Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is "KASTLJÓSINU var fyrst varpað á Svölu á Listahátíð kvenna sem haldin var 1985, en í tengslum við hana var haldin kvikmyndahátíð.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

"KASTLJÓSINU var fyrst varpað á Svölu á Listahátíð kvenna sem haldin var 1985, en í tengslum við hana var haldin kvikmyndahátíð. Þá gátu konur úr kvikmyndageiranum þess að hún hefði verið fyrsta íslenska konan til að leikstýra kvikmynd. Þetta vakti enga athygli þá."

Viðar Eggertsson, útvarpsmaður og leikstjóri, er að tala um Svölu Hannesdóttur, en nú er talið víst að Svala hafi leikstýrt myndinni Ágirnd, sem gerð var árið 1952.

Í haust kom Kristín Jóhannesdóttir kvikmyndaleikstjóri í útvarpsþátt til Viðars, og sagði honum frá Svölu, en tilefnið var það að á Kvikmyndahátíð í Reykjavík sem þá stóð yfir var stofnuð Íslandsdeild alþjóðasamtaka kvikmyndagerðarkvenna. Þar hafði verks Svölu verið minnst. "Kristín kveikti í mér, með sögu þessarar konu," segir Viðar, sem fór að grafast nánar fyrir um hana.

Röddin og lesturinn heilluðu

Svala var meðal þeirra sem stunduðu nám í Leikskóla Ævars Kvaran áður en Þjóðleikhúsið var stofnað, og Viðari datt í hug að leita í safni Útvarpsins hvort eitthvað leyndist þar með leik eða lestri þessarar lítt þekktu listakonu. "Það hefur lítið varðveist frá þessum tíma. Það sem ég fann voru einhverjir leikþættir, ásamt ljóðalestri. Hún las stutt ljóð eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur. Mér fannst röddin og lesturinn heillandi, þannig að ég hafði samband við Vilborgu. Þá kom á daginn að þær höfðu verið samtíða og þekkst á árunum kringum 1950." Viðar hélt grúskinu áfram. Hann kveðst hafa fengið viðbrögð frá ættingjum Óskars Gíslasonar kvikmyndagerðarmanns við orðum Kristínar um að Svala hafi verið höfundur Ágirndar, en til þessa hefur myndin að öllu leyti verið talin höfundarverk hans. "Það vöknuðu spurningar um það hver sé höfundur myndar, hvort það sé leikstjóri, höfundur handrits eða framleiðandi, og mig langaði að leita svara við því hver höfundur Ágirndar væri." Viðar segir Ágirnd sérstaka mynd; hún sé í mjög expressjónískum stíl, og ólík myndum Óskars og öðrum íslenskum myndum þess tíma. "Þetta er mynd án orða, þar sem ljós og skuggar leika stórt hlutverk, tónlist er leikin undir, en myndin er 35 mínútna löng." Viðar hafði samband við Kvikmyndasafn Íslands og fékk að sjá myndina. Í kjölfarið hafði hann uppi á þeim sem höfðu leikið í myndinni, en talaði einnig við ættingja og vini Óskars Gíslasonar. Hann tók viðtöl við þetta fólk um gerð myndarinnar og samstarf Svölu og Óskars. "Með því að taka viðtöl við allt þetta fólk raðaðist smám saman upp mjög dramatísk mynd af Óskari og Svölu. Óskar Gíslason átti um tíu ára feril í kvikmyndagerð. Á miðjum ferli sínum hóf hann að gera leiknar myndir, en fékk þá jafnan leikstjóra sér til aðstoðar, oftast Ævar Kvaran. Svala leikstýrði hins vegar Ágirnd. Með því að fá lýsingar viðmælenda minna á því sem gerðist á tökustað erum við nokkru nær um það hvaða tökum Svala beitti við gerð hennar og hver hennar þáttur var í henni." Viðar segir að ekki fari á milli mála að Óskar hafi bæði framleitt myndina, tekið hana og klippt. "Svala virðist þó óvéfengjanlega hafa leikstýrt henni, eins og fram kemur í upphafi myndarinnar, en hún var líka höfundur sögunnar sjálfrar og sá um lýsinguna." Ágirnd var tekin á þremur dögum á sviði Þjóðleikhússins árið 1952, þar sem bestu aðstæður voru, ljósaborð og lýsing sem stíll myndarinnar krafðist.

Svala Hannesdóttir fæddist 15. desember 1928. 12 ára varð hún fyrir þeirri ógæfu, að sögn Viðars, að skæri fór í annað auga hennar og olli henni blindu á því. "Hana dreymdi um að verða listakona, en örið sem hún bar hefti hana í því að sá draumur gæti á þeim tíma ræst."

Svala var við leiklistarnám í Leikskóla Ævars Kvaran kringum 1950. Ágirnd var upphaflega látbragðsleikþáttur sem hún samdi fyrir skólann, en var lagaður að kvikmyndaforminu við gerð myndarinnar. Bæði upplifðu Óskar og Svala mikla persónulega erfiðleika í kjölfar Ágirndar að sögn Viðars. "Svala varð á vissan hátt gjaldþrota í sínu lífi, sem endaði í einmanaleika eftir dramatískt lífshlaup. Þegar hún var jarðsungin árið 1993 var hún öllum gleymd og ekkert skrifað um hana. Það má segja að uppgangur Svölu og Óskars við gerð myndarinnar hafi um leið verið hrun þeirra beggja."

Í hnotskurn
» Svala Hannesdóttir fæddist árið 1928. Hana dreymdi um að verða leikkona.
» Svala stundaði leiklistarnám í skóla Ævars Kvaran á árunum kringum 1950.
» Árið 1952 fór hún með leikþátt sem hún hafði gert fyrir skólann til Óskars Gíslasonar kvikmyndagerðarmanns og langaði til að gerð yrði úr honum kvikmynd.
» Svala leikstýrði kvikmyndinni Ágirnd, árið 1952, en Óskar Gíslason, sem var þekktur kvikmyndagerðarmaður framleiddi myndina og kvikmyndaði.
» Ágirnd olli mikilli hneykslan við frumsýningu og voru sýningar bannaðar um tíma.

Dreymdi um að verða leikkona

Leikstjórinn Viðar Eggertsson greinir frá atburðunum og lífi Svölu Hannesdóttur og Óskars Gíslasonar kvikmyndagerðarmanna kringum gerð kvikmyndarinnar Ágirndar, á rás eitt kl. 14.40 á morgun.