Úrsúla Jünemann
Úrsúla Jünemann
Úrsúla Jünemann fjallar um hraða í nútíma samfélagi: "Maður verður bara að læra að lifa með þessu, draga úr óþörfum ferðum á álagstímum og reyna að hvíla bílana sem oftast."

HRAÐINN í okkar þjóðfélagi er orðinn mikill. Enginn má vera að því að bíða, allt þarf að fara af stað sem fyrst og klárast á mettíma. Börnin okkar verða sífellt meira dregin inn í þessa tímavél sem snýst hraðar og hraðar. Aldrei hefur kynslóð verið vanrækt andlega jafn mikið og sú sem vex úr grasi núna. Börnin eru aftarlega í forgangsröðinni í dag. Þeim er komið fyrir í dagvistun, oft meira en 8 tíma á dag, í pössun á kvöldin og um helgar. Á meðan eru foreldrarnir að vinna langan vinnudag og sinna sínum áhugamálum þar fyrir utan.

Síðastliðin helgi fór ég eins og oft áður í sumarhúsið okkar, lítið hús við stöðuvatn. Þar sat ég á veröndinni og naut kyrrðarinnar, leyfði mér þann lúxus að gera ekkert neitt og lét hugann reika.

Það var fallegur haustdagur og sólin skein á litadýrðina. Öllum háværum vélbátum hafði verið komið fyrir í skýlunum og enginn var á svæðinu. Ég velti fyrir mér öll þessu stóru og glæsilegu frístundarhús sem stóðu ónotuð. Í sumar var ekki jafn friðsælt og stundum spurði ég manninn minn í gríni: "Eigum við að vera heima í garðinum að hlusta á hávaða í listflugsmönnum eða eigum við að fara í sumarbústað að hlusta á vélbátana?"

En án gríns: Þurfum við ekki aðeins að staldra við og spá í hávaðann í kringum okkur? Er ekki þörf á lögum um hávaðamengun? Mega einkaflugvélar, spíttbátar, mótorhjól og vélsleðar vaða endalaust yfir rétt þeirra sem vilja slaka á án hávaða? Og svo eitt: Þurfa menn virkilega öll þessi dýru tól og tæki til þess að öðlast hamingju? Eigum við kannski frekar að sleppa að kaupa allt þetta dót og gefa börnunum okkar meiri tíma í staðinn?

Umræðan um hraðakstur á þjóðvegum stendur núna hátt. Á leiðinni heim úr sumarhúsinu fylgdist ég með ökumanni sem fór fram úr mér þar sem ég ók á eftir þungaflutningabíl á 80 km hraða. Hann rétt slapp fram fyrir mig vegna þess að ég bremsaði harkalega niður. Ég sá ekki betur en að hann var með 2 börn í bílnum. Svo endurtók hann þennan hættulega leik með bílinn fyrir framan mig. Lengra komst hann ekki þegar ég beygði út af aðalveginum í Mosfellsbæ þar sem akreinin verður tvöföld. Hann græddi 5 sekúndur en setti sig og börnin tvisvar í lífshættu. Svona mönnum er ekki bjargandi og hér dugar ekkert nema öflugt lögreglueftirlit og háar sektir. Þessir menn setja svo sannarlega sig og aðra í hættu, miklu frekar en mótmælendurnir við Kárahnjúka. Þarna var á sínum tíma ekkert mál að vera með tugi lögreglumanna að abbast upp á friðsælt fólk. Mikið væru nú gott að hafa jafn öflugt lögreglulið í umferðaeftirliti.

Ég hugsa mikið um hvort hraðinn, stressið, hávaðinn og tímaleysið sé ekki afleiðing af skökku lífsgæðamati. Oft er minna meira. Það er svo hollt að geta sagt nei við sumt sem verið er að telja okkur trú um að maður verði að eiga. Og eitt í lokin: Lífshamingjan reiknast ekki í mínútum og klukkutímum. Ég er ekki sammála Illuga Gunnarsyni þegar hann fjallar um að umferðarhnútar skerði lífskjör (Fréttablað 8. október) Þar reiknar hann upp hve mikinn tíma og peningar tapast með því að sitja í umferðarteppu. Maður verður bara að læra að lifa með þessu, draga úr óþörfum ferðum á álagstímum og reyna að hvíla bílana sem oftast. Í raun og veru getur maður nefnilega notið lífsins þótt hægar kemst en ætlast er. Ef þú lendir í umferðateppu, reyndu þá að setja græjurnar á fullt og syngja með, það hefur slakandi áhrif. Og aldrei er maður jafn frjáls og þá því enginn heyrir hvort maður syngur vel eða illa.

Höfundur er kennari.