsynlegt, þótt ekki sé nema til að ná flugeldasýningunni."

Fjörið byrjar svo fyrir alvöru þegar heim er komið af brennunni. "Þá tökum við gjarnan góða skottörn fyrir skaupið sem öll fjölskyldan horfir saman á. Reyndar fer ég yfirleitt út í bílskúr þegar skaupið er hálfnað til að kíkja aðeins á flugeldana og undirbúa skotin."

Eins og að líkum lætur er flugeldasýningin hjá Harald ekki af verra taginu. "Reyndar hef ég aðeins reynt að slaka á að undanförnu og horfa svolítið í kringum mig. Það eru bara nokkur ár síðan ég uppgötvaði að fleiri voru að skjóta upp en ég og ég varð mjög hissa þegar ég leit upp í himininn. Þegar grannarnir eru svo búnir að skjóta set ég allt í gang hjá mér."

Hann segir það hefð hjá fjölskyldunni að skála í freyðivíni þegar nýja árið gengur í garð. "Annaðhvort gerum við það inni í húsi þegar búið er að skjóta eða bara úti á miðnætti ef veðrið er gott."

Harald mælir með...

Að styrkja gott málefni og kaupa flugelda hjá Flugbjörgunarsveitunum.

Að fara á góða brennu og sjá flugeldasýningu.

Að njóta samverustundarinnar með fjölskyldunni á gamlárskvöld.

Að nota hlífðargleraugu og hanska þegar flugeldunum er skotið á loft og vera ekki í eldfimum klæðnaði á meðan.

Að fara í góðan göngutúr á nýársdag.